05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

118. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf mjög litlu að svara ræðu hæstv. atvrh. (MG). Jeg játa það, að breytingin, sem gerð var með lögunum 1923, er aðallega í því fólgin að færa línuna út að vestan, því að austan eru takmörkin um Þórðarhöfða eins og áður, þó þannig, að eftir lögunum frá 1913 er línan hugsuð dregin frá innri enda höfðans, en eftir lögun- um frá 1923 er línan dregin frá ytri enda hans. En svo er líka afarmikið friðað svæði að vestan, því eftir lögunum frá 1913 liggur línan á ská inneftir, en eftir lögunum frá 1923 liggur hún á ská úteftir. Það er játað af öllum, að hjer sje mjög stórt svæði friðað, og því er haldið fram í greinargerð frumv., að það sje síldarsælasta plássið á Skagafirði. En hvað sem því líður, þá er hitt víst, að ef haldið verður áfram í svipaða stefnu og fram kemur í lögunum frá 1923, þá fæ jeg ekki sjeð, hvar takmörkin á að draga fyrir slíkum fiskiveiðasamþyktum, því það er ómótmælanlegt, að hjer er gengið á sameiginlegan rjett borgaranna til landhelginnar. Það er sjálfsagt, að hjeraðsbúar halda þeim sjerrjettindum, sem þeir hafa haft frá aldaöðli, hver fyrir sínu landi, en það eru netalagnirnar, sem eru taldar 60 faðma frá landi. En fiskiveiðasamþyktirnar ganga miklu lengra, og það verður að gjalda varhuga við, að þær leiði ekki út í öfgar.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að sjómenn nyrðra legðu mikið upp úr því, að veiði með herpinót fyrir utan vissa línu mundi spilla fyrir síldveiðum fyrir innan hana. Jeg skal engan dóm leggja á það. Jeg benti á það í fyrri ræðu minni, að fiskifræðingur okkar vildi ekki kannast við, að svo væri. En þó svo væri, að eitthvað væri til í þessu, þá er varhugavert, ef þetta hefir mikla þýðingu fyrir síldveiðar, að gefa sýslunefnd Skagafjarðarsýslu heimild til þess að ákveða þetta. Hún hefir alt að vinna, en engu að tapa. En aftur á móti á að taka til greina umkvartanir annara borgara ríkisins, sem hafa hagsmuna að gæta.

Jeg ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, vegna þess að því miður brestur mig nægilegan kunnugleika til þess að dæma vel um það. Til þess þarf menn, sem reynslu hafa í þessu. Mjer finst, að það, sem fyrir liggur, sje það að meta, hvorra kröfur eru sanngjarnari, Skagfirðinga eða þeirra utanhjeraðsmanna, sem síldveiðar stunda. Jeg er sannfærður um, að sæmilega tryggilega var búið um hag Skagfirðinga með lögunum 1913, og sje jeg því ekki ástæðu til að gefa sýslunefnd Skagafjarðarsýslu heimild til þessa. Þó að sjútvn. hjer á Alþingi 1923 liti þannig á, að þetta væri hættulaust, sje jeg enga ástæðu til að skirrast við að leggja til, að lögin verði úr gildi numin, þar sem jeg tel það fyllilega rjettmætt. Þau hafa ekki unnið sjer neina hefð enn, þar sem þau hafa ekki verið notuð, og þar sem forsendur fyrir lögunum reynast ljettvægar, legg jeg þann dóm á, að lögin eigi að víkja. Jeg býst við, að einhverjir þeirra, sem voru í sjútvn. 1923, sjeu einnig í sjútvn. nú, og hygg jeg, að þeir hafi athugað málið í bæði skiftin, en upplýsingar þær, sem nú liggja fyrir, hafi gert það að verkum, að þeir hafi breytt um skoðun.