08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Aðstaðan er hrein hjá nefndinni eða meiri hluta hennar. Meiri hl. heldur því föstu, að ekki megi taka af lögreglustjórunum þau rjettindi, sem þeir hafa unnið með nefndum lögum, en hinsvegar er ekki farið fram á að útvega lögreglustjórunum nokkurn nýjan rjett. Jeg er persónulega sannfærður um, að þeir vinna mál sitt, en ef þeir ekki vinna það, þá er ekkert að hræðast. Jeg vil í viðbót við þau rök, sem jeg hefi fært fyrir hinum skýlausa rjetti lögreglustjóranna, geta þess, að Sveinn Björnsson fyrv. sendiherra, sem undirbjó fiskiveiðalögin fyrir stjórnina, hefir sagt mjer, að fyrir sjer hafi altaf vakað, að lögreglustjórarnir ættu að fá 50 aura gjaldið, meðfram til að örva þá til eftirlits með útlendum fiskiskipum. Sbr. og það, sem stendur í ástæðunum fyrir stjfrv.

Úr því nú að hv. deild vildi ekki fallast á hina sanngjörnu till. meiri hl., þá sje jeg ekki, að annað sje fært en að fella frv., og mun jeg greiða atkvæði samkv. því.