18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

74. mál, slysatryggingar

Pjetur Ottesen:

Hv. þm. V -Sk. (JK) vildi bera okkur það á brýn, sem gert höfum athugasemdir við þetta frv., að það væri sprottið af því, að við hefðum ekki lesið frv. Hjer skjátlast hv. þm. hrapallega, en ræða hans sýndi það greinilega, að það er einmitt hann sjálfur, sem ekki hefir lesið frv. nógu rækilega, og því síður gert sjer grein fyrir, hvernig ýms ákvæði frv. verða í framkvæmdinni.

Hv. þm. talaði um, að setja yrði takmarkanir í reglugerð, því án þess yrðu lögin illframkvæmanleg í byrjun. En veit hann það ekki, sjálfur lögfræðingurinn, að í reglugerð er ekki hægt að setja neinar takmarkanir framar því, sem lögin sjálf heimila. Reglugerðina verður að sníða eftir lögunum. Það er ýmislegt í þessu frv., sem enn er mjög ófullkomin athugun á frá framkvæmdarinnar sjónarmiði, en þessar takmarkanir, sem þessi hv. þm. er að tala um, verður að setja inn í frv. sjálft.