24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) fór í gær nokkrum orðum, sem voru skörulega flutt, eftir því sem gerist hjá honum, en ekki að sama skapi veigamikil, um stofnun búnaðarlánadeildarinnar.

Hann sagði fyrst, að stjórnin hefði traðkað á þjóðræðinu, en seinna viljað halda aftur af því, og lít jeg svo á, að með seinni ummælum sínum hafi hann tekið aftur hin fyrri. Það, sem hann flutti máli sínu til stuðnings, var saga, eða öllu heldur hviksaga, er komst hjer í blöðin, um það, að búnaðarlánadeildin yrði ekki stofnuð. Hefði þessi saga verið sönn, hefði mátt ýmislegt til sanns vegar færa af því, er hv. 2. þm. Reykv. sagði, en svo var ekki, og að því leyti getur þetta verið útrætt.

Hvort þing er haldið annaðhvert ár eða á hverju ári, sje jeg ekki, að komi búnaðarlánadeildinni við.

Þá átaldi hv. þm. og, að ríkisveðbankalögin hefðu ekki verið framkvæmd. Sú ásökun hittir ekki núverandi stjórn. Hún hefir flutt lagafrumvarp, sem hefir í för með sjer breytingu á þessum lögum, og bankinn getur því ekki tekið til starfa fyr en löggjafarvaldið lætur í ljós, hvort það kjósi þessa breytingu eða ekki — að taka Ræktunarsjóðinn út úr.

Hv. 2. þm. Reykv. álasaði stjórninni fyrir að hafa komið í veg fyrir, að gengi krónunnar hækkaði. Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði hinsvegar um, að krónan hefði hækkað of mikið fyrir atbeina stjórnarinnar. Báðir hafa farið með ýkjur.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) segir, að stjórnin hafi komið í veg fyrir gengishækkun. Stjórnin gat ekkert gert í þessu efni nema að sjá um, að það gengi, sem gengisnefndin ákvað, gæti haldist. Það var alt og sumt.

Þá fer hv. þm. Str. (TrÞ) eigi síður með rangt mál. Hann segir, að gengi pundsins hafi lækkað úr 33 kr. niður í 27 kr. Sannleikurinn er sá, að í árslok 1923 var gengið á pundinn ekki nema 30 kr. Enda þótt það í svip kæmist upp í 34 kr., þá festist sú hækkun aldrei í verðlaginu í landinu, enda þótt hún gerði mikið tjón. Gengishækkunin í ár er heldur ekki meiri en við mátti búast eftir svo mikið veltiár.

Að öðru leyti þarf ekki að fara út í þetta, enda var flest það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði um þetta og annað, svo ómerkilegt, að jeg get ekki verið að svara því. Þó vildi jeg víkja nokkrum orðum að fyrirspurn hans um tekjuskatt verksmiðjunnar í Krossanesi 1924. Jeg hefi spurst fyrir um það í stjórnarráðinu, hvort nokkrar upplýsingar hafi komið um þetta atriði, en svo er ekki, enda vantar enn tekjuskattsreikning Eyjafjarðarsýslu; en þó mun bráðum vera von á honum.

En það er staðfest, eftir samtali við sýslumann þar, að síðasta ár voru Krossanesverksmiðjunni gerðar 125 þús. króna tekjur. Verksmiðjan hafði ekki gefið upp tekjur sínar, og var því þessi upphæð áætluð af skattanefnd Glæsibæjarhrepps. Talið var af sumum, að þetta væri of lágt áætlað, en er kom til yfirskattanefndar, sem er æðsti dómstóll í þessum málum, treysti hún sjer ekki til að hækka. En þó voru þau tilmæli gerð til undirskattanefndar, að hafa góðar gætur á tekjum þessa fyrirtækis við næstu niðurjöfnun. Þetta er alt, sem jeg get upplýst í málinu, og sje jeg ekki, að stjórnin hafi hjer að neinu leyti óhreinar hendur.

Þá kem jeg að háttv. 1. þm. N.-M (HStef). Hann hafði að vísu lítið út á einstakar gerðir stjórnarinnar að setja, en bjó sjer þó til fjóra dóma um hana, án þess að rökstyðja nokkurn þeirra með tilvísun til einstakra stjórnarathafna. Þess háttar dómar eru annars venjulega nefndir sleggjudómar.

Fyrsti dómurinn var sá, að stjórnin væri veik fyrir hagsmunakröfum stuðningsmanna sinna. Jeg mun nú víkja að því síðar, hversu veik hún er fyrir, en jeg get ekki sjeð, að hægt sje að leggja henni til lasts, þótt hún sje veik fyrir kröfum stuðningsmanna sinna, ef hún er það á annað borð. — Því að hverjir eru hennar stuðningsmenn! Það er meiri hluti allra kjósenda í landinu, og ef stjórnin á ekki að gæta hagsmuna meiri hluta landsmanna, hverra hagsmuna á hún þá að gæta!

Þá er annar dómurinn. Hann er sá, að stjórnin hafi komið óskörulega fram. Auðvitað er ekki hægt að metast um svo óákveðið orðatiltæki. Hann nefndi búnaðarlánadeildina í þessu sambandi, og taldi stjórninni skylt að sjá um, að Búnaðarfjelagið gerði skyldu sína. Þetta má nú vera rjett að nokkru leyti, en þó kemur ekki til framkvæmda stjórnarinnar fyr en einhver snýr sjer til hennar, og þá oftast einhver, sem á hlut að máli. Engin tilmæli um stofnun búnaðarlánadeildar bárust stjórninni fyr en í októbermánaðarlok frá Búnaðarfjelaginu. Aðgerðir stjórnarinnar í málinu vora þær, að hún leitaði umsagnar Landsbankans um það og sendi hana til Búnaðarfjelagsins. Búnaðarfjelagið hefir ekki snúið sjer til stjórnarinnar síðan út af þessu máli, nje heldur hafa borist nein utanaðkomandi tilmæli eða hvatning. Búnaðarlánadeildin var stofnuð undir eins og hægt var, en ekki fyr, og þar er sagan öll.

Þriðji dómur hv. 1. þm. N.-M. (HStef) var sá, að stjórnin hefði verið hörð og óhlífin í garð almennings. Þessi dómur er því í beinni mótsögn við þann fyrsta. Háttv. þm. hefir víst einkum átt hjer við tollúrskurði stjórnarinnar, er hún hefir farið eftir ákvæðum settra laga. Og víst er um það, að ef stjórnin hefir verið veik fyrir kröfum stuðningsmanna sinna, þá hefðu tollúrskurðirnir oftsinnis getað gefið tilefni til þess. Það hafa ekki síður verið stuðningsmenn stjórnarinnar en aðrir, sem reynt hafa að fá lækkun á verðtolli, sem óneitanlega er mörgum tilfinnanlegur.

Það gleður mig því, að hv. þm. hefir gefið stjórninni þennan vitnisburð.

Stjórnin verður að fara eftir lögunum eins og þau eru. Hún má ekki gefa neina ívilnun um tollgreiðslur, nema henni hafi verið gefin sjerstök heimild til þess, og stjórnin hefir fylgt þeirri reglu að fara hvergi út fyrir þær heimildir, er henni hafa verið gefnar. Og jeg held, að ef háttv. 1. þm. N.-M. vill kynna sjer tollúrskurði stjórnarinnar, þá sjái hann, að þeir ósanna með öllu fyrsta dóm hans.

Fjórði dómurinn hljóðar þannig, að stjórnin hafi verið tómlát um virðingu sína, og röksemdin var sú, að hún hefði tekið við áskorun um að gera skyldu sína.

Eins og allir vita, eru oft bornar fram þáltill., sem skora á stjórnina að framkvæma hitt og þetta. Þetta er almenn venja hjer á Alþingi. Jeg veit ekki, hvaða stórbokkaskapur það ætti að vera, ef stjórn neitaði slíku. Auk þess var þetta ekki áskorun, heldur yfirlýsing um, að þingið treysti stjórninni til að gera skyldu sína. (TrÞ: Það var felt, að henni væri treyst til þess). Helmingurinn treysti henni, en hinn helmingurinn vildi ekki, að rannsókn færi fram eftir málavöxtum og landslögum.

Þá vildi jeg athuga fáein atriði í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ). Ekki gaf sú ræða mjer tilefni til að taka undir þau orð hans, að vandlifað sje fyrir stjórnmálamenn, eða stjórn, sem ekki verða fyrir veigameiri aðfinslum en fólust í ræðu þessa hv. þm. Hitt get jeg skilið, að hinum sje vandlifað, sem telja sig andstæðinga, en hafa engin rök til brunns að bera. Háttv. þm. Str. (TrÞ) vildi bera á móti því, að hann væri sammála oss ráðherrunum þremur í þeim þrem málum, er hann einkum talaði um í sambandi við hvern um sig: Bannmálið í sambandi við forsætisráðherra; haftamálið í sambandi við atvinnumálaráðherra og lán til ræktunar í sambandi við mig sem fjármálaráðherra.

Auðvitað hlýt jeg að taka það trúanlegt, að hv. þm. Str. (TrÞ) sje oss ósammála um þessi atriði, ef hann segir það sjálfur. Jeg hefi ekki viljað gera honum þá gletni, að minna hann á það, að hann sagði við 1. umr. um ræktunarsjóðslögin, að hann væri sammála í því efni hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem þó er kunnugt um, að var sá eini þm., sem var málinu andvígur. Jeg vil ekki stríða hv. þm. Str. (TrÞ) á þessu, af því að hann sagði þetta áður en hv. 3. þm. Reykv. (JakM) lýsti því yfir berum orðum, að hann væri málinu andvígur, og var honum þá vandalaust að vita fyrirfram, að svo var. Jeg get fremur gengið út frá því, að háttv. þm. Str. stæði á sama grundvelli og jeg í máli þessu heldur en að hann stæði á sama grundvelli og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM). Jeg hefi gengið út frá þessu af velvildarhug til þessa hv. þm. (TrÞ), og finst mjer satt að segja, að hann hafi ekki þakkað mjer nógu auðmjúklega fyrir það.

Viðvíkjandi hagstofunni sagði hv. þm., að ekki bæri að fjölga þar starfsmönnum, heldur að fækka óþörfum skýrslugerðum. Mjer þykir þá rjett að upplýsa það, að hagstofan starfar eftir þeirri reglu, að gefa út 4 skýrsluhefti á ári; Verslunarskýrslur, búnaðarskýrslur, fiskiveiða- og hlunnindaskýrslur, og svo eitt hefti enn um önnur efni. Og jeg get bent háttv. þm. á það, að hann getur lesið lögin um hagstofu Íslands og sjeð þar, hvað henni ber að halda skýrslur um, og mun hann þá sannfærast um það, að það er ekki of mikið að gefa út eitt hefti umfram hin þrjú, sem jeg áður nefndi. Nú mætti deila um það, hvað ganga ætti fyrir til birtingar í þessu fjórða hefti hagstofunnar, en það atriði snertir ekkert núverandi landsstjórn. En að ætla sjer að skera niður þetta eina hefti nær ekki nokkurri átt. Það er altof mikið, sem fyrir hagstofunni liggur og safnast fyrir árlega, til þess að fækka megi þessum árlegu heftum, er hún gefur nú út.

Þá hafði háttv. þm. Str. (TrÞ) á móti því, er jeg sagði, að hjer ætti fremur að tala um athafnir stjórnarinnar heldur en stefnu, en þó einkum móti því, er jeg vildi ekki gera að umtalsefni þau frv., sem hjer liggja fyrir deildinni og bíða þess að koma á dagskrá. Jeg vil samt halda fast við það, að ekki eigi að nota eldhúsdaginn til slíks, því af því leiðir ekki annað en það, að þegar frv. koma til umræðu koma eldhúsdagsumræðurnar aftur í Þingtíðindin. Menn leita að umr. um þessi mál þar, sem þær eiga að vera í Þingtíðindunum, en ekki í eldhúsdagsumræðum. Þetta er því óhagkvæmt. Tilgangur eldhúsdagsins er heldur ekki sá, að ræða frv., sem fyrir þinginu liggja, heldur hitt, að gefa mönnum tækifæri til þess að tala um mál, sem ekki liggja á annan hátt fyrir þinginu. Þetta er eina rjetta skoðunin á því, hvernig beri að nota þessa dýrmætu stund. Jeg hef að mestu haldið fast við þessa rjettu reglu og lítið minst á frv., sem seinna eiga að koma til umræðu hjer, enda þótt hv. þm. Str. hafi gefið talsvert tilefni til þess.

En út af því, sem háttv. þm. (TrÞ) sagði hjer um hlutafjelög, verð jeg að gera nokkra athugasemd. Hann sagði, að þau væru hættuleg fyrir almenningsheill og merkir menn teldu þau átumein í þjóðfjelaginu. Þetta er fullkominn misskilningur. Það er alt annað atriði þeim viðvíkjandi, sem veldur áhyggju víða um lönd. En það er þegar svo fer, að það verður fullkominn skilnaður milli eignar- og umráðarjettarins annarsvegar og framkvæmdarvaldsins hinsvegar. En þetta fer svo, þegar hlutabrjefin verða kauphallarvara, sem gengur mann frá manni, án þess að hægt sje að vita á hverjum tíma, í hvers höndum þau eru, en framkvæmd fjelaganna er öll í höndum launamanna, sem vel geta verið hlutlausir í eignum fyrirtækisins. Þessi ágalli hefir orðið talsvert áhyggjuefni, og þar, sem slík mál eru komin í það horf, sem jeg lýsti nú, hefir verið leitað úrræða til að bæta úr þessu. En þetta er ekki svo um hlutafjelög hjer. Þau eru altaf takmörkuð af hóp manna, sem standa utan um fyrirtækið. Þar fer saman eign og umráð, enda er það nauðsynlegt, til þess að fyrirtækinu vegni vel. Það hafa víða verið gerðar tilraunir til þess að gera verkamenn og starfsmenn hluthafa í eign og umráðum fjelaganna, og hafa ýmsar þær tilraunir gefist vel, svo því fer fjarri, að hægt sje að hafa það á móti hlutafjelögunum, að þau geri slíkt samstarf ómögulegt. Hv. þm. (TrÞ) hafði ekki alveg rjett eftir það, sem jeg sagði að væri aðaltilgangur hlutafjelaga. Jeg sagði ekki, að hlutafjelagstilhögunin væri sú eina tilhögun, sem gerði það mögulegt, að margir menn gætu átt hlutdeild í stórum fyrirtækjum. Hitt sagði jeg, að þau væru sú eina tilhögun, sem ennþá hefði verið framkvæmd til þess að skifta eignarrjetti stórra fyrirtækja milli margra, hjer sjerstaklega er kemur til sjávarútvegsins. (TrÞ: Rjómabúin). Á öðrum sviðum hafa menn fundið aðra tilhögun, sem reynst hefir vel þar, og er ekki nema gott um það að segja. Það eru samvinnufjelögin, sem hv. þm. Str. (TrÞ) nefndi. En eðlismunurinn á samvinnufjelagi og hlutafjelagi er einkum sá, að hlutafjelagið starfar með takmarkaðri ábyrgð, en samvinnufjelagið með fullri ábyrgð, þó ekki þurfi hún að vera ótakmörkuð. Jeg vil minna háttv. þm. Str. á það, að flokksbróðir hans, háttv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ), hefir lýst því yfir hjer í deildinni fyrir örfáum dögum, að samvinnufjelögin hjer væru að reyna að losa sig úr hinni sameiginlegu ábyrgð, með því að koma fyrir sig stofnfje, er væri sjálfseign fjelaganna og gæti útrýmt þeirri nauðsyn að grundvalla lánstraust fjelaganna á sameiginlegri ábyrgð. En að þetta er stefna samvinnufjelaganna, sannar það, að þau keppa að samskonar fjárhagslegu skipulagi og hlutafjelögin búa nú við, það er, að safna í stofnsjóð, er sje sjálfseign fjelaganna, en um leið eign hvers manns í fjelaginu. Og jeg get sagt háttv. þm. Str. það, að það hefir ekki verið fundin önnur leið en þessi til þess að afstýra því, að eignarrjettur að fyrirtækjum, sem verða að vera stór, eins og t. d. togaraútgerð hjer, safnist á einstakra manna hendur. Því er sú viðleitni, að styðja hlutafjelög, rjett frá sjónarmiði háttv. þm. Str. og annara, sem vilja að efnahagur manna sje svo jafn, sem kringumstæður leyfa.

Hv. þm. Str. (TrÞ) bar saman í seinni ræðu sinni afstöðu stjórnarinnar, eða mína, í þessu atriði nú og fyrir 15 árum síðan. Gerði hann það ekki frá eigin brjósti, heldur þóttist hann tilfæra efni úr 15 ára gömlum ummælum, sem jeg hefði haft í blaðagrein. Eftir þeirri þekkingu, sem jeg hef á blaðamensku hv. þm. (TrÞ), þá get jeg búist við því, að þessi ummæli sjeu svo rangfærð, að þau gefi ekki rjetta hugmynd um það, sem jeg vildi þá hafa sagt. (TrÞ: Jeg hef aðeins prentað upp kafla úr ritgerð hæstv. fjrh.). Það má vel vera; jeg les ekki blað hv. þm. (TrÞ) nema stundum, og þetta hef jeg ekki lesið. En það þýðir ekkert fyrir hv. þm. (TrÞ) að segja það, sem hann sagði, að stjórnin vildi, að fáir einir væru ríkir. Hann bætti því ekki við, en það leiðir af sjálfu sjer, að hún vilji þá, að allir hinir sjeu fátækir. Þetta eru hans orð og ekki mín, hvorki fyrir 15 árum nje nú.

Þá kem jeg að íhaldsbrjefinu svo nefnda. Þar bar hv. þm. (TrÞ) fram endilausa staðleysu um það, að með brjefi þessu hefði stjórnin verið að banna bændum að ráðast í framkvæmdir. Vegna þess að verið er að endurtaka þetta, skal jeg nú gera það, sem jeg hefði átt að gera strax, er þessi fásinna kom hjer fram, sem sje að lesa hjer upp þau ummæli brjefsins, sem komið hafa þessu af stað. Innganginn þarf jeg ekki að lesa, því að hann er eingöngu um orðsending bankanna til viðskiftamanna sinna —:

„Jafnframt því að tilkynna þetta vill ráðuneytið hjer með brýna fyrir öllum bæjarstjórnum, sýslunefndum og hreppsnefndum að forðast að stofna til nýrra skulda, en leggja sem allra mesta áherslu á að færa niður þær skuldir, er nú hvíla á þessum sveitarfjelögum“.

(TrÞ: Var þetta ekki brýnt fyrir togarafjelögunum?). Hvaðan hefir nú háttv. þm. Str. (TrÞ) það, að í þessu brjefi sje stjórnin að banna bændum að ráðast í framkvæmdir? Slíkt er ekki annað en tómur uppspuni. Alt tal hans um miskunnarlaust íhald gagnvart bændum er tómur reykur.

Háttv. þm. (TrÞ) talaði enn um togarakaup, og jeg skil af öllu, sem þessi háttv. þm. segir um þetta, að það er grundvallað á skilningsleysi hans á því, hvernig yfir höfuð unt sje að ná í lánsfje hjer á landi, Hann er sjálfur endurskoðandi Landsbankans, og jeg get sagt það, að hvorugur bankinn hefir veitt fje til togarakaupa, nema í einu tilfelli, og þá í þeim vændum að bjarga vafasamri skuld. Jeg skora nú á hv. þm. sem endurskoðanda Landsbankans, ef þetta er ekki rjett, að gefa mjer þá embættislega skýrslu um það, hvaða fje bankinn hafi lánað til togarakaupa.

Því næst talaði hv. þm. (TrÞ) bæði um búnaðarlánadeildina og frv. um ræktunarsjóð Íslands, og kvað, að með lögunum um búnaðarlánadeildina hefði verið sjeð fyrir nægu fje til lána handa bændum. Þetta er skakt. Með búnaðarlánadeildinni var ekki sjeð fyrir fje, heldur var tekið það ráð að heimta það af einni lánsstofnun, að hún legði fram fjeð. En nú stóð svo á í október síðastl., þegar til mála kom að stofna deildina, að þá var það alveg óvenjuvel sannanlegt, að ekkert fje var til í Landsbankanum til þess að lána. En á sama tíma voru keyptir 10 togarar. Hvernig stóð á þessu? Vandræðin eru þau að fá hv. þm. (TrÞ) til þess að skilja það, að það er unt að fá fje til fyrirtækja, þó að hvorugur bankinn hafi fje að lána. Fje til togarakaupa má fá með sölu hlutabrjefa, og fje til ræktunarsjóðs með sölu vaxtabrjefa. Og sú leið er altaf fær, ef á annað borð nokkurt fje er hægt að fá. En að fá fje hjá einstökum stofnunum er ekki hægt, nema stofnunin hafi það til. Þetta með togarakaupin er góð bending til þeirra, sem ekki hafa athugað það áður, að sú leið er til að útvega sjer fje, að snúa sjer beint til þeirra manna, sem eiga fje til ávöxtunar.

Þá sagði hv. þm. (TrÞ), að eftir ræktunarsjóðsfrv. stjórnarinnar yrði ekki um neina „móbíla“ peninga að gera. Þessu vísa jeg til baka. Því hefir verið lýst yfir, að stofnuninni yrði trygt handbært fje, eins mikið og farið var fram á af búnaðarfjelagsnefndinni. Þá sagði hann, að vextirnir mundu verða 7–8%, og vitnaði enn í Reykjavíkurvaxtabrjefin. En jeg get sagt hv. þm. (TrÞ) það, að í kringum áramót síðastliðin seldi jeg ca. 300 þús. kr. í vaxtabrjefum fyrir 6%, og brjefin seldi jeg á 97, af því að eigandinn fór ekki fram á hærra verð, en jeg hefði líklega eins vel getað selt þau við nafnverði. Það eru heldur engin rök fyrir því, að vextir þurfi að vera svona háir, þó að Reykjavík, sem dregst með nokkuð miklar skuldir, þurfi að borga svo háa vexti.

Þá bar hv. þm. fram þrjár spurningar, sem sumar a. m. k. fólu í sjer fleiri, og skal jeg svara einni þeirra strax. En af því tvær þeirra snerta mál, sem efalaust verða til umræðu hjer síðar, þá svara jeg þeim ekki nú. En fyrstu spurningunni, hvort jeg vilji afnema nefskatta og lækka tolla, svara jeg hiklaust því, að eins og nú stendur á, vil jeg enga nefskatta afnema og enga tolla lækka, meðan hagur ríkissjóðs er þannig, að hann þarf á öllu sínu að halda. En hvað síðar megi gera, er úr greiðist um fjárhag ríkissjóðs, — og ef tekst að greiða lausaskuldirnar, — um það vil jeg ekkert bollaleggja nú. Til þess gefst nógur tími síðar.

Aftan í þessar spurningar hnýtti háttv. þm. því, hvort jeg vildi taka meginið af tekjum ríkisins með tekju- og eignarskatti. Það má einu gilda í þessu efni, hvað jeg vil og hvað jeg vil ekki. Hitt er víst, að það er ekki unt með tekju- og eignarskatti að ná miklu meiri tekjum en eftir núgildandi lögum. Og jeg get bent á það, að yfirhöfuð hafa tekjurnar af þessum lið orðið mun minni en ráð var fyrir gert á þingi 1921, þegar þessi lög voru sett.

Hv. þm. Str. (TrÞ) endaði ræðu sína á því að lýsa því, hver munur væri á afstöðu sinni og stjórnarinnar í ýmsum greinum. Hann kom fram sem ákærandi, sem yfirheyrði stjórnina, og bjóst við því, að hún segði ekki satt og neitaði sök. Jeg segi ekki um það, hvort háttv. þm. gerði ráð fyrir þessu af skírskotun til annars eða frá eigin brjósti, er eiginlega virðist sjaldgæft um þann háttv. þm., sem oftast tilfærir alt orðrjett frá öðrum án þess að halla máli. En það verð jeg að segja, að það er nokkuð óvenjuleg aðstaða, ef hv. þm. finst hann vera bæði ákærandi og yfirheyrandi í einu. Ætti þá að vísu alt að koma fram við yfirheyrsluna, sem athugavert þykir. Og get jeg ekki annað en látið í ljós ánægju mína yfir því, hve lítið þessi ákærandi og yfirheyrandi hefir um að spyrja, hvað það er ómerkilegt, og langt frá því að stjórnin þurfi að dylja nokkuð af sínum gerðum, sem vitanlega er ekki heldur hægt, þar sem hv. þm. eiga aðgang að öllum upplýsingum um slíkt, sem þeir kunna að æskja. (TrÞ: Ekki að Krossanesi). Það hefir verið sagt hjer áður, og er best að segja það enn, svo að það megi festast í minni háttv. þm. Str, (TrÞ) og annara hv. þm., að bæði honum og öðrum þm. er velkomið að fá öll skjöl, er það mál snerta, lánuð í stjórnarráðinu, svo að það þýðir ekkert að segja þetta.

Jeg ætla svo að enda með þeirri illgirnislegu ósk til hv. þm. Str. (TrÞ), að það verði jafnvandlifað eftirleiðis fyrir hann sem stjórnmálamann eins og hann hefir nú játað, að væri vandlifað fyrir sig sem stjórnarandstæðing.