06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. frsm. nefndarinnar (KIJ) gat þess, sem að vísu er rjett, að það hefði komið fram í þinginu ummæli um það, að gengisnefndin hafi til þessa gengið fulllangt í því að hækka krónuna; en jeg vil ekki láta þetta standa ómótmælt, því að það er föst sannfæring mín, að gengisnefndin hafi, að því er snertir hækkun til þessa tíma, ratað mjög heppilegan meðalveg, að því leyti sem ákvörðun var á hennar valdi, því að hitt er náttúrlega ennþá rjettara, að hækkunin hefir stjórnast af viðburðum, sem nefndin ekki gat við ráðið; en það, sem hægt er að finna að, er það, að hækkunin, sem gerð var á síðastliðnu ári, var gerð heldur seint. Þetta er sannleikurinn. Sumarmánuðina voru menn of ragir við að láta pundið hækka, og þess vegna naut gengishækkunarinnar ekki eins í verðlagi innanlands, þegar kom fram á haustið, eins og orðið hefði, ef hækkunin hefði gerst fyr. En það var eðlilegt, að menn væru ragir eftir undangengnar sveiflur. En hitt, að hækkun íslensku krónunnar hafi verið of mikil, nær ekki nokkurri átt, þar sem hjer hefir verið talað svo mikið um stórgróða atvinnurekendanna, — því að hver hefði afleiðingin orðið, ef hækkunin hefði verið minni? Ekki annað en það, að stórgróðinn hefði orðið ennþá meiri og dýrtíðin í landinu dálítið meiri en hún er. Mest af því, sem gert var, var ekki annað en að vinna upp sveifluna niður á við, sem orðið hafði síðari hluta ársins 3923 og fyrsta fjórðung ársins 1924.

Út af ræðu hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg aðeins segja það, að þetta, sem hann sagði um gjaldeyriskaup, er, þó að háttv. þm. (TrÞ) haldi, að það hafi þýðingu í málinu, svo gersamlega þýðingarlaust. Það er svo lítið af erlendum gjaldeyri, sem ríkissjóður þarf að kaupa, að það hefir enga þýðingu, hvort keypt er fyrir skráð gengi eða lægra verð, en annars vil jeg geta þess, að ríkissjóður hefir altaf, síðan jeg tók við, keypt hjá bönkunum fyrir skráð gengi. Jeg álít, að það sje það eina rjetta að gera það, en auðvitað getur engin ríkisstjórn bundið sig við að kaupa fyrir það lengur en á meðan skráð er raunverulegt söluverð. Hún getur ekki bundið sig við að kaupa fyrir skráð gengi, ef gengisnefndin tekur upp þá óvenju að skrá annað gengi en það, sem raunverulega er keypt og selt fyrir. Jeg vil alls ekki gera ráð fyrir því, að gengisskráningin komist inn á slíkar brautir, og tel ekki, að þær till., sem hv. fjvn. ber fram, gefi ástæðu til að óttast slíkt, og þá má sjálfsagt gera ráð fyrir því, að ríkisstjórnin haldi áfram að kaupa hjá bönkunum fyrir skráð gengi.

Þegar jeg sagði, að ekki væri annað vitanlegt en að Danmörk og Noregur mundu láta sína krónu hækka upp í gullverð, þá fór jeg ekki eftir blaðafregnum um það; jeg fór meira eftir bankastjórnum ýmsra banka, sem látið hafa uppi álit sitt um málið í síðustu ársskýrslum bankanna. Þær gera allar gengismálið að umtalsefni og eru furðanlega sammála, og er því alment trúað þar, að gengið eigi að hækka talsvert upp úr því, sem nú er; en hitt er mjer og kunnugt um, að fræðimenn á þessu sviði eru alment sammála um það, að óskynsamlegt sje að keppa eftir gengishækkun, en það eru ekki alment þeir, sem hafa ráðin í þessu máli, hvorki um stýfingu eða aðrar hömlur. Um þá hættu, er hafi vofað yfir Svíþjóð, og að fjármagn hafi flúið þaðan, vil jeg benda á það, að engin þjóð hefir getað fest sinn gjaldeyri, nema með því að taka stórkostleg útlend lán, til þess að vera viðbúin fjárflótta, þegar gengið er sett fast. Það má hjer benda á, að England hefir trygt sjer 300 milj. dollara lán í Bandaríkjunum, til þess að vera ekki á flæðiskeri statt, þegar pundið stöðvast við það að komast upp í gullverð, og hefir auk þess safnað hátt á aðra miljón dollara heima fyrir, til þess að þola blóðtökuna. Þessi hætta er mjög mikil á meðan enn eru nálæg lönd, sem ekki hafa hlaupið skeiðið á enda, en því færri sem þau eru, því minni er hættan, og eftir að England, Þýskaland og Svíþjóð eru komin upp í gullmark, myndi okkur ekki stafa veruleg hætta af þessu, svo framarlega sem við kæmumst í samfylgd með Danmörku og Noregi, því þá væru nokkurn veginn upptalin þau lönd, sem menn teldu sjer fært að flytja fje sitt til. Annars sló hv. þm. Str. (TrÞ) mikið af frá þeim skilningi, sem jeg hafði lagt í fyrri ræðu hans, og skilst mjer nú, að hv. þm. (TrÞ) fari ekki fram á annað en að farið sje varlega í það að hækka krónuna, sem er sjálfsagður hlutur.