15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Stjórnarfrumvarpið til fjárlaga fyrir árið 1926 var svo úr garði gert, að tekjur og gjöld stóðust þar næstum á, og voru 83/4 milj. hvort fyrir sig. Aðaleinkenni þess fjárlagafrv. var það, að tekjuhliðin var mjög varlega áætluð, og gerði stjórnin það í því skyni, að nokkur tekjuafgangur mætti verða til að borga lausaskuldir ríkissjóðs. Þegar frv. var samið, varð ekki vitað um fjárhagsafkomu ársins 1924, og var því stuðst við reynslu ársins 1923 og næstu ára á undan.

Gjaldahliðin nam næstum sömu upphæð og tekjuhliðin. Það, sem einkum einkendi hana, var það, að mun minna var áætlað til verklegra framkvæmda heldur en áður, en þó meira en árið 1925. Nú hefir frv. þetta tekið nokkrum breytingum í Nd. Ýmsir tekjuliðir í 2. gr. hafa verið hækkaðir um 930 þús. kr. Um þessa hækkun er það að segja, að jeg tel hana að vísu forsvaranlega, en þó gengið svo langt, að ekki má lengra fara.

Tekjur eftir 2. gr. nema 9172000 kr. Árið 1923 voru þessar tekjur 1 milj. 600 þús. kr. lægri. En síðan hafa verið gerðar þær breytingar á löggjöfinni, að aðflutningsgjöld hafa verið hækkuð um 25% og verðtollur lagður á. Afkoman 1924 var að vísu betri en þetta, en með samskonar afkomu og 1923 ætti þessi upphæð rjett aðeins að geta staðist. Hinsvegar mun hjer farið á fremsta hlunn, því að það er almenn reynsla, að tekjuhliðin þarf að fara 15% fram úr áætlun til þess að tekjur og gjöld standist á í landsreikningi, ef annars hafa verið afgreidd tekjuhallalaus fjárlög. Fyrir óvissum gjöldum er því ekki upp á annað að hlaupa heldur en þá von, að árið 1926 verði tekjudrýgra en árið 1923. Þess skal og getið, að hv. Nd. ætlaðist þó ekki til, að öll hækkunin yrði að eyðslufje; 600 þús. kr. voru áætlaðar til afborgana lausaskulda ríkissjóðs, og gekk hv. Nd. þar með inn á þá hugsun stjórnarinnar, að grynna sem fyrst og sem mest á skuldum þessum. Þótt upphæð þessi hækki gjaldahliðina allmikið, er þetta þó ekki raunveruleg útgjaldahækkun.

Þá hafa og verið gerðar um 80 breytingar á gjaldahliðinni í Nd. og miða þær allar til hækkunar, að undanskilinni einni smávægilegri lækkun. Þessi hækkun nemur alls 700 þús. kr. Sex hæstu upphæðirnar, sem allar eru yfir 50 þús. kr., nema alls 400 þús. kr. Eru þar af 100 þús. kr. áætlaðar til landsspítala, 75 þús. kr. til heilsuhælis á Norðurlandi, 50 þús. kr. til vita, 56 þús. kr. til Eiðaskólans, 65 þús. kr. til landhelgisvarna og 50 þús. kr. lækkun til Búnaðarfjelags Íslands. Hækkunartill. um fjárveitingu til vita og landhelgisgæslu eru fluttar í samráði við stjórnina.

Ellefu næstu breytingarnar nema alls 150 þús. kr., og er það fje einkum ætlað til verklegra framkvæmda. Það, sem eftir er, dreifist því á rúmar 60 breytingar, sem flestar eru smávægilegar. En eftir allar þessar breytingar er orðinn 375 þús. kr. tekjuhalli á fjárlagafrv.

Jeg verð að segja það, að jeg tel, að of langt hafi verið gengið í hækkun gjaldaliðanna í hv. Nd. Jeg vildi því mega treysta því, að þessi hv. deild taki fjárlagafrv. nú til rækilegrar íhugunar og gæti þess vel, hvort ekki megi draga nokkuð úr gjöldunum, eða fresta framkvæmdum í bili, í því skyni að ná sem fyrst því takmarki, er stjórnin hefir sett sjer og sem allir flokkar í rauninni hafa fallist á, að greiða sem fyrst lausaskuldir ríkissjóðs.

Að vísu er ekki unt að fullyrða fyrirfram, að nein vandræði þurfi af því að leiða, þótt fjárlögin sjeu afgreidd með dálitlum tekjuhalla, en þó verð jeg að telja það mjög misráðið að fara nú svo freklega í útgjöldin, að á næsta þingi þurfi enn á ný að auka álögur á landsmenn til borgunar lausu skuldanna. Það má ekki koma fyrir, og því leyfi jeg mjer að vænta, að þessi hv. deild vilji taka rjettum tökum á málinu.