29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

118. mál, herpinótaveiði

Ágúst Flygenring:

Hæstv. atvrh. (MG) áleit, að það mundi ekki leiða til neinna upplýsinga í málinu, þó að því væri vísað til stjórnarinnar, og er jeg því samþykkur. Rannsókn getur ekki verið fólgin í öðru en því að fara til þeirra aðilja, sem deila, en það eru annarsvegar nokkrir skagfirskir bændur, sem álíta veiðarfærum sínum hættu búna, og ef til vill fiskigöngu á firðinum. Hinsvegar eru síldveiðimennirnir, sem vita af reynslunni, að síldin hagar ferðum sínum svo, að ekki er hægt að ná henni á neinum vissum stöðum. Þeir komast varla hjá því að fara inn fyrir línuna, en þykir leitt að brjóta lög, enda þótt þeir viti, að þeir sjeu ekki að skemma fyrir neinum. Það er enginn vafi á því, að fiskimenn hjeðan brjóta lögin hver um annan þveran á þessu svæði, og jeg er viss um, að ef hv. deild þekti eins vel til þarna nyrðra og þeir, sem stundað hafa veiði þar, þá mundi hún sammála um að afnema þessi lög frá 1923. Því mundi verða vel tekið. En rannsókn mundi á hinn bóginn aldrei leiða til annars en þrætu, því að allar ástæður eru þegar kunnar. Það er því alveg þýðingarlaust að vísa málinu til stjórnarinnar.