25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

59. mál, sundnám

Jóhann Jósefsson:

Jeg skal vera stuttorður. Vil jeg benda á það, að samkvæmt röksemdafærslu háttv. 1. þm. Eyf. er nú kominn tími til þess fyrir Vestmannaeyjar að minsta kosti að fara fram á slík heimildarlög sem þessi. Ef hann hefði tekið eftir því, sem jeg sagði við 1. umr., þá hefði hann getað sparað sjer að segja flest af því, er fram kom í síðustu ræðu hans. Hann segir nú, að þegar bæjarfjelögin hafi komið af stað sundkenslu, þá sje tími til kominn að setja svona lög. Í Vestmannaeyjum hefir verið kent sund á kostnað bæjarsjóðs og með ríkissjóðsstyrk áður en þær urðu kaupstaður; sundskáli er þar til og öll tæki hin nauðsynlegustu, og hefir svo verið í mörg ár. Það er því þessi hv. þm., sem hefir verið að andmæla málinu, sjálfur, sem með síðustu ræðu sinni viðurkennir óbeinlínis, að frv. hafi komið fram í tæka tíð, að því er snertir þá staði á landinu, þar sem sundkensla er þegar hafin. Þessir staðir munu vera ekki svo fáir, þó þessi hv. þm. ef til vill viti ekki til þess. Er því svo komið, að sá af háttv. deildarmönnum, sem einkum hefir lagst á móti málinu, er farinn að leggja því liðsyrði, þó óviljandi sje. Sýnist mjer því ekki ástæða til að orðlengja frekar um mál þetta.