25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

59. mál, sundnám

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vona, að þær athugasemdir, sem jeg geri nú við þetta frv., verði ekki til þess að vekja miklar umræður. Jeg ætla ekki að tala um það, hvort það sje yfir höfuð rjett að gera sundnám að skyldunámi í skólum. Jeg vil aðeins geta þess, að jeg verð að álíta, að þetta sje ekki nægilega rannsakað eða athugað. Jeg var ekki viðstaddur, er frv. var hjer til 2. umr., og er ekki kunnugt um, að upplýst hafi verið um nokkurt dæmi til slíks annarsstaðar frá, en þó má það vera, að svo sje. En það, sem jeg hefi sjerstaklega að athuga við þetta frv. eins og það liggur fyrir, er það, að jeg tel hæpið í svona máli að svo sem afsala Alþingi löggjafarvaldi þess. Hjer er að vísu aðeins um heimild að ræða. Og þessi aðferð hefir tíðkast nokkuð mikið undanfarið, að þingið afsalar sjer a. m. k. nokkrum hluta af löggjafarvaldinu, og jeg álít, að hún sje dálítið varhugaverð.

Jeg veit, að hv. deild vill samþykkja þetta frv., og skal jeg ekki orðlengja frekara um þetta. En á þetta atriði vildi jeg þó drepa, og hefi líka gert það stundum áður við svipuð tækifæri. Jeg lít svo á, að þetta sje að afsala sjer löggjafarvaldinu í atriðum, sem í eðli sínu geta ekki átt að heyra undir sveitarstjórnir.