27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

59. mál, sundnám

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði eiginlega í mælt fyrir till. mínum, þegar mál þetta var hjer síðast til umr. Jeg vildi þá, að sundnám yrði gert að skyldu alstaðar þar, sem sundkensla fer fram á kostnað hins opinbera, en væri ekki komið undir sveitar- eða bæjarstjórnum. Annars hefi jeg ekki breytt frv., nema aðeins dregið saman greinar, og jeg má segja, að jeg hafi ekki fært neitt til nema þetta, að setja skyldu þar, sem aðeins var heimild fyrir bæjar- og sveitarstjórnir. Jeg játa, að það er mjög nauðsynlegt fyrir landslýð, að sund verði skyldunámsgrein um alt land. Og þar sem hjer er tekið fram, að það skuli aðeins vera þar, sem sund er kent á kostnað hins opinbera, þá er þess vænst, að það breiðist á skömmum tíma út um alt land, og er þá vel farið. Það er nauðsynlegt. að hver maður sje vel syndur eins og fyr á öldum. Þess er víða getið í sögum vorum, að Íslendingar kunnu vel að synda.

Aftur er það þvert á móti minni skoðun, að þingið feli nokkurri stofnun á nokkurn hátt að ráða nokkru um kjör þegnanna. Jeg álít það beint brot á skyldu Alþingis og landsstjórnar til að vernda rjett þegnanna. Það er gálaust að afhenda hinum og þessum stofnunum þann rjett, sem Alþingi eitt á að hafa, að setja þegnunum kosti. Þess vegna hefi jeg borið fram þessar brtt.

Jeg játa, að mjer er það ekkert kappsmál, hvernig atkvgr. fer í þessu máli. Það er fyrirfram vitað, að jeg tilheyri ekki stórum flokki hjer í þinginu, og sá flokkur hefir ekki heldur haldið neinn fund um þetta mál, og tek jeg mjer því ljett, hvort þeir menn, sem til hans teljast, greiða atkv. með till. eða móti. En jeg vildi vekja máls á þessu, því það er verst að þegja við ranglætinu. Annars er með minni till. ekki aðeins náð því, sem háttv. flm. frv. (JJÓs) vildi, heldur gengið feti framar. Yrðu lögin með meira viti og þjóðinni að meiri notum, ef þau næðu fram að ganga svo sem jeg hefi lagt til.