06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Pjetur Ottesen:

Jeg stend aðallega upp út af því, að hv. frsm. fjhn. (KIJ) gerði tilraun til að hnekkja því, sem jeg sagði um það, að nefndin hefði tekið tillit til till. okkar aðeins í orði, en ekki á borði. Háttv. þm. (KlJ) sagði, að fulltrúar atvinnuveganna hefðu iðulega komið til gengisnefndarinnar á fundi hennar og lagt fram fyrir hana sín gögn og að hún hefði tekið tillit til þeirra, eftir því sem hægt hefði verið. En hv. þm. (KlJ) sagði ennfremur að öðru máli væri að gegna, ef þeir menn, er skipaðir væru af þinginu, kæmu fram fyrir nefndina með fullum myndugleika. Jeg sje ekki, að þessir menn geti gert annað en það, sem fulltrúar atvinnuveganna gerðu og myndu gera, ef þeir álitu, að stefnt væri í ófæru fyrir atvinnuvegina, og þess vegna finst mjer, ef þessir menn eru þannig skipaðir, að þeir ekki geta haft nein bein áhrif á skráningu gengisins, og ef gert er ráð fyrir því, að nefndin taki frekar tillit til þeirra fyrir það, að þeir eru skipaðir af þinginu, þá sje það sama sem að verið sje að væna nefndina um það, að hún vilji ekki taka tillit til skýrra og fullra gagna, barasta af því að þeir, sem þau bera fram, sjeu ekki skipaðir af þingi eða stjórn. En þeir mundu sem sagt ekki geta gert neitt annað en að bera fram sínar till., eins og fulltrúar atvinnuveganna hafa þrásinnis gert með litlum eða engum árangri. Hv. frsm. (KlJ) gat þess einnig, að það gæti skeð, að á þann hátt kæmust menn út á villigötur, að gengið yrði skráð á annan hátt en bankarnir vildu sinna, og ef svo færi, þá slær hv. frsm. (KlJ) því föstu, að ekki þýði að skrá með öðru gengi en því, sem bankarnir vilji, og ef svo er, þá hljóta bankarnir að vera einráðir um þetta. Þá þýðir ekkert frekar að vera að skipa einn mann í nefndina heldur en þrjá, ef bankarnir á annað borð eiga einir að ráða. Út af því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði. að hann hefði ekki viljað snúast á móti þessum breytingum nefndarinnar af ótta við það, að brtt. okkar yrði þá feld og þar með engin breyting gerð á lögunum, og þá yrði að halda við þann skilning, sem lægi í lögunum frá síðasta þingi og hann lýsti yfir þeim skilningi stjórnar Landsbankans á því máli, að það væri tilgangurinn í lögum þessum að hækka eða festa gengi íslensku krónunnar. Þó að nú breyting okkar á þessu orðalagi verði samþykt, en þessir þingskipuðu fulltrúar atvinnuveganna sviftir beinni þátttöku í skráningu gengisins, en bein þátttaka þeirra í skráningu gengisins er vitanlega aðalatriðið og þungamiðja þessarar tillögu okkar, þá óttast jeg, að svo verði litið á, að ekki sje um að ræða mikla stefnubreytingu í þessu máli hjá þinginu frá því, sem var í fyrra.