29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2636 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

118. mál, herpinótaveiði

Bjarni Jónsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir verið í helst til miklu röksemdahraki, þar sem hann fór aftur að vitna í lögin um selaskot á Breiðafirði.

Jeg hefi áður sagt honum, að hjer væri aðeins um litla þríhyrnu að ræða, sem friðuð væri vegna netalagna, en annars væri mestallur Breiðifjörður ófriðaður. Nú get jeg varla hugsað mjer, að landsmenn fari alment að róa inn fyrir strauma og rastir Breiðafjarðar til þess að bana sel, sem eins vel getur verið, að hvergi sje þar að finna.

Undanþágan, sem gerð er á Hvammsfirði, nær ekki yfir stærra svæði en svo sem 20—30 bátslengdir, þegar reiknað er frá hólmum og skerjum þar á firðinum, svo hjer er aðeins um smápolla að ræða, þar sem skjóta má selinn.

Friðun sels á Breiðafirði er bundin við margra ára rjettindi þessara eyja, er þar eiga hlut að máli, svo að ef um enga friðun væri að ræða, þá eru menn þessir sviftir arði af eign sinni, er þeir hafa haldið frá ómunatíð.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) vítti mjög meðferð þessa máls alla, en lagði hinsvegar til, að hæstv. stjórn væri falið málið til frekari meðferðar. En hann ætti að gæta þess, að með því er verið að stofna til þrætu milli þeirra ráðherra, sem hann styður; þar sem annar á hagsmuna kjördæmis að gæta, en oddviti stjórnarinnar er landskjörinn. En jeg held, að oddvitinn eigi nægilega bágt með samverkamenn sína, þó ekki sje stofnað til nýrrar deilu á milli þeirra.

Hann kvað það ósvífni af mjer að vilja fella úr gildi ný lög. Jeg hefi ekki hafið þann sið hjer í þinginu. Hjer var með lögum embætti í hagnýtri sálarfræði veitt nafngreindum manni. Þingið gerði sig svo ómerkilegt að svifta hann því aftur. Um grískudósentinn voru, að því er jeg held, þrjú frv. á ferðinni í fyrra. Lög voru sett um rjett kjósenda til þess að mega kjósa heima. Því var logið hingað og þangað, að þau lög hefðu verið misnotuð. Þá hljóp þingið upp til handa og fóta og nam þau aftur úr gildi. Ekki var jeg þar að. Jeg gæti lesið hjer í allan dag skrá yfir lög, sem óðar hafa verið tekin aftur. Það eru þingsins ær og kýr.

Hv. þm. taldi ekki rjett að ræða þetta mál svona mikið á þingi, það væri ekki sparnaður. Þetta er 3. umr. og það getur varla kostað mikið að koma því út úr deildinni hjeðan af. Það væri auk þess löngu farið úr deildinni, ef hann hefði ekki staðið upp. Þessi sparnaður kemur of seint. Einhver nefnd hefði þá átt að skera það. En aðalatriðið er þetta: Þingið getur ekki afhent almenningar einum landshluta til afnota.