03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

74. mál, slysatryggingar

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal játa það, að jeg hafði ekki búist við að leggjá hjer orð í belg, og jeg hafði heldur ekki búist við, að um mál þetta yrðu slíkar umr. sem raun ber vitni. Mjer fanst undirbúningur þessa máls hinn ákjósanlegasti og hafði bestu vonir um, að það mundi ganga greiðlega í gegnum þessa hv. deild.

Mjer var kunnugt um, að frv. var samið af nefnd, þar sem útgerðarmenn áttu sinn fulltrúa og verkamenn sinn, og það gladdi mig, að þrátt fyrir það reiptog, sem verið hefir milli útgerðarmanna og verkamanna nú síðustu árin, gátu þessir fulltrúar þó sameinast um aðalstefnu frv. Þess vegna taldi jeg áreiðanlegt, að þingið gæti fallist á það.

Þegar svo frv. var hjer til 1. umr., fór það umræðulítið til hv. allshn., sem skipuð er mönnum af öllum flokkum þingsins, og sammála urðu um, að frv. fengi fram að ganga með dálitlum breytingum. Var jeg því enn sannfærður um, að mál þetta fengi skjóta og góða afgreiðslu, að minsta kosti í þessari hv. deild.

En hvað skeður? Nú við 3. umr. rísa margir hv. þm. upp og telja sig mjög mótfallna aðalstefnu frv., og það er einmitt þess vegna, sem jeg þykist ekki geta látið vera að leggja lítilsháttar orð í belg, án þess þó að lengja umr. til muna. Ekki geri jeg það þó vegna þess, að jeg telji mig betur vita en þá, sem hjer greinir á. Heldur tala jeg vegna þess, að rjettlætistilfinning mín segir mjer að aðalstefna frv. sje rjett. Og ætla jeg þá að víkja að því atriði frv., sem andmælendur þess hafa mjög haft á orði og sem 8. og 9. liður brtt. á þskj. 226 hljóða um, þ. e. hvort verkveitendur og vinnuþiggjendur skifti milli sín iðgjaldagreiðslunni. eða verkveitendur greiði það algerlega.

Mjer finst brtt. á þskj. 226 um þetta efni ganga í ranga átt. Ekki segi jeg það þó vegna þess, að jeg hafi sjerþekking fram að færa í þessu máli, heldur virðast mjer allar ástæður benda til þess, að það sjeu vinnuveitendurnir, sem iðgjöldin eigi að greiða, og mun jeg þá færa nokkur rök þessari skoðun minni til stuðnings.

Í fyrsta lagi tíðkast þetta erlendis, þar sem slysatryggingar hafa verið um langt skeið, að vinnuveitendur einir greiði iðgjöldin. Er mjer kunnugt um þetta af ýmsu, sem jeg hefi um það lesið, og svo var á þetta bent hjer við 2. umr. málsins. Virðist mjer því, að reynsla annara þjóða í þessu efni geti verið okkur til fyrirmyndar, þar sem tryggingar eru lengra á veg komnar. Í öðru lagi er samkomulag það, er var á milli fulltrúa þeirra, er í nefndinni sátu og frv. sömdu. Og einmitt af því, að fulltrúi vinnuveitenda gekk inn á þetta atriði, þá verð jeg að leggja mikið upp úr því, og það hafi verið sett með fullkomnum vilja þeirra manna, er völdu hann í nefndina. Það hefir líka sýnt sig síðar, að maður þessi hefir fult traust þessara manna, er þeir fólu honum mjög svo vandasamt og ábyrgðarmikið starf sem erindreka suður á Spáni.

Í þriðja lagi má minna á það, að þegar stórslys hafa borið að höndum hingað til, hafa vinnuveitendur og stórútgerðarmenn talið skyldu sína að hlaupa undir bagga með þeim, sem harðast hafa orðið úti, og er það ekkert smáræði, sem þeir hafa þannig greitt til bágstaddra núna síðustu árin.

Í fjórði lagi er það viðurkent, að allar aðrar tryggingar eigi verkamennirnir einir að bera, og eru það engin smáræðisgjöld, þegar öll kurl koma til grafar hjá þeim, sem á annað borð skeyta um að tryggja sig fram yfir það, sem lögboðið er.

Í fimta lagi er það vitanlegt, að þó að stofnað sje til þessarar slysatryggingar, þá verður niðurstaðan sú, að aldrei verður nema að litlu leyti bætt slysið. Sársaukinn við slysið og spjöll á limum verður aldrei greitt að fullu. Og þó að Vinnuveitendur leggi fram í peningum einhverja fúlgu til styrktar mönnum þeim, er hjá þeim vinna, þá verður það aldrei nema lítill partur af því tjóni, sem slysið veldur. Og í sjötta og síðasta lagi skal jeg játa það, að jeg hníg fremur að þessu ráði vegna þess, að það eru þeir minnimáttar, sem hjer eiga hlut að máli. Enda virðist alt benda á, að þetta sje ljúfur vilji vinnuveitenda og að þeir vilji sýna verkamönnum sínum sanngirni og rjettlæti. Tel jeg það affarasælast, hvað sem öðru líður, og þess vegna fyrir bestu að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.