06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2734 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Tryggvi Þórhallsson:

Það mætti ræða þetta mál í allan dag, ef tala ætti um það alment. En það er á móti þingsköpum að gera slíkt við 2. umr., og það væri gott að þessari umr. yrði lokið í dag. Jeg skal því vera stuttorður, en jeg er til í það að þjarka um málið, því að jeg tel það allra stærsta mál atvinnuveganna.

Það má vera, að jeg hafi talað ógreinilega um eitt atriði í fyrri ræðu minni, því að hæstv. fjrh. (JÞ) misskildi mig og hjelt, að jeg vildi fá yfirlýsingu um, að það ætti að stýfa krónuna. Það ætlaði jeg ekki að láta liggja í orðum mínum. Jeg sagði, að nefndin ætti að rannsaka, hvort krónan skyldi stýfð. Og jeg sagði, að ef Alþingi samþykti brtt. á þskj. 393, þá væri það yfirlýsing um það, að hækkun krónunnar ætti ekki að verða jafnhraðfara og á síðasta ári. Lögin í fyrra voru afgreidd með þeirri hugsun, að krónan ætti að hækka. Nú vil jeg að gagnstæð hugsun komi fram frá Alþingi: festa en ekki hækka. Og jeg lagði áherslu á, að jeg vildi fá skýr svör frá fjhn. um það, að hún vildi ekki stuðla að hækkun, heldur að farið yrði varlega.

Hæstv. fjrh. vjek að því, hvort það ætti að stýfa krónuna eða festa gengið. Jeg er honum alveg samdóma, að það þarf að athugast gaumgæfilega. Það má ekki hrapa að því, en það, sem hæstv. fjrh. bar á móti því, var það, að ekki væri annað vitanlegt en að Danmörk og Noregur ætluðu að hækka sína krónu. Þetta hefði verið rjett í fyrra, því að þá var ekki annað vitanlegt, en jeg veit, að hæstv. ráðherra (JÞ) fylgist svo vel með því, sem skrifað er um þetta mál í blöðum þessara þjóða og víðar, að hann veit, að það er orðin töluverð breyting á hugsunarhætti manna í því efni. Það eru einmitt margir í Danmörku og Noregi farnir að hugsa til að stýfa krónuna, og þess vegna get jeg ekki tekið undir það með hæstv. ráðherra (JÞ), að Danmörk og Noregur ætli að halda áfram að hækka hana. Jeg býst við, að gengisnefndin taki þetta mjög rækilega til athugunar. Hin meginástæðan, sem hæstv. ráðherra (JÞ) kom fram með móti því að stýfa krónuna, var sú, að þá bjóst hann við, að sú hætta gæti vofað yfir, að flúið væri hjeðan með peningana til Noregs og Danmerkur. Jeg vil ekki neita því, að svo geti verið, en benda á það, að sú hætta vofir alveg eins yfir, þá er við einhverntíma ef til vill komum krónunni í gullverð. Sú hætta, sem hæstv. ráðherra (JÞ) segir, að vofi yfir okkur, ef við stýfum krónuna nú, sú hætta vofir nú yfir Svíþjóð, og er þá ekki flúið með peningana í miljónatali þaðan og yfir til Danmerkur? (Fjrh. JÞ: Efalaust). Já, en ef krónan hækkar upp í gullgengi, vofir þessi sama hætta yfir hjer þá. Þess vegna er það, að þessar alvarlegu afleiðingar geta altaf vofað yfir, nema því aðeins, að við sjeum allra síðastir til að hækka okkar krónu. Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta.

Mjer finst, að hv. þm. Borgf. (PO) meðflutningsmaður minn að brtt. á þskj. 393, gefi mjer hálfgildings ákúrur fyrir það, að jeg hefi gengið inn á brtt. fjhn. Jeg hafði allar dyr opnar hvað það snerti; jeg lýsti engu yfir um það, hvað jeg gengi inn á, en mjer gekk það til, og það var aðalatriðið, að hjer á þingi eigi að koma fram nýr vilji, annar en sá, sem komið hefir fram áður í þessu máli, og jeg vil þess vegna ekki undir neinum kringumstæðum, að brtt. okkar á þskj. 393 verði feld. Jeg vil helst að hún verði samþykt óbreytt; en þegar jeg fjekk þær upplýsingar, að tveir úr nefndinni sjeu alveg á móti henni, en hinir vilji samþykkja með þeim breytingum, sem þeir leggja til, þá óttaðist jeg, að okkar till. væri í voða, og þá er okkar tilgangur einnig í voða, að það kæmi fram hjá Alþingi vilji um það að hækka ekki krónuna svo ört. Best teldi jeg auðvitað, að till. okkar væri samþykt óbreytt, en jeg vil ekki eiga það á hættu, að hún verði feld. Jeg vil helst greiða atkv. á móti brtt. fjhn. á þskj. 441, en að aðalefnina í brtt. okkar sje ekki stofnað í voða. En öllu stofna jeg ekki í voða, og sje nú hvað setur.

Þá er það eitt atriði hjá hv. þm. N.- Ísf. (JAJ), sem jeg tel alveg rjett, þar sem hann sagði, að ef fulltrúi ríkisins og fulltrúar atvinnuveganna vildu halda útlendum gjaldeyri hærra en þeir vildu kaupa hann, þá rjettu bankarnir kröfu á hendur ríkinu um það, að það ábyrgðist, að þeir biðu ekki halla. Jeg álít, að frá bankanna hálfu hefði það verið rjettara, að þeir hefðu heimtað slíka tryggingu frá ríkinu, heldur en að þeir krefjist þess, að þessir fulltrúar atvinnuveganna mættu ekki hafa atkvæðisrjett um málið, og eitt atriði með því var það, sem jeg vakti athygli á í fyrri ræðu minni, að ríkið gæfi í skyn, að það vildi kaupa þann erlenda gjaldeyri hjá bönkunum, sem það þyrfti á að halda, við ákveðnu verði. Með því getur ríkið stutt atvinnuvegina stórkostlega.