06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

74. mál, slysatryggingar

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg þarf litlu að svara hæstv. atvrh. (MG). Jeg var ekki að kvarta yfir því, að nefndin hefði aðeins fengið 1 eintak af frv. Mjer fanst eðlilegt, að hæstv. stjórn væri ekki að kosta til að fjölrita það, þar sem hún gat ætlað, að nefndin ljeti flytja það í þessari hv. deild.

Það má vel vera, að hin skipaða nefnd hafi ekki formlega lokið störfum sínum fyr en í byrjun þings, og jeg veit, að hæstv. stjórn afgreiddi síðan málið mjög fljótt, og get jeg bætt við þakklæti mitt til hennar fyrir það.

Það er rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), að hann sagði við mig í fyrra, að hann teldi hæpið, að málið gengi fram á þessu þingi, þó milliþinganefnd yrði skipuð. En jeg sje ekki, að svo þurfi að vera. Nefndarskipunin í fyrra, eða öllu heldur samsetning nefndarinnar, var gerð með það fyrir augum, að þeir aðiljar, sem þessi tryggingarmál skifta mest, gætu komið sjer saman um grundvöll þann, er á skyldi byggja í málinu. Þannig áttu atvinnurekendur hjer í bæ fulltrúa í nefndinni og Alþýðusamband Íslands annan f. h. verkamanna. Og taldi jeg því líklegt, að ef þessir tveir aðiljar ásamt fulltrúa stjórnarinnar kæmu sjer saman um samningagrundvöllinn, þá gengi málið fram þegar á þessu þingi. Og þar sem nú þessir aðiljar hafa bæði komið sjer saman um grundvöllinn og jafnvel orðalagið, þá hefi jeg þessa skoðun enn, að málið komist nú fram.

Hæstv. atvrh. (MG) kvaðst ekki finna að því, að allshn. hefði athugað þetta mál þegar, þótt hjá henni lægju fleiri mál, sem fyr hefðu komið til hennar, en orð hans var varla hægt að taka öðruvísi en sem hálfgerðar ákúrur. Jeg verð nú að segja, að jeg held, að það sje algerlega ómögulegt fyrir nefndirnar að afgreiða málin í þeirri röð, sem þau koma til þeirra. Sum eru svo stór og umfangsmikil, að ef nefndirnar legðu allan tímann í að rekja þau, þá myndu tugir smámála safnast fyrir, en þau mál er hægt að afgreiða skjótt og láta með því hv. þd. hafa nokkuð að gera þegar frá byrjun. Annars myndu öll málin koma úr nefndunum í einni bendu á miðju þingi. (AF: Þetta er ekki smámál). Nei, það er ekki smámál, en það er nauðsynjamál. Jeg verð jafnvel að líta á það sem eitt hið mesta nauðsynjamál, sem liggur fyrir hinu háa Alþingi nú. Hinsvegar býst jeg við, að hv. formaður allshn. (MT) svari þessu, ef honum virðist ástæða til, en þar sem jeg sje ekki, að hann sje hjer viðstaddur, þá hefi jeg sagt þessi orð. En hitt skal jeg fús að játa, að jeg hefi heldur lagt til í nefndinni, að þessu máli væri gaumur gefinn, og held jeg, að vart muni rangt að stuðla að því, þar sem þetta er svo mikið nauðsynjamál, að full þörf er á, að það gangi fram á þessu þingi.