27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

118. mál, herpinótaveiði

Pjetur Ottesen:

Eftir því, sem forseta Fiskifjelags Íslands fórust orð við mig, þá er það rangt með farið í nál., að hann álíti að brýna þörf beri til að samþykkja þetta frv. á þessu þingi. Hann gerði ráð fyrir, að frsm. nefndarinnar mundi leiðrjetta þetta í framsögu, en benti mjer á þetta, þar eð hann taldi ekki rjett farið með orð sín í nál. Forseti Fiskifjelagsins er sem sje þeirrar skoðunar, að taka bæri til nákvæmrar athugunar allar heimildir, sem nú eru í lögum um takmarkanir á veiðum á fjörðum inni. Jeg skildi hann svo, að hann mundi ætla eða hefði þegar ritað stjórninni um þetta og bent á, að hann áliti ýms þau heimildarlög, sem nú eru í gildi, úrelt orðin; önnur hefðu enn fullan rjett til að fá að standa framvegis, en enn önnur færu sumstaðar of langt, og vildi hann, að þetta yrði alt athugað. En að hann hefði tekið ákveðna afstöðu til þess máls. sem hjer er til umr., eins og sagt er í nál., kvað hann rangt með farið og bað hann mig að leiðrjetta þessa missögn nál., ef hv. frsm. nefndarinnar gerði það ekki sjálfur. og það hefi jeg hjer með gert.