06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að hefja almennar umr. um þetta mál nú. Það hefir áður verið ítarlega rætt hjer á þingi, bæði í fyrra og hitteðfyrra. Því síður er ástæða til að fjölyrða um málið, þar sem fjhn. er öll á einu máli um, að gengisnefndin haldi áfram að starfa. Um það er enginn ágreiningur. Hinsvegar vill meiri hl. fjölga nefndarmönnum, enda er á þskj. 393 fram komin brtt. í þá átt.

Í fyrra varð afgreiðsla þessara laga nokkuð seint fyrir hjer í þinginu, og kom þá þegar í ljós talsverð óánægja yfir því, hvernig frá þeim var gengið. Margir óskuðu eftir, að gengisnefnd yrði skipuð fleiri mönnum en raun varð á, og skipuð fulltrúum frá báðum aðalatvinnuvegum landsins. Sama hefir orðið uppi á teningunum nú.

Hæstv. fjrh. (JÞ) afhenti fjhn. þessarar deildar fyrst frv. og mæltist til, að hún flytti það hjer. En af því varð þó ekki. vegna þess að nefndarmenn voru ekki sammála um skipun gengisnefndarinnar. Var frv. þá afhent hv. fjhn. Ed., og bar hún frv. fram í þeirri hv. deild, og er það hingað komið þaðan óbreytt, eins og það kom frá fjrh.

Fjhn. hefir klofnað um frv. og leggur meiri hl. til, að það verði samþykt með þeirri breytingu, að 2 mönnum verði bætt við gengisnefndina samkv. því, sem segir í brtt. á þskj. 393, að annar þeirra skuli skipaður af stjórn Fjelags íslenskra botnvörpuskipaeigenda, en hinn af stjórn Sambands ísl. samvinnufjelaga.

Fjhn. kallaði gengisnefndina á fund sinn og bar undir hana, hvort hún hefði nokkuð við þessa breytingu að athuga. Kvað nefndin nei við, en taldi hinsvegar óviðeigandi, að þessir nýju menn hefðu atkvæðisrjett um gengisskráninguna sjálfa. Varð fjhn. að fallast á, að gengisnefndin hefði rjett fyrir sjer í því efni, að ekki væri viðeigandi, að fulltrúar áðurnefndra stofnana hefðu beint atkvæði um sjálft gengið. Bankarnir, sem hafa þá skyldu á herðum að kaupa og selja erlendan gjaldeyri, hljóta að ráða því, hvernig gengið er skráð, en ekki aðrar stofnanir, sem enga aðstöðu hafa til að kaupa þann gjaldeyri, sem býðst. Þess vegna fjelst fjhn. á, að þessir tveir menn skyldu ekki hafa atkvæðisrjett um gengisskráninguna, en hinsvegar eiga þeir að sjálfsögðu að hafa tillögurjett í því efni og fullan rjett á borð við þá 3, sem fyrir eru í nefndinni, í öllum öðrum málum, sem nefndin fær til meðferðar.

Í fjhn. kom til tals, að sjálfsagt væri að athuga, hvort ekki væri rjett að festa gengi ísl. krónunnar í náinni framtíð. Leit nefndin svo á, að eitt aðalhlutverk gengisnefndarinnar yrði að athuga, hvort ástæða væri til þessa og með hverjum hætti það mætti verða og leggja síðan till. sínar í því efni fyrir næsta þing. Gengisnefndin fær því nægilegt verkefni til að leysa af hendi.

Þá kom til tals í fjhn., hvort ekki væri rjett að fjölga gengisnefndarmönnum enn meira. Einkum var um það rætt, hvort ekki væri full ástæða til, að neytendur fengju einnig sína fulltrúa í nefndina, og hefir hv. minni hl. talið þetta sanngjarnt í sínu nál., ef nefndarmönnum yrði fjölgað á annað borð. Fyrir hönd meiri hl. get jeg sagt, að hann hefir í rauninni ekkert við það að athuga, þó nefndarmönnum verði fjölgað um fleiri en tvo, og hefir nefndin óbundin atkvæði um það efni.

Nú hefir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) flutt brtt. þess efnis, að fjölga nefndarmönnum upp í 7, en þar sem þeirri brtt. var fyrst útbýtt nú í byrjun fundarins, hefir mjer ekki gefist tækifæri til að bera hana undir hv. meðnefndarmenn mína, en jeg get ímyndað mjer, að þeir hafi ekkert sjerstakt við hana að athuga.

Í fjhn. kom til tals, að ekki væri nema sanngjarnt, að Alþýðusamband Íslands fengi einn mann í nefndina, en um Verslunarráðið var ekki talað í því sambandi. Hinsvegar var talað um, að ástæða væri til, að samband embættismanna ríkisins tilnefndi einn mann í nefndina, og jeg fyrir mitt leyti hefði kosið, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefði farið í þá átt, að stjórn Alþýðusambandsins tilnefndi annan manninn, sem hann vill bæta við nefndina, en stjórn embættismannasambandsins hinn.

Það leiðir af fjölgun nefndarmanna, að kostnaður ríkissjóðs við nefndina vex. Eftir frumvarpinu greiðir ríkissjóður aðeins 1/3 þessa kostnaðar, en kemur til með að greiða 3/5 eða 5/7 ef nefndarmönnum verður fjölgað eins og nú liggja fyrir brtt. um. Hve mikill kostnaðurinn er nú, veit jeg ekki. Mun hæstv. fjrh. (JÞ) geta gefið upplýsingar um það efni.

Álit fjhn. um frv. er þá í stuttu máli þetta: Öll nefndin telur sjálfsagt, að gengisnefndin starfi áfram, og meiri hl. vill bæta við hana a. m. k. 2 mönnum, til þess að hún megi leysa störf sín sem best af hendi, ekki aðeins sjálfa gengisskráninguna, heldur einnig allan undirbúning þess máls, hvort rjett muni vera að festa gengi íslensku krónunnar.