02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. (Björn Líndal):

Fjárhagsnefnd hefir athugað brtt. á þskj. 218, en getur ekki lagt til, að hún verði samþykt, þar sem þóknunin samkvæmt henni yrði í mörgum tilfellum alt of lítil. Það er vitanlegt, að kostnaður og fyrirhöfn lögreglustjóranna eða umboðsmanna þeirra er oft og tíðum mjög mikill við að fara um borð í fiskiskipin til þess að afgreiða skjöl þeirra og athuga alt það, sem athuga á. Flest skipin, sem hjer um ræðir, eru lítil, ekki meira en 60—70—80 smál., og samkv. brtt. gæti innheimtugjald í hæsta lagi orðið 4 krónur af 80 smál skipi. Eftir því sem mjer er kunnugt um, eru oft talsverð vandkvæði á því að komast fram í skipin sumstaðar á landinu. Á Siglufirði liggur stundum fjöldi erlendra fiskiskipa úti á höfn, og þar er kaup verkamanna oft mjög hátt og varla hægt að fá mann til flutninga hvað sem í boði er. Annarsstaðar, þar sem hafnleysur eru, eru erfiðleikarnir enn meiri.

Auk þess ber þess að gæta, að þetta er ekki nema heimildarlög, og jeg fyrir mitt leyti treysti bæði núverandi hæstv. stjórn og yfirleitt öllum stjórnum í framtíðinni til þess að fara vel og skynsamlega með þessa heimild. Jeg held að lítil hætta sje á því, að fjármálaráðherra greiði meira en góðu hófi gegnir. Þess vegna vil jeg fyrir hönd nefndarinnar halda fast við frv. og leggja á móti brtt.