27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg bar ekki hlutdrægni á hæstv. forseta þessarar hv. deildar (BSv), en jeg talaði um, að það væri undarleg aðferð að taka þegar á dagskrá frv. með aðeins tveggja daga gömlu nál. á undan margfalt eldri frv. með alt að 1—2 mánaða gömlum nál.; frv., sem eru auk þess búin að flækjast fyrir þinginu árum saman án þess að verða útkljáð. Jeg talaði ekkert um hlutdrægni, en jeg sagði, að það væru undarlegar aðferðir, sem væru notaðar við að taka mál á dagskrá á þennan hátt, og við það stend jeg. Það þýðir augsýnilega lítið að leggja málin fram snemma á þingtímanum, ef þau fást aldrei tekin á dagskrá. Háttv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði, að það mætti ekki friða svæði utarlega á fjörðunum; en hann hefir þá kynt sjer illa staðhætti á þessum slóðum, því þetta svæði er ekki utarlega á firðinum; það er aðeins rætt um að friða svæði vestanvert á firðinum. (BSv: Markalínan er og utar). Það er aðeins sumstaðar að svo er. Þingmaðurinn hefir ekki kynt sjer málið nógu vel. Það, sem hann sagði um netalöghelgi innan landhelginnar, var rjett, en það er ekki verið að ræða um það hjer. Jeg viðurkenni, að landhelgin er eign allra landsmanna, en það eru fleiri hjeruð, eins og hv. þm. N.-Þ. gat um, sem hafa þessi rjettindi, t. d. bæði kringum Eyjafjörð og Húnaflóa, og ef það á að banna Skagfirðingum þá hluti, sem öðrum eru leyfðir, fer að verða lítið úr því rjettlæti, sem hv. þm. talaði svo fagurlega um.

Hann talaði um það, að hjer væri verið að friða fjörðinn vegna fárra bænda fram í afdölum, en hann ætti að vita, að þarna eru við fjörðinn tvö allstór þorp, þar sem er fjöldi þurrabúðarmanna, sem lifa nær eingöngu á sjávarútvegi (BSv: Jeg átti við Unadæla og Kolbeinsdæla). Þeir fara ekki oft á sjó, og sýnir þetta, að háttv. þm. er ókunnugur þarna norður frá, og væri því víst rjettara af mjer að bjóða honum heim þangað til að sjá staðhætti alla, og mun hann þá komast að raun um, að er menn greiddu atkvæði með þessum lögum, sem nú á að afnema, á þinginu 1923, þá gerðu menn það eitt, sem rjett var. Síldin telst ekki til flugfiska, þó að hún sje fljót í ferðum, og er það því misskilningur að ætla, að síldveiðin geti oltið á þeim tíma, sem þm. talaði um; hann sagði einni viku, því að þá yrði síldin líka að standa við alt að vikutíma, en hv. þm. sagði, að hún staðnæmdist ekki einn dag á hverjum stað! Síldin er að jafnaði á sífeldum ferðum út og inn um fjörðinn, og þá vilja Skagfirðingar fá að hafa hennar not, er hún kemur þar. (SigurjJ: Það eru dýrar máltíðir fyrir þurrabúðarmenn). Þeir jeta ekki síldina; þeir salta hana mestmegnis eða hafa í beitu.