05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla ekki að innleiða hjer miklar umr. um þetta mál. En jeg vil aðeins segja það, að mjer virðist ekki nokkur ástæða til þess að afnema þessi lög strax. Þau voru sett á þingi 1923, og nú á að afnema þau, þegar líkur virðast til, að fara eigi að nota þau. Það er þó ekki komið lengra en svo, að sýslunefnd hefir gert samþykt, sem síðan á að fara fyrir hjeraðsfund og loks að fá staðfestingu í stjórnarráðinu. Samt má telja líklegt, að þau geti komið til framkvæmda á yfirstandandi sumri. En þá fer nú að verða lítið gagn að löggjöfinni, ef afnema á lögin áður en þau geta komið til framkvæmda.

Jeg verð nú að segja það, að jeg er kunnugur nyrðra, en jeg veit ekki til þess, að það sje eins mikil síldveiði á þessum hluta Skagafjarðar og nú er af látið. Að vísu kunna að vera áraskifti að þessu, en hitt er líka víst, að á hverju ári er mikið veitt af síld utan við þessa umræddu línu, og þar er aðalsíldveiðin rekin. Það liggur líka í augum uppi, að ef mikið væri veitt af síld innar, þá væru nú komnar upp síldarstöðvar innra í firðinum, en svo er ekki, eins og kunnugt er.

Lína sú, sem sett var í heimildarlögin frá 1923, liggur nokkuð beint yfir fjörðinn. En nú nær hún nokkru lengra út að austan. Það var því í raun og veru ekki annað gert 1923 en að láta þá, sem búa við fjörðinn vestanverðan, eiga kost á að njóta sömu rjettinda og hina, er búa að austan. Enda geta menn, ef þeir vilja athuga það, sannfært sig um, að línan að austan er sama sem óbreytt. Nú skil jeg ekki, hvers vegna þeir, sem búa að vestan til við fjörðinn, mega ekki njóta sömu hlunninda og hinir.

Jeg veit það, að síld er veidd alt inn að þeirri línu, sem sett var 1913. En sjómenn nyrðra segja og leggja mikla áherslu á það, að síldin gangi lítið inn á fjörðinn, þegar hún er elt og veidd með herpinótum inn með öllum Skaga og Reykjaströnd.

Jeg vildi aðeins gefa þessar upplýsingar, án þess að jeg vilji fara út í neinar kappræður. Enda býst jeg ekki við, að það sje til neins, eins og málinu er nú komið.