20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

50. mál, tollalög

Klemens Jónsson:

Jeg heyri það, að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) tekur mjer það æðióstint upp, að jeg skyldi geta þess, að hann hefði áður verið einkasölu hlyntur, þó hann sje nú einn af flm. þessa frv. Jeg hefi alls ekki verið að ásaka hv. þm. (ÁF) um stefnuskifti; það datt mjer alls ekki í hug, enda hefir hv. þm. leyfi til þess að skifta um skoðun, ef honum sýnist svo.

Jeg var aðeins að minna á þá staðreynd, að einkasöluhugmyndin er alls ekki ný, heldur kom kröftuglega fram fyrir 16— 17 árum. Jeg sagði ekki, að við hefðum gefist upp við tóbakseinkasöluna þá, heldur urðum við að fresta að taka fasta ákvörðun um hana, af því oss tókst ekki að fá nægilega góðar upplýsingar um þetta mál frá Svíþjóð, hvernig það horfði við þar, en að auki vildum við bíða eftir og sjá afdrif frv. um einkasölu á kolum og steinolíu. Þetta var aðalástæðan til, að frv. um einkasölu á tóbaki kom þá ekki fram.

Hv. þm. Ak. (BL) þarf jeg litlu að svara. Hann talaði um, að hann hefði ekki aðgang að bókum landsverslunarinnar, eins og hann segir, að jeg hafi. Jeg álít honum hefði átt að vera þetta alveg eins auðvelt og mjer. Hann hefir aðgang að sinni stjórn og ætti að geta fengið gegnum hana allar þær upplýsingar, er hann vill. (BL: Jeg geri ráð fyrir, að fjhn. fái þau gögn sem önnur í þessu máli). Jeg ímynda mjer til dæmis, að hv. þm. Ak. (BL) hefði ekki þurft annars með en að leita aðstoðar hæstv. fjrh. (JÞ), og mundi hann þá hafa getað fengið allar þær upplýsingar, er hjarta hans óskaði eftir.