29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

118. mál, herpinótaveiði

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi verið að furða mig á ræðu háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Fyrst lætur hann eins og þetta sje eitthvert smámál, sem engan varði. En það er vissulega eitt af stærstu málunum, að varðveita þau rjettindi, sem almenningur hefir til sjávarins. Það er ekki svo langt út að þessari landhelgislínu, sem útlendingar hafa neytt upp á Ísland, ef svo á að taka frá landsmönnum. Þetta litla bil frá netalögnum út að landhelgislínunni. (Atvrh. MG: Selaskot á Breiðafirði). Það kemur ekkert þessu máli við. Þar er ekki um fiskiveiðar eða almenningsþörf að ræða. Lagnirnar eru eldgamall rjettur, sem fylgt hefir vissum jörðum frá ómunatíð. Það er alt annað en þetta, því að hjer er eign almennings beinlínis tekin af honum og fengin sjerstökum hjeruðum. Auk þess er það ranglátt, ef eitthvert eitt hjerað hefir fengið þessa gjöf, að öll önnur hjeruð eigi ekki líka heimild til beltisins frá netalögnum út að landhelgislínu. En þá gæti enginn Íslendingur veitt innan við landhelgislínuna, nema með sjerstöku leyfi. Ef þingið vildi vera sjálfu sjer samkvæmt, mundi það svifta menn rjetti til þess að veiða á þessu belti. En jeg geri ekki ráð fyrir, að þingið veiti Skagafirði, eða yfirleitt neinu einstöku hjeraði, þessa ívilnun, en neiti öðrum. Mjer sýnist liggja nær fyrir Alþingi að leyfa t. d. mönnum hjer að hafa óskert umráð yfir húseignum sínum en að þjóta til að gera þetta.

Jeg furðaði mig einnig á því, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði um að vísa þessu til stjórnarinnar, meðal annars af því, að hann er stuðningsmaður stjórnarinnar. En eins og við vitum, er einn ráðherrann þm. Skagf. og mun hann því leggja áherslu á, að hans hjerað fái að halda þessum gæðum, sem slæðst hafa í þess skaut fyrir athugaleysi Alþingis. Annar ráðherra er þm. Reykv., og hefir því sinna hagsmuna að gæta. Þetta væri því að siga þessum tveim ráðherrum saman, og er það reglulega illa gert, því ekki mun veita af því fyrir stjórnina, sem ekki hefir ríkari stuðning en hún hefir, þó að hún gæti verið sátt og sammála innbyrðis.

Slíku máli sem þessu á því ekki að vísa til stjórnarinnar. Auk þess, sem það er ekki rjett að afhenda það þeim ráðherranum, sem er þm. þess kjördæmisins, er þetta mál varðar mest. Þess vegna legg jeg til, að till. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) verði feld og frv. samþykt óbreytt.