04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg endurtek það, sem jeg sagði áður, að það þýðir ekki að fara út í lögskýringar á því, hvernig þetta er nú, því það liggur ekki hjer fyrir, hver rjetturinn sje nú. En jeg vil þó segja það, þegar hv. frsm. meiri hl. (SE) heldur því fram, að með orðinu „aukatekjulögin“, í lögunum frá 1922, sje eingöngu átt við lögin um aukatekjur ríkissjóðs frá 1921, þá getur það ekki staðist, enda hefir því líka verið haldið fram, að skipin sjeu einnig skyld til að greiða eftir aukatekjulögunum frá 1894. (SE: Það þarf ekki áð ákveða hjer). Þarf þá nokkuð að ákveða hjer? Nei, það þýðir það, að þau sjeu skyld til að greiða það gjald, sem ákveðið er í hvaða aukatekjulögum, sem þá eru í gildi. Það er almenn „formulering“ á skyldu erlendra fiskiskipa. Hv. frsm. meiri hl. (SE) sagði, að engin yngri lög hefðu upphafið þetta. Jeg skal nú ekkert um það segja, en það stappar þó allnærri því, að lögin um gengisviðaukann frá 1924 hafi tekið af öll tvímæli um það, að ríkissjóður eigi einn skipagjöldin eftir lögunum frá 1921. Það, sem jeg fer fram á, er, að löggjafarvaldið setji ákvæði um, hvernig þessu skuli hagað framvegis. Jeg fyrir mitt leyti álít það eðlilegast að setja málið í sama horf og það var 1921, að ríkið eigi þessar tekjur.

En ef háttv. meiri hl. vill láta þá lögreglustjóra, sem nú eru í embætti, fá þessar tekjur, þá er engin sanngirni í að taka þær af þeim lögreglustjórum, sem síðar koma. Þetta verður hv. meiri hl. að athuga, ef hann vill afgreiða málið með skynsamlegum rökum og sanngirni.

Til 3. umr. vil jeg biðja hv. meiri hl. að athuga, hvort hann álíti, að lögreglustjórar eigi gjöld af öllum útlendum skipum eða aðeins 50 aura gjaldið af öðrum skipum en dönskum og færeyskum. Ennfremur vil jeg biðja háttv. meiri hl. að athuga, hvort þeir eigi líka gengisviðaukann við þessi gjöld, sem lagður var á eftir lögum frá síðasta þingi. Og að síðustu vil jeg beina því til háttv. meiri hl., hvort hann telji heppilegt, að löggjafarvaldið grípi á þennan hátt fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu. Ef svo er, þá er best að taka hreint af skarið og segja: Það er vilji Alþingis, að þetta gjald renni til lögreglustjóranna. Mjer skilst, að það sje vilji hv. meiri hl. Þetta er best að komi hreint fram.