24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla að fara mjög skamt út í þetta nú, af þeirri ástæðu, að það er öldungis fyrirsjáanlegt, að aðalumræðan verður við 2. umr., þegar málið er komið frá nefnd. Og það er mjög hætt við, ef farið er að orðlengja mjög við 1. umr., þá leiði það einungis til endurtekningar.

Aðalatriði laganna, sem farið er fram á að framlengja, er vitanlega skipun nefndarinnar, — það, hvernig hún er skipuð og hvaða vald henni er veitt og má veita, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi, ef einhver vandræði steðja að og hætta þykir á sjerstöku verðfalli peninganna. En því verður ekki neitað, að í lögunum eru líka ákvæði, sem beinlínis gera ráð fyrir, að það sje verkefni nefndarinnar að stuðla að hækkun krónunnar. Og jeg viðurkenni það fullkomlega með hv. þm. Str. (TrÞ), að það er mjög mikið athugunarefni, hversu mikið löggjöfin á fyrir sitt leyti að stuðla að því, að krónan hækki. Og það getur þess vegna í sjálfu sjer vel komið til álita í hv. fjhn., sem jeg geri ráð fyrir að fái frv. til meðferðar, hvort það þyki rjett að breyta lögunum eitthvað í því efni, sem snertir það ætlunarverk nefndarinnar að gera till. til að hækka verðgildi íslensku krónunnar. En jeg tek það fram til athugunar fyrir nefndina, að sem stendur höfum við ekki óbundnar hendur um meðferð peningamála okkar, því að Ísland er þátttakandi í myntsambandi Norðurlanda, og samkv. þeim samningi, sem við höfum gengið að þar að lútandi, hefir ísl. krónan ákveðinn gullþunga, þ. e. þann sama sem gildir um öll Norðurlönd. Þessu getum við ekki breytt nema við segjum okkur fyrst úr myntsambandinu með lögmæltum fyrirvara eins og ákveðið er í samningnum. Á þessu þingi getum við því ekki tekið ákvörðun um breytingu á gullgildi okkar peninga; í mesta lagi gætum við undirbúið það að einhverju leyti. Jeg hefi á öðrum stað, utanþings, bent á ýms vandkvæði, sem á því eru, ef við tækjum okkur út úr myntsambandinu og t. d. „stýfðum“, þ. e. lækkuðum gullþyngd krónunnar okkar, meðan við vitum ekki, hvað Noregur og Danmörk gera við lággengi það, er þau lönd eiga við að búa. Þó að við vildum „stýfa“ íslensku krónuna, gætu af því hlotist allmikil óþægindi fyrir okkur, ef t. d. Danir og Norðmenn tækju upp þá stefnu að hækka sína krónu upp í gullgildi. Þá mundi verða tvísýnn hagur okkar af því að „stýfa“ ísl. krónuna. Þá kemur og eitt atriði enn, og það er það, að það er varla hægt að hugsa sjer framkvæmd á neinu endanlegu skipulagi peningamála landsins eins og ástandið er nú hjá okkur, meðan landið er seðlabankalaust. Það væri að vísu hægt að gera innlausnarskyldu á hendur Íslandsbanka, en nú eru seðlar þess banka ekki meiri en það, að þeir geta aðeins fullnægt nokkrum hluta af seðlaþörf landsmanna, en aftur á móti er enn engin löggjöf til um það, að búa megi til nýja seðla. Það vantar sem sje alla löggjöf um þessa hluti; það er aðeins til ein einasta lína í lögum, sem kveður á um það, að landsstjórnin skuli hlutast til um, að Landsbankinn setji í umferð þá seðlaviðbót, er nauðsyn krefur. Jeg sje því ekki, að það verði komið endanlegu skipulagi á þessi mál, meðan svo stendur.