24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

59. mál, sundnám

Bjarni Jónsson:

Það er svo með þetta mál, að annaðhvort er það holt og gott fyrir börn að nema sund, eða ekki. En hvort sem er, sýnist mjer misráðið af Alþingi að leggja það undir bæjar- eða sveitarstjórnir að ákveða, að sumir skuli læra sund, en aðrir ekki. Jeg efast ekki um, að sundnám sje til góðs, og fæ því ekki sjeð, hvers vegna Alþingi vill gefa út heimildarlög um það efni, í stað þess að gefa út lög um það, að allir unglingar sjeu skyldaðir til sundnáms, þar sem svo stendur á, að hægt er að kenna sund. Það er þess vegna óþarfur krókur að koma nú með heimildarlög í þessu efni og láta það svo ráðast, hvort bæjar- eða sveitarstjórnir gera nokkuð eða ekki. Og það er varhugavert fyrir Alþingi að gefa einstökum stofnunum svo og svo mikið af sínu löggjafarvaldi, og má slíkt ekki eiga sjer stað, nema brýn nauðsyn krefji. Auk þess gæti jeg vitnað í mörg heimildarlög, sem ekkert gagn hafa gert.