18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

74. mál, slysatryggingar

Sigurjón Jónsson:

Aðeins nokkrar bendingar til hv. nefndar. 1. gr. a. hljóðar svo: „Farmenn og fiskimenn, sem lögskráðir eru á íslensk skip“. Þarna er átt við þau skip, sem skyld eru að skrá sína háseta. Jeg vil beina því til hv. nefndar, hvort hún ætlist ekki til, að tryggingarskyldan nái einnig til þeirra manna, sem undir einstökum kringumstæðum er ekki hægt að lögskrá. Það er þráfaldlega að svo ber undir, að þau skip, sem hafa skipshöfn lögskráða, vantar skyndilega mann á þeim tíma sólarhrings, sem ekki er hægt að fá lögskráningu, og verður hann að fara þá ferð óskráður. Virðist þá rjett, að skylt sje að gefa upp nafn hans í skrifstofunni morguninn eftir og fá hann líftrygðan, þótt ekki sje lögskráður, og hefir þetta jafnvel orðið víða að venju.

Þetta atriði tel jeg heppilegt, að komi fram, sjerstaklega vegna þess, að dálítið er um það deilt, hvort löglegt sje að líftryggja þá sjómenn, er vantar lögskráningu.

Þá vildi jeg taka undir það, sem hv. þm. Borgf. (PO) benti á, að einstakar atvinnugreinar, sem gert er að skyldu að slysatryggja við, eru alls ekki hættusamari en aðrar, sem ekki eru nefndar. Og það kennir beinlínis ósamræmis milli ákvæðanna í 1. lið b. og 2. lið b., því að auðvitað er meiri áhætta við það að vera sjómaður á bát, þó að ekki sje nema 3 vikur á ári, heldur en við að stunda reitavinnu í kaupstöðum lítinn tíma að sumrinu.

Jeg vildi beina því til nefndarinnar, hvort ekki væri rjett, áður en hún sleppir algerlega svona stórfeldum lagabálki frá sjer, að reyna að draga úr öllum þessum skriffinskuákvæðum, skýrsluútfyllingum og fádæma pappírseyðslu, sem frv. þetta hefir í för með sjer, verði það samþykt eins og það liggur fyrir. Við vitum, að öll óþarfa skriffinska og umbúðir gera öll lög óvinsæl í framkvæmdinni, hvað góð sem þau kunna annars að vera.

Það er tekið svo margt upp í þetta frv., sem jeg get ekki sjeð, hvernig eigi að framkvæma. Og eigi að taka alt bókstaflega, sem í því stendur, þá sje jeg ekki betur en að lögin eigi t. d. að ná til þess verkafólks, sem vinnur við fiskbreiðslu. Það er vanalega ígripavinna fáar stundir á dag, og marga daga ekkert að gera, og oftast börn og gamalmenni, sem í þetta hlaupa. Mjer er óskiljanlegt, hvernig verði hægt að láta lögin ná til slíkra manna, nema þá með óþarfa skriffinsku og skýrsluútfyllingum, sem vitanlega yrði meira eða minna handahófsvinna. Sama er að segja um vegavinnu. Öllu þessu væri rjettara að sleppa, auk þess sem hjer er um tiltölulega mjög litla áhættu að ræða, en fyrirhöfnin mikil að koma þessu í framkvæmd. Það mætti þá alveg eins taka heyskap; það er engu minni áhætta við hann heldur en sumt af þessu.

Sama er og um fermingu og affermingu skipa; mjer finst nokkuð langt gengið að setja það í lögin. Við skulum hugsa okkur dæmi: Farþegi einhversstaðar úti á landi þarf að komast út í skip, sem liggur nokkuð frá landi; hann er kannske með litla handtösku meðferðis og fær tvo menn til þess að koma sjer út í skipið. Hann borgar mönnunum vinnuna, en samkvæmt frv. þessu eru þeir í þjónustu hans og hann húsbóndi þeirra þessa stundina, og ætti því að tryggja þá fyrir slysum þessa stund, sem þeir eru að vinna fyrir hann. Hvernig væri nú hægt að heimta það af farþeganum, og hvernig ætti að framkvæma annað eins og þétta? En svona mætti fleira telja. Jeg álít, að frv. eins og það er fari alt of langt í smámununum. Það mun hollara að sleppa heldur einhverju í byrjuninni en að taka of mikið. Alt óþarfa vafstur og öll skriffinska spillir jafnan fyrir góðu máli.