07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. fyrri kafla (Þórarinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja, enda er fátt af hv. þm. í salnum, og hv. þm. Ak. (BL) sje jeg ekki. En við hann vildi jeg segja það, vegna þeirra orða hv. þm., er hann sagði við 2. umr. þessa máls og jeg vildi þá ekki lengja umr. með að svara, að læknar hjeldu sjúklingum í hagsmunaskyni í sjúkrahúsum lengur en þörf væri. Vil jeg bera slíkt ámæli bæði af Jónasi lækni Kristjánssyni, sem þessum ummælum virtist einkum stefnt til, og öðrum læknum, er jeg þekki.

Hjer var minst á tekjuhlið fjárlagafrv. af hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem vildi halda því fram, að meðaltal mitt væri ekki rjett, af því að gengisviðaukinn væri ekki lagður við. á fyrri árin og væri ekki nema á 3/4 ársins 1924. En hjer ber þess að gæta, að í fyrsta lagi hækkaði jeg upp alt árið 1924 fyrir gengisviðaukanum, og svo er hitt, að þó að þetta atriði sje tekið til greina, þá verður ekki bygð á því einhlít áætlun, því að komi kreppa, þá dregur úr innflutningnum, og verði innflutningurinn minni en við er búist, þá minka tekjurnar. Annars er ekki til neins að þrátta um tekjurnar, því að þær verða þær sömu, hvort sem áætlunin er hækkuð eða ekki. Vísa jeg annars í þessu efni til þeirra umr., sem áður hafa orðið um það atriði, og læt svo úttalað um það.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) mintist mín í sambandi við landsspítalann og kvað mig vilja draga úr því, að nokkuð yrði framkvæmt í því efni. Háttv. þm. sagði, að nú væru góðar ástæður í landinu og mundi svo verða næsta ár. Það, sem jeg sagði um þetta, var, að betra væri að bíða nú 1–2 ár heldur en að eiga það á hættu, að framkvæmdir í þessu efni teptust á miðri leið. Jeg skal benda á það, að eftir 1–2 ár er ætlast til þess, að ríkið leggi fram um 600 þús. kr., og verði þá komin kreppa, mætti svo fara, að það gæti ekki reitt af höndum svo mikið fje. Mætti þá vel fara um landsspítalann eins og t. d. viðbótina við geðveikrahælið á Kleppi, sem byrjað var á, en nú hefir legið niðri fleiri ár, og er því sama sem ógerð. Og enn má nefna Eyrarbakkaspítalann. Jeg held þess vegna, að það sje ekki ófyrirsynju að bíða með þetta 1–2 ár. En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá er jeg hlyntur málinu og tel, að það eigi að ganga á undan t. d. heilsuhæli á Norðurlandi.

Þá er ein brtt. á þskj. 318, sem fjvn. hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um. Það er till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um, að veittar verði 2500 kr. til þess að gera fullkomið efnisyfirlit og registur yfir Stjórnartíðindin. Jeg játa, að þetta sje nauðsynlegt, þar sem það hefir ekki verið gert síðan 1915. En vegna þess, eins og jeg tók fram áðan, að nefndin hefir ekki getað borið sig saman um till., þá vil jeg leggja það til við hv. flm., að hann taki hana aftur til einnar umr., svo að nefndin geti athugað málið í samráði við stjórnina; meðal annars, hvort ekki sje hægt að komast af með minna fje. En verði hv. flm. (JBald) ekki við þeim tilmælum, þá hefir nefndin óbundin atkv. um till.