19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. (Björn Líndal):

Jeg býst við, að enga nauðsyn beri til að fara mörgum orðum um frv. þetta, þar sem í greinargerð þess eru ítarlega raktar ástæðurnar fyrir því. Þó vil jeg segja um það nokkur orð.

Í lögum nr. 2, frá 2. febr. 1894, um aukatekjur, dagpeninga og ferðakostnað sýslumanna, bæjarfógeta o. fl., er svo ákveðið, að lögreglustjórar fái 10 aura gjald af hverri smálest útlendra fiskiskipa fyrir að skoða skjöl þeirra í fyrsta sinn, er þau koma í íslenska höfn á árinu, en síðan 5 aura af smálest hverri.

Í tolllögum nr. 54, frá 11. júlí 1911, er lögreglustjórum ennfremur ákveðin 10 kr. þóknun fyrir að rannsaka vörubirgðir skipa og innsigla það, sem skipverjar þurfa ekki að nota af tollskyldum vörum, meðan skipið dvelur í höfn. Þetta ákvæði var tekið óbreytt upp í lögin um breytingu á 1. gr. nefndra tolllaga, nr. 41, 1921.

Með lögum nr. 32, 28. nóv. 1919, var það nýmæli sett, að afgreiðslugjald danskra fiskiskipa skyldi vera 1 króna af smálest hverri, en 50 aurar af öðrum erlendum fiskiskipum. En um þóknun til lögreglustjóra er ekki talað í þeim lögum. Þessi gjöld voru látin standa óhögguð, þegar aukatekjulögin nr. 27, 27. júní 1921, voru sett, svo sem 54. gr. þeirra laga sýnir.

En þegar lögin nr. 33 frá 19. júní 1922 koma til sögunnar, eru lögð ný og aukin störf á herðar lögreglustjóranna, og er jafnframt álitamál, hvort um leið hafi ekki verið gerð breyting á því, hvernig skipagjöldunum, sem sett voru 1919. skyldi varið. í 4. gr. laganna segir svo m. a. (með leyfi hæstv. forseta) :

„Fyrir skoðun skipsskjalanna skal greiða lögreglustjóra eða hreppstjóra gjald það, er ákveðið er í aukatekjulögunum. Síðan skal rita á skipshafnarskrá skipsins vottorð um skoðunina og greiðslu lögskipaðs gjalds.

Er hreppstjóri framkvæmir skoðunina vegna lögreglustjóra, skal skifta gjaldinu jafnt milli þeirra.“

Eins og hv. þm. er eflaust kunnugt, hefir risið ágreiningur milli sumra lögreglustjóra og hæstv. stjórnar um það, hvernig skilja beri grein þessa. Nefndin vill á engan hátt blanda sjer í þær deilur eða leggja dóm á þær, enda heyrir sá ágreiningur undir dómstóla landsins. En nefndin vill breyta þessu ákvæði og fyrirbyggja allan misskilning í þessu efni. Ef skilningur lögreglustjóranna reynist rjettur, og þeim verður dæmt alt gjaldið, þá verða laun sumra þeirra óhæfilega há, en aftur á móti njóta aðrir einskis góðs af ákvæðinu, þar sem engar skipakomur eru í lögsagnarumdæmi þeirra. Getur slíkt valdið hinu mesta misrjetti og gefið sumum lögreglustjórum stórfje í eigin vasa, einkum þeim, sem minst þurfa fyrir innheimtu gjaldsins að hafa og sem síst þarf að veita nokkra launauppbót, vegna þess að þeir sitja í tekjumestu embættunum.

Aftur á móti er ekki sanngjarnt að leggja lögreglustjórunum svo mikilvæg aukin störf á herðar, án þess að þeim verði greidd aukaþóknun fyrir. Fjhn. leggur því til, að þeim verði greiddur innheimtukostnaður af gjaldi þessu, samkvæmt samningi við landsstjórnina, mismunandi hár eftir öllum staðháttum í hverju lögsagnarumdæmi, en þó aldrei yfir 25% af gjaldinu.

Í þessu sambandi skal jeg benda á það, að í lögum um læknisskoðun aðkomuskipa, nr. 31 frá 20. júní 1923, er þóknun til læknis, sem framkvæmir skoðunina, hækkuð um helming. En þóknun til lögreglustjóranna hefir ekki verið hækkuð síðan 1911 í sambandi við ný aukin störf, og þó verða þeir einnig að fara um borð í skipin til tolleftirlits.

Þar sem öll sanngirni mælir með því, að þóknun þeirra sje hækkuð, a. m. k. sumstaðar á landinu, þá leyfi jeg mjer að mæla með því, að frv. þetta nái fram að ganga. Sje jeg ekki ástæðu til að frv. gangi til nefndar, þar sem það er borið fram af fjhn. og hefir verið athugað þar.