18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er víðast svo hjer á landi, að skipverjar og verkamenn vinna í sameiningu að fermingu og affermingu skipa, en hljótist slys af, fær skipverjinn bætur, þó ekki fullar, en verði verkamaðurinn fyrir slysi, á hann ekki rjett á bótum. Með þessu einfalda dæmi er raunar að fullu skýrð ástæðan fyrir því, að bæta þarf við slysatryggingar þær, er sjómenn hafa nú notið um nokkur ár.

Það er líka önnur ástæða til þess að auka við þau tryggingarákvæði, Sem fyrir eru, sú, að allskonar vjelaiðnaður fer nú stórum í vöxt hjer á landi, og er brýn þörf á, að þeir, sem hann stunda, sjeu trygðir, því að slys eru þar tíð.

Jeg skal svo ekki hafa lengri formála, en snúa mjer strax að einstökum greinum frv. Tel jeg rjett að fara um þær nokkrum orðum, því að þetta er að mörgu stórt mál og mikið nauðsynjamál.

Í fyrsta og öðrum tölulið 1. gr. eru taldir þeir flokkar, sem skyldutrygging laganna nær til. í a.- og b.-lið 1. málsgr. eru þeir, sem eftir núgildandi lögum eru þegar trygðir, sjómenn þeir, sem lögskráðir eru á íslensk skip, hvort heldur fiski- eða flutningaskip. Þarf ekki að skýra það, því að mönnum er það kunnugt. Hins má geta, að sjálfsagt er, að sjómenn þessir sjeu trygðir hvar sem þeir kunna að róa. Segi jeg það vegna þess, að sumstaðar þar, sem menn hafa róið í stuttan tíma, hafa þeir ekki trygðir verið. Í öðrum lið 1. gr. eru hin nýju ákvæði um atvinnuflokka þá, er trygðir skulu vera. Í a.-lið eru taldir þeir, sem vinna að ferming og afferming skipa, svo og þeir, sem vinna við vöruhús og vöruflutninga.

Ferming og afferming getur verið mjög hættuleg vinna, og hafa oft hlotist slys af henni. Einkum á þetta við úti um land, þar sem hafnir eru slæmar og brimasamt er. Verða þar oft slys við uppskipun í land og úr landi. Er því sjálfsagt, að menn, er vinna að slíku, sjeu fyrst og fremst trygðir fyrir slysum. Hjer í Reykjavík er þetta orðin stór atvinnugrein og mesti fjöldi, sem að henni vinnur, og þó að fá slys hafi af hlotist, sem betur fer, þar sem höfnin er góð, þá hafa samt komið fyrir smærri og stærri slys æðioft. Benda má og á, að hjer í nágrenninu varð stórslys í sambandi við þessa vinnu nýlega.

Þá er talað um verksmiðjuvinnu í b,- lið 2. málsgr. Undir þeim flokki er í öðrum löndum námuvinna talin hættulegust og slys þar tíðust. Hjer er hún tekin upp. þótt litla þýðingu hafi hjer á landi. Aftur á móti er hjer talsvert um verksmiðjur, t. d. trjesmíðaverksmiðjur, og þar er hætt við slysum, bæði að menn fari í sagir og verði fyrir hnífum. Er ekki langt síðan ægilegt slys af slíku varð hjer í Reykjavík. Sama máli gegnir um vjelasmiðjur. Þær eru nokkuð margar hjer og ýms hætta við slysum í þeim. Við vjelavinnu í prentsmiðjum verða oft smærri slys, svo og í skipasmiðjum, ullarverksmiðjum og að sjálfsögðu eins í síldarverksmiðjum. Þetta felur b.-liður í sjer auk annarar vinnu, þar sem notaðar eru aflvjelar, eða 5 eða fleiri menn vinna.

C.-liður ræðir um húsabyggingar. Er það fjöldi manna, sem að þeim vinnur, og slys ekki ótíð, t. d. að menn hrapi í stigum eða af pöllum, sem reistir hafa verið við byggingar, og hafa margir fengið slæm áföll. Er sjálfsagt, að menn sjeu því trygðir við vinnu þessa, þó mikil hlaupavinna sje; margir hafa þó fasta atvinnu við byggingar.

D.-liðurinn telur upp vegavinnu, brúargerð, hafnargerð o. fl. Eru einmitt mjög tíð slys við þetta, bæði við brúargerð og einkum þó við hafnargerð, og því brýn nauðsyn á, að mennirnir, sem að því vinna, sjeu trygðir. Hinsvegar er það mest hið opinbera, sem lætur vinna þessa vinnu, ríkið, sveitarfjelög eða kaupstaðir. En skilyrðið fyrir tryggingarskyldu þeirra, sem nefndir eru í 2. tölul., er, að starfið sje rekið annaðhvort fyrir reikning ríkis eða sveitarfjelags, eða þá einstaklings eða fjelags, er hefir það að atvinnu. Og jeg vil taka það fram viðvíkjandi uppskipun, að jeg tel, að sjálfsagt sje, að menn sjeu trygðir við hana hvar sem er á landinu. Þannig ber öllum kaupmönnum og kaupfjelögum að tryggja verkafólk sitt við það starf, þótt á afskektum stað sje og vörur komi þangað ekki nema einu sinni eða svo á ári.

Viðvíkjandi tryggingarskyldunni er það að segja, að hún hvílir á atvinnurekendunum. Þeir eiga að sjá um, að verkamenn sínir sjeu trygðir, láta skrásetja þá og yfirleitt að uppfylla þau fyrirmæli um þetta, sem sett eru, sumpart með lögunum og síðar koma með reglugerð. Er þetta hliðstætt því, sem nú gildir um slysatrygging sjómanna.

2. gr. mælir fyrir um nýja stofnun, er sett skuli á fót og kölluð er „Slysatrygging ríkisins“. Er það raunar ekki ný stofnun fyllilega, því nú er til samskonar stofnun, þar sem „Slysatrygging sjómanna“ er. Kostnaðurinn við stjórn ríkistryggingarinnar greiðist eins og við stjórn sjómannatryggingarinnar úr ríkissjóði. Ætti sá kostnaður ekki að þurfa að aukast frá því, sem nú er, neitt að mun. Síðastliðið ár var greitt úr ríkissjóði til stjórnar slysatryggingarinnar 5600 kr. Var það til þriggja stjórnenda, sem lögskipaðir eru, svo og til læknis, er þeir rjeðu sjer til að meta slys og bætur fyrir þau, og loks til tveggja endurskoðenda. Auk þess greiðir sjóðurinn sjálfur 2200 kr. til skrifstofukostnaðar, og tel jeg, að ekki væri ósanngjarnt, að svo hjeldist áfram, og aðeins hinn beini stjórnarkostnaður væri greiddur úr ríkissjóði. Búast má við, að starf stjórnarinnar aukist nokkuð við það, að auknar eru tryggingarnar, en ætla má, að það verði einkum fyrst í stað, meðan þetta er að komast á laggirnar, en þegar það er komið í fast horf, verður stjórnarstarfið að minsta kosti nokkuð auðveldara og starfið mestmegnis skrifstofustarf. Getur vel verið, að heppilegt væri þá að ráða aðeins einn mann til stjórnar og til að hafa skrifstofustörfin á hendi, en ekki er enn upp á því stungið, enda best að láta við svo búið standa sem er fyrst um sinn og læra svo af reynslunni.

Í 4. gr. eru taldar upp bætur fyrir slys. Eru þær hinar sömu og í sjómannatryggingunni, þ. e. örorkubætur 4000 kr. og dánarbætur 2000 kr. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg tel hvorttveggja of lágt. En það varð samkomulag að halda sjer við þetta, og þó jeg væri ósamþykkur einu og öðru, vildi jeg ekki gera það að ágreiningsefni, heldur teygja mig svo langt, er jeg gat, til þess að stuðla að því, að málið fengi fram að ganga. Hitt er annað mál, að hækka beri þær bætur, þar sem sjerstaklega er hætt við slysum, svo sem við sjómensku. En það liggur ekki beint fyrir að tala um það nú.

Annars má geta þess til samanburðar, að þessar bætur eru talsvert hærri í öðrum löndum. Örorkubætur munu vera um 12000 kr. í Danmörku og Eimskipafjelagið hjer greiðir 8000 kr. dánarbætur. Samkvæmt till. nefndarinnar skiftast dánarbætur á sama hátt og eftir lögunum um slysatrygging sjómanna.

Í 6. gr. eru alveg ný ákvæði. Þar er sem sagt aðalbreytingin frá því, sem verið hefir, eða sú, að atvinnurekendur eru skyldir samkv. henni til að greiða iðgjöld verkamanna sinna, þeirra sem trygðir skulu vera. Hefir talsvert verið um þetta rætt, en nefndin, sem samdi frv., hefir gert mjög skýra grein fyrir því, enda venjan orðið þessi alstaðar annarsstaðar. Eru tryggingar yfirleitt greindar þannig, að verkamenn annast sjálfir að mestu sjúkra- og ellitryggingar, en atvinnurekandi slysatryggingarnar.

Víst er það, að þetta hefir í för með sjer nokkur aukin útgjöld fyrir atvinnurekendur, einkum þá, sem hafa stóran atvinnurekstur, en ef athugað er, þá er það ekki ákaflega mikið, sem kemur á hvern. Mjer hefir talist svo til, að á togara, sem hefði að jafnaði 25 menn lögskráða alt árið, yrðu þessi gjöld — ef sama iðgjald helst — 1300 kr. á ári. Kalla jeg það ekki mikið, en auðvitað eykst það eftir því sem atvinnureksturinn er stærri. Jeg hefi og verið að athuga, hvað Eimskipafjelagið hjerna í Reykjavík þyrfti að borga í iðgjöld fyrir starfsmenn sína. Síðastliðið ár greiddi það 150 þús. kr. í vinnulaun. Miðað við það, að gjaldið væri 1 eyrir um klukkutímann og hjá fjelaginu væru 50 menn, sem ynnu hver um sig 247 daga, eða 2470 kl.st., þá yrði ársgjald fjelagsins af hverjum manni 24 kr. 70 aur., eða alls 1235 kr. á ári. Virðast það ekki mikil útgjöld, miðað við vinnukaupið.

Ef hin leiðin er aftur á móti farin og reiknað með helmingi lægra vikugjaldi en í slysatryggingu sjómanna, eða 50 aurum á viku, yrði ársgjald fjelagsins ekki nema 875 kr. á ári. Sakir þess, hve tiltölulega fátíð slys eru við þessa vinnu, virðist það gjald vera nægilegt, og meira en það, til að standast þau slys, sem af kynnu að verða. En nefndin mun samt yfirleitt hafa gengið út frá hinu, að reiknaður væri 1 eyrir um klukkutímann í slysatryggingagjald.

Hefir mjer og verið sagt, að hjá því fjelagi hafi verið lítið um slys við uppskipun og vinnu í sambandi þar við, eða aðeins þrjú. Í fyrsta skifti fjekk maður, sem þar var við vinnu, högg á höfuð af staur. Var honum bættur sjúkrahúskostnaður með 200 kr. Öðru sinni varð maður milli skipa, og honum var bætt slysið með 300 kr. Og í þriðja sinn meiddist maður á hendi, og fjekk hann eitthvað svipaðar bætur. Jeg tala aðeins um afgreiðslu Eimskipafjelagsins hjer, en ekki um afgreiðslur þess úti um land. Hjer í Reykjavík er öll uppskipun miklu hættuminni, því að hjer er vel hugsað fyrir öllu, og góð verkstjórn og vanir menn, sem vinna. Úti um land er hættan meiri, þar sem hafnleysi er og brimasamt.

Um skiftinguna í áhættuflokka má ef til vill segja það, að hún sje ekki fullkomin, enda verður reynslan að sýna, hvernig þessu skuli haga. Verður því að þreifa sig áfram um það, hvað best þykir henta. Stjórnarráðið setur reglugerðir þar um, auðvitað eftir tillögum stjórnar Slysatryggingarinnar, er skipuð verður jafnskjótt og lögin ganga í gildi. Getur stjórnarráðið og gert breytingar á þessari skiftingu í áhættuflokka hvenær sem þurfa þykir.

Um 7. gr. frv. er það að segja, að iðgjöld sjómanna eru ekki ákveðin, fremur en önnur gjöld. Þetta ákveður stjórn Slysatryggingarinnar. Þó er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki þátt í iðgjöldum fyrir sjómenn á smábátum, bæði mótor- og róðrarbátum, eftir sömu hlutföllum og hingað til hafa gilt.

Þá er og gert ráð fyrir því í 8. gr., að sama gildi og áður um þá menn, er skifta um skiprúm, að sá, er kemur í annars stað, skuli þegar trygður, og að útgerðarmanni skuli skylt að tilkynna mannaskiftin tafarlaust.

Í 9. gr. er talað um fyrirkomulag það, sem á að vera á vinnuskrám og tilkynningum þeim, er Slysatryggingin á að fá. Allshn. er á þeirri skoðun, að Slysatryggingunni beri að sjá um útgáfu eyðublaða, og ættu þau að fást ókeypis hjá lögreglustjórum og hreppstjórum. Þessi eyðu blöð þurfa að vera skýr, til þess að fyrirbyggja allan glundroða, og þeirra er þörf, vegna þess, að ef hafa ætti sitt formið í hverjum stað, þá gæti orðið torvelt að vinna úr skýrslunum og ekki víst, að alt kæmi þá fram, sem í slíkum skýrslum þarf að standa.

Þá kemur 11. gr. Í lögunum um slysatrygging sjómanna er svo fyrirmælt, að vanræki útgerðarmaður að tryggja menn, og slys verði, skuli hann skyldur til að greiða dánarbætur, og sæti auk þess sektum. Þetta þykir heldur hart, og því er aðeins sett það ákvæði, að í slíku tilfelli greiði sá, er brotið hefir, tvöfalt iðgjald, og svo sektir að auki. Þyki þetta enn of hart, má auðvitað gera þar á breytingar í framtíðinni.

Í 14. gr. frv. er samskonar ákvæði og nú er í lögum um slysatrygging sjómanna, að ekki megi framselja kröfu um dánarbætur. Þetta atriði er sett inn vegna eftirlifandi vandamanna, svo að ekki sje hægt að taka dánarbætur upp í skuldir, og það telur nefndin sjálfsagt.

Í 15. gr. frv., og einnig í 16. og 17. grein, er gert ráð fyrir því, að fleiri geti trygt sig en þeir einir, sem tryggingarskyldir eru. Sjerstaklega er þetta tekið fram í 17. gr., því að þar eru sett ákvæði, sem heimila atvinnurekendum að tryggja sig og verkamenn sína í slysatryggingarstofnun ríkisins, þótt þeir sjeu ekki tryggingarskyldir. Þetta er mikill kostur, því að víða, t. d. í trjesmíðavinnustofum og í smiðjum, vinna færri menn en ráð er fyrir gert, að tryggingarskyldan nái til, en þeir mundu líka vilja tryggja sig, og býst jeg því við, að þetta yrði þó nokkuð notað, því að ekki er síður þörf tryggingar í ýmsum vinnustofum, þar sem eru 2–3 menn, heldur en þar, sem fleiri eru.

Þá er 18. gr. um eftirlitsmenn. Hún er sett til þess að tryggja atvinnurekendum rjett til þess að hafa hönd í bagga um skiftingu í áhættuflokka og tryggja þeim það. að ekki sje á þá hallað. Síðast í greininni er talað um 2 fulltrúa, sem eru nokkurskonar meðstjórnendur í Slysatryggingunni. A annar þeirra að vera frá útgerðarmönnum, en hinn frá Alþýðusambandi Íslands. Jeg hefði nú fyrir mitt leyti kosið það heldur, að fulltrúi Alþýðusambandsins hefði verið í stjórninni, en um það fjekst ekki samkomulag í nefndinni.

Kem jeg þá að 19. gr. Þar er sú breyting frá því, sem nú er, að ábyrgð ríkissjóðs verði ótakmörkuð, en áður var ábyrgð hans bundin við 30 þús. kr. En þótt þetta sje svo, er það alveg áhættulaust, vegna þess, að þótt ríkissjóður yrði að hlaupa undir bagga, er stórslys ber að höndum, líkt og nú varð fyrir skemstu, þá mundi það endurgreiðast aftur frá Slysatryggingunni. Tel jeg því áhættu ríkissjóðs enga.

Með 20. gr. eru úr gildi numin lög um slysatryggingu sjómanna og mælt svo fyrir, að Slysatryggingin taki við eignum og skuldbindingum slysatryggingarsjóðs sjómanna.

Þá kem jeg að brtt. nefndarinnar. Þær eru 16 alls, en eins og í nál. stendur, eru það flest orðabreytingar — fært til betra máls. Þó eru ef til vill tvær þeirra efnisbreytingar.

Nefndin leggur til, að við 2. gr. frv. sje bætt lögregluþjónum, tollþjónum, vitavörðum og starfsmönnum við vita. Nefndin stakk upp á því sjálf, að lögregluþjónum og tollþjónum væri bætt við, en eftir bendingu frá vitamálastjóra voru hinir teknir með, og býst jeg ekki við, að það sæti neinum mótmælum.

Í 5. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að greiða skuli til óskilgetinna barna 400 kr., en 200 kr. til skilgetinna barna, og óskilgetinna, ef þau eru á framfæri á heimili hins látna. Nefndin leit svo á, að þessi breyting frá því, sem nú gildir, skifti ekki mjög miklu máli. En með brtt. sinni vildi hún aðeins koma í veg fyrir það, að barn yrði sent burtu í yfirvarpsskyni, aðeins til þess að ná í hærri bætur fyrir það.

Brtt. við frv. þetta hafa ekki komið frá öðrum þm. en háttv. þm. Mýra. (PÞ), en nefndin gat ekki fallist á hana. Það mun hafa vakað fyrir hv. þm. að láta bætur koma niður þar, sem. hinn látni hefði helst óskað, en það næst ekki með þessari tillögu. Þarf miklu lengra mál til útlistunar því, ef það ætti að vera tæmandi.

Þá eru víst ekki fleiri breytingar, sem jeg þarf að tala um. Það má náttúrlega segja um frv. í heild, að það komi ekki á ahnennum slysatryggingum, vegna þess, að ekki falli allar atvinnugreinir undir það. En með vaxandi reynslu má bæta við því, sem á kann að vanta. Og dettur mjer þá í hug, að bæta þurfi við þeim mönnum, sem vinna einhvern lítinn tíma árs áhættusama vinnu, svo sem fugla- og eggjatekju í björgum. Þeir ættu að fá að tryggja sig. Svo er og um fjárleitarmenn á haustin. Það hefir ekki ósjaldan komið fyrir, að þeir menn hafa orðið úti, og hefir mjer því komið til hugar, að gera þyrfti breytingar á frv. í þá átt, að slíkir menn gætu trygt sig. Að minsta kosti ætti sjóðurinn, þá er hann eykst, að gefa mönnum kost á því að tryggja sig um stuttan tíma, og þá fyrir lágt gjald. Þetta hefir ekki verið rætt í nefndinni, og segi jeg það því frá eigin brjósti.

Það er til einn flokkur manna, sem ætti að koma undir b.-lið 1. gr. frv., og það eru póstar. Mætti ef til vill koma þeirri breytingu inn við 3. umr.

Hefi jeg nú talið það helsta, er mjer þykir máli skifta, en skal bæta því við, að allshn. telur það mjög mikilsvert, að frv. nái fram að ganga.