15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Jeg vildi segja hjer nokkur orð almenns eðlis út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). ekki í andmælaskyni, heldur til að benda á nýjar hliðar.

Stjórnin telur sig hafa á stefnuskrá sinni að losa landið við allar lausar skuldir sem fyrst. Þetta er óneitanlega æskilegt. En þessi skilgreining á föstum og lausum skuldum er nokkuð laus, að því er mjer virðist. Þannig mun t. d. enska lánið vera landsmönnum enn þungbærara heldur en flestar eða allar lausaskuldir. Þessar skuldir eru allar afleiðing kreppunnar. Þótt lausaskuldirnar sjeu greiddar, verða þó aðrar skuldir eftir, sem myndast hafa af sömu ástæðu og leggja þunga byrði á landsfólkið.

Ein af þeim skuldum, sem talað er um að borga, er skuldin við landhelgissjóðinn. Þetta mátti gera með tvennu móti: annaðhvort að leggja fjeð á banka eða byggja skip fyrir það, og mjer finst það vera þjóð og þingi gleðiefni, að útlit er fyrir, að hægt verði að hrinda því í framkvæmd. En jeg vildi benda á, að þetta er ekki sparsamasta leiðin. Jafnvel þó slíkt skip afli nokkurra tekna með sektum, þá verður útgerð þess afardýr fyrir landið. Jeg segi þetta til að benda á, að þarna hefir hæstv. stjórn dregist á mannlegan hátt með lönguninni til að eyða til að hrinda verkum í framkvæmd, þó ekki gefi þau mikinn beinan arð. Jeg áfelli ekki hæstv. stjórn fyrir þetta, en nefni það sem hliðstæðu við nokkrar aðrar till. um verklegar framkvæmdir, sem búast má við, að mest verði deilt um hjer.

Jeg vil þá stuttlega minnast á tvo liði, sem þyngstir eru af þeim, sem hv. Nd. hefir bætt við. En það er bygging landsspítala og berklahælis á Norðurlandi.

Jeg skal þá fyrst benda á, að á síðastl. ári eyddi landið 1 milj. til berklavarna. Mikið af því fje fór til spítala og læknishjálpar, sem er mjög dýr. En meðan eytt er svo miklu fje til berklavarna, þá er ekki nema von, að spurt sje, hvort ekki borgi sig betur að verja fjenu til að koma upp berklahælum. Og jeg er í engum efa um, að það margborgi sig, og eins þótt jeg viti, að stofnkostnaður slíkra hæla er ekki aðalatriðið, heldur rekstrarkostnaðurinn. En landlæknir hefir sagt, að sjúkravist reynist jafnan ódýrust í ríkisreknum spítölum, og því hefi jeg og margir litið hýru auga til þess, að berklaskýli okkar yrðu aukin til þess að rekstrarkostnaðurinn minkaði. — Líkt er að segja um landsspítalann. Það er óumflýjanlegt að hefja byggingu hans strax, enda er mikill óbeinn sparnaður að því að koma honum upp. Auk þess ljettir fjársöfnun kvenna hjer verulega undir með ríkinu.

Jeg býst ekki við, að jeg fari nákvæmlega út í hinar minni fjárveitingar í þessu fjárlagafrv. Það kennir þar margra grasa, eins og vant er, vegir, vörn gegn ágangi sjávar í Grindavík, opinberar byggingar og ótal margt fleira, sem fólk vanhagar um og hrópar á. Þarna má t. d. benda á hjerað á Austurlandi, sem vantar hús yfir lækni sinn, og er því læknislaust, og svo kallar fólkið eftir, að strax verði bygt, alveg eins og útgerðarmenn krefjast þess, að landhelgin verði varin. Heldur gat ekki hjá því farið, að þjóðin yrði brátt óánœgð með það, að allar framkvæmdir væru stöðvaðar, og þetta hefir hæstv. stjórn fundið a. m. k. í einu máli. Ennfremur skal jeg gleðja hæstv. stjórn með því, að í hv. Nd. eru ýmsir, sem halda því fram, að fjárlagafrv. sje ekki enn sem komið er með neinum tekjuhalla, þar sem tekjuhliðin hafi verið ákaflega varlega áætluð. Um þetta má auðvitað deila, en það veit jeg, að ýmsir leiðandi fjármálamenn eru sömu skoðunar. Þá má líka benda á, að vissir hlutir, sem ennþá er ekki sjeð, hvernig fer um, geta haft mikil áhrif á hag ríkissjóðsins. Svo er t. d. um hækkun áfengistollsins. Nái hún fram að ganga, má vel fara svo, að á einu ári fáist þar fje, sem nemur álíka miklu og landsspítalabyggingin kostar það ár. Þar sem nú vínið, sem innflutt er, mun að minstu leyti vera notað til lyfja, heldur til neyslu, þá skil jeg ekki, hví menn ættu að vera hörundssárir út af hækkun á því. Ennfremur veltur á þinginu, hvort það sviftir hæstv. fjrh. öllum tóbaksgróðanum. Annars held jeg, að varla sje ástæða fyrir hv. deild að bera kvíðboga fyrir fjárhagnum. Og hvernig sem fer, þá mega menn vita, að sjálf framrás lífsins verður ekki stöðvuð. Á sama hátt er ekki mögulegt að stöðva að fullu framkvæmd allra fyrirtækja. Við verðum að byggja brýr, vegi og opinberar byggingar. Annars þreytist fólk á að borga skattana. Það var því nauðsynlegt fyrir hæstv. stjórn að hafa nokkra samúð með kröfum þjóðarinnar í þessu efni, því það gerir henni ljettara fyrir að bera þær mörgu álögur, sem á hana eru lagðar.