29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

118. mál, herpinótaveiði

Jón Baldvinsson:

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um álit Fiskifjelagsins skal jeg taka það fram, að jeg geri mun á áliti forseta þess og því, sem fiskiþingið kynni sjálft að álykta. Jeg mundi taka meira tillit til álits fiskiþingsins, sem skipað væri fulltrúum af öllu landinu, og við það átti jeg í ræðu minni. Það getur vel verið, að forseti fjelagsins fylgi því, að þetta sje samþykt. En jeg vil, að málið sje tekið upp í heild. Það er ekki rjett að hlaupa til að samþykkja lög sem þessi, án þess að hafa greinilegt álit kunnugustu manna. Hjer liggur nú aðallega fyrir álit þeirra, sem að síldveiðinni standa. Litlar upplýsingar hafa komið frá Skagfirðingum sjálfum. Þetta þarf alt að athuga betur.