29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

118. mál, herpinótaveiði

Þórarinn Jónsson:

Þegar málið var hjer til 2. umr., var getið um það í umræðunum, að þetta væri aðeins byrjun, en síðar ætti að ganga lengra og afnema alla þessa löggjöf.

Jeg fór að rannsaka þetta mál viðvíkjandi Húnaflóa, og virtist, eftir því, sem jeg þekki til, að það ekki geta komið til mála að endurskoða þessa löggjöf, að minsta kosti ekki hvað snertir Hrútafjörð og Miðfjörð, en við austanverðan flóann er það landhelgislínan, sem gildir. En jeg vil, að þetta sje gert alt í einu. Aðalástæðan fyrir því að fella þessa línu á Skagafirði úr gildi er í frv. talin sú, að þetta brjóti í bága við almenningsheill, en þegar löggjafarvaldið bannar eitthvað innan ákveðinna takmarka, verður það að byggjast á því, að einstaklingar, sem þar eiga hlut að máli, bíði ekki tjón af því. Jeg verð því að slá föstu, að þessi lagaákvæði sjeu bygð á þeim grundvelli. En hjer liggur ekki annað fyrir en yfirlýsing nokkurra útgerðamanna um, að þetta sje stórtjón fyrir almenning. Á hinn bóginn eru frá annari hlið ástæður fyrir hendi, sem sýna, að ekki er rjett að taka þetta þannig út úr.

Hv. flm. segja, að síld hafi veiðst fyrir innan þessa línu á Skagafirði, en það hefði hún kannske ekki gert áður. Það getur vel verið, að þetta sje rjett, en þar sem síldin er nú nokkuð óstöðug í rásinni, mundi það verða harla ónæðisamt fyrir hv. flm. að fá altaf numin úr gildi lög, eftir því sem síldin flytti sig. (BL. Það eiga engar línur að vera). Það er einmitt það, sem jeg er að segja. Þá gengur jafnt yfir alla.

Hv. frsm. (SigurjJ) vitnar í forseta Fiskifjelagsins. Það er æfinlega venja, ef maður er fagmaður, eða menn álíta, að hann sje það, að vitnað er í hann, en svo illa hefir til tekist, að hann snýst öfugur við þessu og hefir í dagblaði einu hjer í bæ látið uppi skoðun sína um, að rannsaka beri málið.

Mjer finst ekki vera hægt að gera neitt rjettara en að vísa þessu til stjórnarinnar, og geri jeg það hjer með að tillögu minni. En jeg ætlast til, að hæstv. stjórn geri sjer far um að afla sjer allra upplýsinga og leggi fyrir þingið tillögur sem árangur af þeim. Jeg vænti þess, að hv. deild geti fallist á þetta.