02.05.1925
Efri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

74. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. (EP) skýrði hjer alveg rjett frá tildrögum þessa frv. að öðru leyti en því, að mjer skildist á honum, að það hefði verið tilætlunin, að frv. yrði lagt fyrir þingið sem st.jfrv. En svo var ekki. Það var tilgangur flm. í byrjun, að frv. yrði lagt fyrir þingið eins og það kæmi frá nefndinni. En nú kom það ekki þaðan fyr en liðið var fram á þing.

Um brtt. hv. allshn. hefi jeg lítið að segja, nema helst eina 5. brtt.. um heimild fyrir stjórn sjóðsins til þess að víkja frá settum reglum um rjett til dánarbóta. Þetta er að mínu áliti nauðsynlegt. Það getur verið í einstökum tilfellum mjög leiðinlegt að vera alveg bundinn af þessum reglum. Það er að vísu dálítið bætt úr þessu með 3. lið 5. gr. um bætur til foreldra, en jeg tel rjett, að þessu sje hægt að koma við oftar. Mjer er þetta atriði vel ljóst, af því jeg var um tíma gjaldkeri slysatryggingar sjómanna og þekti tilfelli, sem voru mjög ósanngjörn og stjórnin hefði fegin viljað bæta úr; en það var ekki hægt vegna laganna. Jeg vil því mælast til þess, að nefndin geri ekki þessa till. að kappsmáli. Að öðru leyti eru brtt. nefndarinnar að mínu áliti sumpart þýðingarlitlar, aðrar til bóta og sumar alveg rjettmætar. Til bóta tel jeg 7. brtt. a. og líklega líka 6. brtt. En hvað snertir vegagerðir og símaviðgerðir, þá verður það að vera á valdi stjórnarinnar að undanþiggja smáviðgerðir. Jeg skoða ákvæðið í 21. gr. sem öryggisráðstöfun, þannig að ekki verði farið út í það að tryggja þar, sem væntanleg trygging getur ekki svarað kostnaði. Og jeg geri ráð fyrir því, að þessi öryggispípa verði notuð nokkuð mikið meðan reynsla er að fást, og vona jeg, að hv. deild hafi ekkert á móti því. En eftir að reynsla er fengin, þá er hægt að draga ýmsa lærdóma af henni.