07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Vegna þess að tveir hv. þm., hv. þm. Dala. (BJ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), hafa talað um, að þær röksemdir mínar reki sig hvor á aðra, að kreppa sje fyrir dyrum og að ráðlegra sje að bíða eftir verðfalli með framkvæmdir, vildi jeg gefa nokkra skýringu.

Verðlækkun kemur af gengishækkun. Gengishækkun hefir nú staðið yfir eitt ár og gerir enn, en verðlækkun gerir enn lítið vart við sig. Hún fylgir líka sjaldan á eftir gengishækkuninni fyr en jafnvel ári seinna. Ef vjer hugsum, að gengishækkunin haldist til ársloka 1925, er óvíst, hvort búast má við samsvarandi verðlækkun fyr en í árslok 1926. Þeirri kreppu, sem á eftir kemur, fylgir verðlækkun, án tillits til pappírspeninga, sem breyta verðlagi. Kreppa byrjar jafnan þegar verðlag er hátt, og henni samfara er ávalt verðlækkun. Þetta hefir jafnan gengið svo til. Það er því alls ekkert ósamræmi að gera ráð fyrir hvorutveggja í kreppu verðlækkun og nokkurri kreppu fyrir atvinnuvegina.