29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þessari fyrirspurn háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefi jeg þegar svarað með svari við fyrirspurn um hið sama frá hv. frsm. (SigurjJ). Það er vitanlegt, að Skagfirðingar ætlast til, að samþyktin komi til framkvæmda fyrir síldveiðitímann í ár, og þó að ráðherra geti frestað að löggilda hana, þá er þó auðvitað tilgangur laganna, að samþykt, sem er löglega undirbúin á allan hátt, verði staðfest sem fyrst og öðlist gildi sem fyrst, enda er hætt við, að það mæltist illa fyrir, væri þetta dregið von úr viti. Jeg skal taka það fram, að jeg tala hjer ekki sem þm. Skagf., heldur sem ráðherra, sem fara ætti með þetta mál. Þess vegna sje jeg ekki betur, úr því sem komið er, en að rjett sje, að málið haldi áfram sinn gang og meiri hl. þingsins skeri úr, hvernig því verði til lykta ráðið.

Annars virðist mjer óþarfi að fara að rekja það hjer, sem jeg hefi áður sagt, en út af því, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði um landhelgina, að einstökum mönnum ætti ekki að haldast uppi að friða sjerstaka kafla, þá vil jeg benda honum á hans eigið frv. um selaskot á Breiðafirði, sem hjer hefir verið á ferðinni. Að vísu er þar ekki verið að banna fiskveiðar, en dæmið er þó hliðstætt, því þar er verið að vernda rjett einstakra manna á tilteknum svæðum á sjó gegn ágengni annara einstaklinga.

Jeg skal engu spá um, hvernig fer um till. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). En verði hún samþykt, er það lausn á málinu í bili, og mundi þá öll þessi löggjöf verða endurskoðuð fyrir næsta þing. Jeg mundi telja öllum fyrir bestu, að gott samkomulag gæti orðið um málið, því öll togstreita er leiðinleg.

Annars vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál, en læt þess getið, að verði það ofan á, sem jeg hefi mælt á móti í málinu, þá er það þó bót fyrir Skagfirðinga, ef á því má byggja, sem hv. frsm. (SigurjJ) sagði, að þeir geti jafnan um síldveiðitímann fengið beitu ókeypis eftir þörfum. En það er þeim fyrir miklu, sem fiskveiðar stunda á Skagafirði.