02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Klemens Jónsson:

Eftir lögum nr. 2, 2. febr. 1894, um ferðakostnað og dagpeninga sýslumanna, er svo ákveðið, að lögreglustjórar eða hreppstjórar fái 10 aura fyrir að skoða skjöl útlendra fiskiskipa í fyrsta sinn, er þau koma til landsins, og er gjald þetta miðað við stærð skipsins, eða hvað það er skráð að tonnatali. Framkvæmi hreppstjóri skoðun þessa, skiftist gjaldið milli hans og lögreglustjóra. Um það hefir enginn ágreiningur verið, að minni vitund, að þessi ákvæði standi enn óhögguð og í fullu gildi, þótt launalögin frá 1919 kveði svo á, að aukatekjur allar skuli renna í ríkissjóð. Tekjur þessar hafa altaf hingað til runnið til sýslumanna sjálfra og hreppstjóra.

Árið 1921 komu ný lög um aukatekjur ríkissjóðs. Í 54. gr. þeirra laga er m. a. svo ákveðið, að dönsk fiskiskip skuli greiða 1 kr. af smálest hverri, og önnur erlend fiskiskip 50 aura af smálest í fyrsta sinn á hverju ári, sem skjöl þeirra eru skoðuð af valdsmanni hjer á landi. Um það hefir enginn ágreiningur verið, að þetta skipaskoðunargjald eigi að renna í ríkissjóð.

En svo koma enn ný lög 1922, um fiskiveiðar í landhelgi, sem meðal annars leggja lögreglustjórum miklar og nýjar skyldur á herðar, og sem ekki er hægt að ætlast til, að þeir fullnægi án einhvers endurgjalds. Enda er svo ákveðið í 4. gr., að greiða skuli lögreglustjóra eða hreppstjóra fyrir skoðun skipsskjalanna gjald það, sem ákveðið er í aukatekjulögunum. Þetta út af fyrir sig, að gjaldið eigi að greiðast lögreglustjóra eða hreppstjóra, virðist nægilega skýrt, auk ákvæðisins um, að greiða skuli gjald það, sem ákveðið er í aukatekjulögunum, enda tekur niðurlag 4. gr. af öll tvímæli og er nákvæmlega samhljóða ákvæði laganna frá 1894, að gjaldið skiftist jafnt milli lögreglustjóra og hreppstjóra, ef hinn síðarnefndi framkvæmir skoðunina.

Þetta sýnir svo skýrt sem frekast er unt, að gjaldið sje þeirra eign; að minsta kosti er það óhugsandi, að hreppstjórinn eigi að senda helming til sýslumanns, til sendingar í ríkissjóðinn, en hinn helminginn eigi hann að senda í ríkissjóð.

Öll tvímæli, sjeu þau annars til, tekur aths. við 4. gr. frv. annars af. Þar segir svo: „Ákvæðin um ákvörðun afgreiðslugjaldsins er lagt til að sjeu ekki sett í lög þessi, en vísað til aukatekjulaga þeirra, sem í gildi eru á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 27, 27. júní 1921, síðustu málsgr. 54. greinar.“ (Alþt. 1922, A. bls. 170).

Það er nú oft svo, þegar skýra á lög og um vafasöm atriði er að ræða, að lögfræðingana greinir á og verða stundum ekki sammala um ýms ákvæði. En þessi ákvæði eru svo skýr og ljós, að enginn getur um það vilst, hvernig beri að skilja þau í framkvæmdinni. Hæstv. fjrh. sagði, að margir lögfræðingar væru á þessari skoðun. Hann gæti tekið dýpra í árinni og sagt, að það væru allir lögfræðingar, sem skildu ákvæði laganna á þessa lund, og fleiri en þeir. Og fjhn., sem borið hefir frv. þetta fram, er á einu máli um það, að svona beri að skilja lögin.

Það var út frá þessum forsendum og skilningi, að jeg sem atvrh. kvað upp úrskurð, sem að vísu gekk á móti ríkissjóði og varð þess valdandi, að hann misti af nokkurri fjárhæð, enda lít jeg svo á, að ráðherra eigi engu síður að gæta rjettar einstaklinganna heldur en ríkisins. Hann á að gera öllum rjett, en má ekki einblína á hag ríkissjóðs, ef hann hefir rangan málstað.

Hitt er alt annað mál, hvort það sje rjett og sanngjarnt að láta lögreglustjóra hafa svona miklar tekjur af skoðuninni, og jeg get svarað fyrir mig, að jeg held, að svo ætti ekki að vera.

Frv. til þessara laga, sem hjer er um að ræða, var upphaflega samið af manni, er heima átti í Kaupmannahöfn, að vísu góður og gegn maður, en líklega ekki nógu kunnugur hjer heima og þekti ekki, hvað rjettast og sanngjarnast mundi vera í þessu efni, en úr því hefði stjórnin, sem frv. bar fram, átt að bæta.

Fjhn. er öll á einu máli um það, að ekki sje rjett að lögreglustjóri hafi svona miklar aukatekjur, þó hún hinsvegar viðurkenni, að fyrir innheimtuna beri að greiða einhverja þóknun. Þess vegna hefir hún fallist á, að innheimtugjaldið verði sett 25%, eins og hæstv. fjrh. hefir stungið upp á. Hæstv. fjrh. ætlaðist til, að lögin verkuðu aftur fyrir sig til 1. júlí 1923. Nefndin getur ekki fallist á það; hún vill ekki svifta lögreglustjóra þeim tekjum fyrir þann tíma, sem liðinn er, heldur frá þeim tíma, sem lögin ganga í gildi.

Annars ætla jeg ekki að orðlengja um þetta. Jeg treysti hv. frsm. (BL) til þess að fylgja málinu fram.

En eitt er álitamál, hvort svifta eigi þá lögreglustjóra, sem nú eru í embættum, þessum aukatekjum. Jeg skýt þessu aðeins fram til athugunar. Fyrir skömmu var hjer á ferð í bænum sýslumaður, sem heima á úti á landi, en mun nú hafa horfið heimleiðis. Hann átti tal um þetta við mig og ljet ótvírætt í ljós þá skoðun, að hæpið mundi vera, að hægt væri að taka þessar tekjur af þeim mönnum, sem notið hafa þeirra undanfarið, enda mun hann hafa lagt allfast að ýmsum þm. að láta frv. ekki ná fram að ganga nema því aðeins að undanskilja þá sýslumenn og lögreglustjóra, sem nú eru í embættum. Og jeg er á því, að þessi skoðun hafi nokkuð til síns máls. Þessir embættismenn eru skipaðir samkvæmt lögum og geta eflaust haldið sig við það, en þeir geta þá skotið úrlausn þessarar spurningar undir úrskurð dómstólanna.

Jeg held því fast fram, að úrskurður minn sje rjettur og lögunum samkvæmur. Hitt er vafamál, hvort lögreglustjórarnir hefðu átt að fá þennan rjett. Lögin voru samin í fljótfærni og flaustrað umræðulaust í gegnum þingið, enda hefir það komið á daginn, að fljótlega þyrfti að breyta. Þetta er önnur breytingin á þeim á þessu þingi. Þar sem lögin leggja sýslumönnum miklar skyldur á herðar, sem sjálfsagt er, að ríkissjóður bæti upp á einn eða annan hátt, þá er hjer farið fram á, að þeir fái 25% af gjaldinu í innheimtulaun, en 10%, eins og brtt. á þskj. 218 fer fram á, er mikils til of lágt.