29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

118. mál, herpinótaveiði

Jón Baldvinsson:

Jeg gerði nú nokkra grein afstöðu minnar við 2. umr. Síðan hefir lítið nýtt komið fram í málinu, nema till. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Jeg get ekki fylgt frv., af því mjer finst þar ráðist á eitt atriði í heilum lagabálki, án þess að nægilega sje upplýst, að þörf sje á slíkri breytingu.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefði líka átt að sína fram á, hve mikill útvegur er á Skagafirði, og hver hætta honum væri búin, ef ákvæði þetta verður numið úr lögum. Þetta hefir ekki komið fram.

Annars eru ýms takmörk sett í lögum, til dæmis um æðardráp. Fáir einir menn mega hafa nytjar hans og hann er friðaður langt út fyrir netalög. Þarna eru takmörk sett. Og mjer finst ekki hægt að nema lög úr gildi alveg upplýsingalaust. Ætti því ekki að samþykkja þetta frv. nú, heldur láta athuga málið í heild af Fiskifjelaginu, og leyfi jeg mjer að skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), að svo verði með mál þetta farið.

Það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði um, að þetta kynni að skapa ágreining meðal ráðherranna, þá verð jeg að segja, að ekki mundi jeg taka mjer slíkt nærri. En jeg vona, að ekki verði svo við málið skilið, að það verði ekki ítarlega rannsakað.