29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. samgmn. (Jóhann Jósefsson):

Jeg ætla að tala nokkur orð fyrir hönd samgmn. þessarar hv. deildar út af þeim tillögum, sem hún hefir leyft sjer að koma með á þskj. 374 um úthlutun flóabátastyrksins á næsta fjárhagstímabili. Þessi nefnd var á fundi með samgmn. Nd., eftir beiðni hv. formanns nefndarinnar þar (KIJ). Var rætt um styrkinn og úthlutun hans, en þegar þetta skeði, var styrkurinn dálítið lægri en hann er nú í fjárlögunum. Nefndirnar urðu sammála um skiftingu styrksins, og sú skifting var að öllu leyti samhljóða því, sem segir á þskj. 374. Við meðferð fjárlaganna í Nd. var svo bætt við 4 þús. kr., þannig að upphæðin er nú 87 þús. kr. Nefndinni hefir verið skýrt frá því af hv. formanni samgmn. Nd., að þessi viðbót væri sett með tilliti til Hornafjarðarbátsins, og hefir sá hv. þm. lagt áherslu á, að Hornafjarðarbáturinn geti ekki komist af með þann styrk, sem honum var ætlaður áður. Nú er vitanlegt, að nauðsynlegt er, að samgöngur milli Hornafjarðar og Austfjarða sjeu styrktar, og vill nefndin ekki rengja ummæli hv. formanns samgmn. Nd. um, að styrkurinn til bátsins þurfi að vera hærri en gert hefir verið ráð fyrir, að hann yrði. En hinsvegar áleit hún vafasamt, að rjett væri, að styrkhækkunin rynni öll til þessa eina báts og benti á í nefndaráliti á þskj. 374, að fleiri bátar væru ekki minna styrktar þurfandi, einkum þó Skaftfellingur og Breiðafjarðarbáturinn. Þetta má ekki skilja svo, að nefndin leggi alla áherslu á, að Hornafjarðarbáturinn fái ekki meginið af viðbótinni, heldur ætlast hún til, að þó hann fái meginið af viðbótinni, sjái atvinnumálaráðuneytið sjer fært að láta þessa báta njóta uppbótar að einhverju leyti. Samgöngur við Skaftafellssýslur eru einna erfiðustu samgöngur á sjó hjer við land. Mjer er svo kunnugt um, hvernig þær ferðir ganga, að jeg álít styrkinn til þeirra vera of lítinn, ef miðað er við. hvað aðrir flóabátar fá. Hv. samgmn. Nd. taldi æskilegt, að eitt og sama skip annaðist samgöngur milli Reykjavíkur, Faxaflóa og Breiðafjarðar. Það álit nefndarinnar er ekki samhljóða, því að 2 nefndarmenn voru þessu ósamþykkir. Samgmn. Ed. verður að fallast á álit minni hluta samgmn. Nd., þar sem hún álítur það ekki einungis óheppilegt, heldur yrði það því nær óframkvæmanlegt, að sá bátur, sem annaðist póstferðir milli Reykjavíkur og Borgarness, sem mjög er áríðandi að sjeu vissar, annaðist einnig ferðir um Breiðafjörð.

Þá held jeg það sje ekki fleira, sem nauðsynlegt er að taka fram um þetta. Nefndin hefir gert grein fyrir því í nál., hvernig hún leggur til, að samgöngubótastyrknum sje varið, og vona jeg, að tillit verði tekið til þess, eftir því sem unt er, þegar endanleg úthlutun styrksins fer fram.

Það er rjett að geta þess í þessu sambandi, að hv. formaður samgmn. Nd. hefir látið uppi ótvírætt álit um, að Hornafjarðarbáturinn þyrfti að minsta kosti 7 þús. kr.

Jeg skal því næst leyfa mjer að minnast nokkuð á þær breytingartill., sem jeg hefi flutt eða er meðflytjandi að, og ef til vill aðrar tillögur, sem jeg læt mig sjerstaklega skifta.

Það verður þá fyrst fyrir mjer IV. brtt. í röðinni, sem borin er fram af mjer og hv. 2. þm. G.-K. (BK), hv. 3. landsk. (HSn) og hv. 5. landsk. (JJ), um styrk til dr. Helga Pjeturss. Við leggjum til með þessari brtt., að dr. Helgi Pjeturss verði fluttur í 18. gr. Bæði er nú það, að maður þessi hefir notið lengi styrks frá Alþingi, og auk þess kominn á efri ár, en er þó viðurkendur vísindamaður bæði utan lands og innan, svo við teljum betur viðeigandi að skipa honum á bekk með rithöfundum þeim, sem taldir eru í 18. gr. II. g. Jeg hafði tækifæri til þess í fyrra að minnast þessa merka manns að nokkru hjer í þessari hv. deild, og get því látið mjer nægja að vísa til þess. En hitt er mjer óhætt að fullyrða, að fjöldi manna víðsvegar úti um land hefir miklar mætur á þessum merka vísindamanni og óskar þess, að þingið styrki hann og skeri ekki fjárhæð þá við neglur sjer. Annars ætla jeg ekki að fjölyrða frekár um þetta, því að mjer er kunnugt um, að að minsta kosti einn af hv. meðflutningsmönnum mínum gerir brtt. þessa að umtalsefni, en vona hinsvegar, að hún nái fram að ganga.

Þá er jeg einnig flm. að VI. brtt. ásamt þeim hv. 2. þm. G.-K. (BK) og hv. 5. landsk. (JJ), þar sem farið er fram á 2250 króna styrk til Listvinafjelagsins hjer í Reykjavík til þess að kaupa „Móðurást“ Nínu Sæmundsson, og er styrkur þessi miðaður við sama framlag annars staðar frá, enda verði listaverkið opinberalega til sýnis hjer. Till. sama efnis var borin fram í hv. Nd., en fjell þar með litlum atkvæðamun.

Þessi unga listakona hefir áunnið sjer á mjög litlum tíma svo mikla tiltrú og viðurkenningu, að það mun einsdæmi. Jeg hefi hjer í höndum skjal frá Listvinafjelagi Íslands, þar sem gefnar eru nokkrar upplýsingar um þessa merku listakonu í sambandi við þetta verk hennar, sem hjer er um að ræða. Og af því að upp lýsingar þessar eru svo einstakar í sinni röð og merkilegar, þá vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa dálítinn kafla úr þessu skjali Listvinafjelagsins. Þessi kafli hljóðar svo:

„Það munu vera liðin 7 ár síðan ungfrú Nína Sæmundsson myndhöggvari sýndi í fyrsta sinn listaverk eftir sig; var það á Charlottenborgarsýningunni í Kaupmannahöfn og vakti þar mikla eftirtekt og hlaut almannalof. Það var „Sofandi drengur“. Var það sýnt á 1. listasýningu fjelags vors og keypt til listasafnsins. Síðan hefir ungfrúin gert hvert listaverkið öðru betra og er nú orðin alkunn og viðurkend, ekki aðeins meðal listamanna og listvina á Íslandi og í Danmörku, þar sem hún hefir stundað nám sitt og starfað, heldur víðar um lönd. Hún hefir sýnt hvert listaverkið eftir annað á sýningum í Kaupmannahöfn og hjer í Reykjavík, síðast myndina „Rökkur“, sem keypt var til listasafnsins.

Síðastliðinn vetur og síðan alt fram yfir síðustu áramót hefir ungfrú Nína Sæmundsson dvalið í Parísarborg og stundað list sína þar. Á síðustu allsherjarsýningu þar í borginni sýndi hún nýtt listaverk eftir sig, „Móðurást“. Er það í fyrsta sinni, að íslenskum listamanni hefir verið gefinn kostur á að taka þátt í þessum heimsfrægu listsýningum í miðstöð listanna á síðari tímun. Dómnefndin við þær sýningar kvað vera skipuð um 100 mönnum, og leggur hver dómandi bláan atkvæðismiða við þau listaverk, er hann telur æskilegt að sýna af þeim, sem fram eru send. Að loknum dóminum, er „Móðurást“ var til atkvæða, lágu öll atkvæðin hjá henni. Er þetta talið merki þess, að þessi listamaður sje framvegis hafinn yfir dóma við þessar sýningar og verk fröken Sigmundsson velkomin á þær, hvenær sem vera vill. „Móðurást“ hlaut nú hinn veglegasta stað á sýningunni, og var áhorfendum ætlað gott rúm fyrir framan hana, því búist var við mikilli aðsókn til þess að skoða hana; fregnin um hana hafði þegar borist út á meðal listamanna um borgina. Vjer höfum átt tal við mann, sem kom á sýninguna, og lýsti hann þessu svo:

„Móðurást“ var fyrir öðrum endanum á afarstórum sal. Hún hafði vakið geysimikla eftirtekt, enda er hún í sannleika mjög hrífandi og átakanleg og jafnframt undrafögur. Áhorfendurnir flyktust að henni og stóð fólk jafnan í þröng fyrir framan hana, fult aðdáunar og ánægju.“

Listvinafjelagið heldur svo áfram og fullyrðir, að því mundi þykja mjög sárt, ef örlögin höguðu því svo, að það gæti ekki eignast þetta merka listaverk og komið því hingað heim. Kveðst fjelagið hafa leitað sjer upplýsinga um, hvað listaverk þetta mundi kosta, og ungfrú Sæmundsson svarað því, að hún treysti sjer ekki til að selja það undir 9 þús. króna, þegar búið væri að steypa það í bronsi.

Jeg veit ekki, hvort nokkur Íslendingur hefir verið staddur á þessari Parísarsýningu, en hafi svo verið, þykir mjer sennilegt, að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar og fagnað því, að íslensk kona skyldi vinna slíkan glæsilegan sigur í ríki listanna, sem óhætt er að telja að Frakkland sje nú.

Og þegar litið er til hins einróma lofs, sem listdómararnir í Parísarborg gáfu þessari ungu listakonu, þá finst mjer, að við landar hennar getum verið stoltir af þeim heiðri, er hún hefir hlotið, og ættum þess vegna að stuðla að því, að Listvinafjelag Íslands beri gæfu til þess að ná í þetta merka listaverk. Jeg var fús að taka að mjer þessa málaleitun fjelagsins og bera hana hjer fram á Alþingi, og jeg vona, að hv. þdm., eða meiri hluti þeirra, verði mjer sammála um að veita þennan litla styrk, sem hjer er farið fram á.

Til þess að fylgja rjettri röð brtt. á þskj. 400. frá okkur einstökum þm., þá ætla jeg næst að minnast á VIII. brtt., sem þeir bera fram hv. 3. landsk. (HSn) og háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ). um verðlaun til mjólkurniðursuðuverksmiðjunnar Mjallar í Borgarfirði, þar sem farið er fram á að veita verksmiðjunni 2 krónur fyrir hvern kassa niðursoðinnar mjólkur, sem hún framleiðir, en þó á upphæðin ekki að fara yfir 8 þús. kr.

Þessi iðnaður, niðursuða mjólkur, er ungur hjá okkur og skamt á veg kominn, en í öðrum löndum hefir hann staðið lengi og hefir verið flutt hingað inn árlega svo mikið af niðursoðinni mjólk, að raunalegt er til þess að hugsa fyrir land eins og okkar, sem framleitt gæti þó nóga mjólk handa þjóðinni.

Það má vera, að við kaupstaðarbúar verðum meira varir við þennan mjólkurinnflutning heldur en aðrir, enda er það svo í mínu kjördæmi, að þangað er flutt inn afarmikið af erlendri mjólk.

Nú blandast mjer alls ekki hugur um, að best væri fyrir okkur að komast hjá því að flytja mikið inn í landið af niðursoðinni mjólk, og ánægjulegast að það væri ekki neitt. En það er nú síður en svo sje, því samkvæmt verslunarskýrslum frá 1922 fluttum við það ár inn niðursoðna mjólk fyrir rúma þó miljón króna. Hjer er því ekki um neitt smáræði að tala, ef við gætum sparað þennan innflutning.

Jeg hefi sjálfur haft tækifæri til þess að ganga úr skugga um það, að þessi niðursoðna mjólk Mjallar stendur fyllilega á sporði hinni erlendu og stenst alla samkepni. Á jeg þar við sendingu, sem kom til Vestmannaeyja og var seld þar. Og reynslan varð sú, að þeir, sem komust upp á að nota Mjallarmjólkina, sóttust fremur eftir henni en þeirri útlentlu.

En það er ekki nema von, þó að erfitt sje fyrir nýjan iðnað að ryðja sjer braut, og því rjett, að slíkir brautryðjendur sjeu styrktir af ríkinu á meðan þeir eru að ná tryggum markaði fyrir vöru sína, en vitanlega verður styrkur sá að vera innan vissra takmarka, enda verður ekki annað sagt en að í þessu tilfelli sje mjög hóflega af stað farið, að veita 2 kr. fyrir hvern mjólkurkassa, sem framleiddur er. Þegar byrjað er hjer í landi á nýjum iðnaði, þá er ekki nema eðlilegt, eins og jeg sagði áðan, að þingið styrki slík fyrirtæki. Það hefir svo mikið að segja fjárhagslega fyrir ríkið að geta búið sem best að sínu og minkað innflutning á þeim vörum, sem framleiða má í landinu. Þetta vona jeg, að allir skilji, svo að jeg þurfi ekki að orðlengja frekara um þetta, enda vona jeg, að brtt. þessi nái fylgi meiri hl. hv. þdm. —| Fundarhlje |.

Þegar komið var að fundarhljei, var jeg kominn að brtt. minni undir X., um styrk til varðskipsins „Þórs“. Það hefir orðið að samkomulagi milli mín og hv frsm. fjvn. (JóhJóh), að jeg tæki hana aftur til 3. umr.

Þá er brtt. frá mjer og hv. 5. landsk. þm. (JJ), undir XII, um 2/3 kostnaðar við að gera áætlun um vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Jeg sendi á sínum tíma hv. fjvn. erindi um þetta, og fylgdi því umsögn hr. Jóns Ísleifssonar verkfræðings, sem hefir rannsakað þetta mál. Eins og kunnugt er, þá hafa eyjarskeggjar til neysluvatns regnvatn, sem safnað er í brunna. Þegar þurkar ganga, verður oft brestur á vatni, svo að til vandhvæða horfir í Eyjunum. Þetta fyrirkomnlag hefir og marga galla frá heilbrigðilegu sjónarmiði, og skal jeg drepa á nokkra. Brunnarnir eru að vísu steinsteyptir, en það vill safnast í þá slý, en hinsvegar ekki gott að koma því við að hreinsa þá, því að til þess verður oft að spilla vatni. Og þar sem vatnsþurð er, er mönnum að vonum sárt um slíkt. Svo taka brunnveggirnir oft að springa, er þeir eldast, og geta óhreinindi síast inn í brunnana. Þá verður að taka vatnið af þökunum, og þau eru oft ekki svo hrein sem skyldi. Ryk af götunum kemst þannig ofan í brunnana. Einnig vill oft takast erfiðlega að ganga svo frá opunum, að trygt sje. Fyrirkomulagið er því mjög ótrygt.

1923 geysaði taugaveiki í Vestmannaeyjum. Gerði þá landlæknir sjer ferð þangað og gekk fram í því með miklum dugnaði að bæla sóttina niður. Taldi hann þá, að altaf myndi verða mikil hætta á útbreiðslu næmra sjúkdóma þar í Eyjum, meðan svo til hagaði með vatn þar eins og nú á sjer stað. Jeg skal ekkert um það segja, hvernig hv. þm. kynnu við að dvelja til lengdar þar, sem svo lítið er um vatn, að fólkið verður að spara það. En svo er það í Vestmannaeyjum. Má segja, að ekki sje aðeins stór nauðsyn á að fá úr þessu bætt fyrir sjálft bygðarlagið, heldur fyrir alt landið. Var og fyrir nokkrum árum veitt lítil fjárupphæð til að leita vatns í Vestmannaeyjum, og tókst að finna það. Er lítill vafi á, að vatn er þarna til, og bendir reynslan frá í fyrra á það, að það muni vera meira en haldið hefir verið. Tilraunabrunnurinn við Hlíðarbrekku varð þrautalending Vestmannaeyinga í fyrrasumar, þegar sífeldir þurkar gengu frá miðjum maí til ágústloka. Var seinast svo, að vatnslestir gengu til og frá brunninum allan sólarhringinn, því fjöldinn allur varð að sækja sjer vatn þangað. Að vatnið þraut ekki í brunninum í öllum þurkunum í fyrra, bendir óneitanlega á það, að nóg sje þar af vatni. En ómögulegt er að sækja vatn þangað nema í hestvögnum eða bílum. Hitt er einnig ljóst, að það vatn sje til þarna, þá er dýrt að hagnýta sjer það, þar sem brunnurinn liggur lægra en bygðin. Yrði að útbúa dælustöð niðri í sandinum og geymi uppi í fjallshlíðinni, svo nægilegur halli fáist niður í bæinn. Virðist þetta vera eina leiðin til að ráða bót á vatnsleysinu. En auðvitað er ekki leggjandi í vatnsleiðslu nema hún sje vel undirbúin áður og vatnsmagnið rannsakað. En verkfræðingur sá, sem áður hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir í brjefi látið uppi það álit sitt, að ekki verði hægt að láta nákvæma rannsókn fara fram fyrir minna en 12–15 þús. kr. Þetta fje, sem hjer er beðið um, er því aðeins 2/3 kostnaðar, en gæti orðið til þess, að fullnægjandi undirbúningur undir vatnsveituna fengist. Í þessu sambandi má minna á, að það var alls ekki svo lítið, sem það kostaði ríkið, þegar taugaveikin kom upp, þó hún kæmi auðvitað ennþá þyngra niður á bænum, auk þess sem aðkomumenn voru teptir vikunum saman vegna sóttbannsins. Ennfremur verður núverandi fyrirkomulag því meir ófullnægjandi, sem bærinn stækkar. Leita nú einnig til Vestmannaeyja mörg skip, bæði erlend og íslensk, og eru mörg þeirra auðvitað vatnsþurfar. Sjá allir, hve það hlýtur að vera þeim bagalegt að geta ekki fengið nægilegt vatn þarna, nema þá með miklum erfiðismunum, og þó aðeins slæmt vatn. Jeg vil nú ennfremur, um leið og jeg lýk máli mínu um þessa málaleitun, sem jeg hefi sent til háttv. fjvn. og sem jeg nú hefi komið fram með í sjerstakri brtt., vegna þess að hv. nefnd sinti henni ekki, — þá vil jeg minna á það, að á ferðinni er ný skattaálagning, sem ekki snertir Vestmannaeyjar svo lítið, en sem íbúar þeirra fá þó í engu notið, og á jeg þar við hækkunina á útflutningsgjaldinu, sem ætlast er til að renni til ræktunarsjóðsins. Þessi aukni skattur á Vestmannaeyingum mun að líkindum nema um 30–40 þús. kr., ef gengið er út frá sama útflutningi og varð í fyrra. Væri það ekki ósanngjarnt, þó þeim væri lagt eitthvað til á móti og látnir njóta, þó ekki nema í litlu sje, þessara auknu útgjalda og annara, sem úr þessu bygðarlagi koma. Vona jeg, að að þessu athuguðu verði hv. deildarmönnum ljúft að greiða atkvæði með þessari sanngjarnlegu till.

Þá vil jeg minnast að nokkru á aðra till. á sama þskj., XVI, um að Kristjáni Linnet bæjarfógeta verði veitt 15000 kr. viðlagasjóðslán til byggingar embættisbústaðar. Er ætlast til, að hann greiði. 6% vöxtu af upphæðinni. Jeg skal geta þess, að úr brtt. hefir fallið, að lánið skuli veitt gegn þeirri tryggingu, sem hæstv. stjórn tekur gilda. Kristján Linnet er nýfluttur til Eyjanna. Átti hann hús á Sauðárkróki, sem honum hefir ekki tekist að selja. Hefir hann því orðið að leigja sjer húsnæði og hefir orðið að hafa skrifstofur sínar í öðru húsi en því, sem hann býr í, og þó slíkt sje mjög óheppilegt, þá er samt ekki á öðru völ, þar sem húsnæðisvandræði eru mjög megn í Vestmannaeyjum. Hv. fjvn. hefir samt ekki getað sint þessu og ber það fyrir, að með þessu væri gefið hættulegt fordæmi og margir myndu á eftir fylgja. Hinsvegar hefi jeg ekki orðið var við, að hún hafi nokkuð út á lánið sjálft að setja hvað kjör og tryggingar snertir. En einmitt þetta fordæmi hefir þegar verið gefið á miklu óskynsamlegri hátt en hjer er farið fram á, og munu háttv. þm. vita, hvað jeg á við. En ekki ætti að vera nein hætta, þó lánaðar væru 15 þús. kr. út á 2. veðrjett í húsi, sem er 40 þús. króna virði. Nú er og þess að gæta, eins og áður hefir verið minst á, að nær ómögulegt er að fá fje að láni til að koma upp húsi. Líða margir af því ástandi, sem nú er í þessu efni, og má vera, að það leiði til þess, að eitthvað verði úr því bætt. Ef hægt er að benda þessum bæjarfógeta á lánsstofnun, sem væri fús að lána honum þessa upphæð út á 2. veðrjett með viðunanlegum kjörum, þá væri skiljanlegt, þó Alþingi kærði sig ekki um að sinna þessu. Mjer er kunnugt um, að nefndur bæjarfógeti hefir von um að fá lán út á 1. veðrjett, en það hrekkur hvergi til að koma húsinu upp, svo hann er jafnnær, ef Alþingi skýtur skolleyrum við þessari beiðni.

Þá verður því heldur ekki neitað, að það er ekki síst á þessum stað mjög leiðinlegt, bæði fyrir bæjarfógetann og landið alt, að hann búi við mjög ljeleg húsakynni. Til Vestmannaeyja koma áætlunarskipin sunnanlands fyrst og mjög mörg skip önnur, bæði innlend og útlend, sem eiga erindi við bæjarfógetann. Bæjarfógetinn verður sömuleiðis mjög oft að taka á móti foringjum af varðskipinu, sem þangað leitar oft með sökudólga, og veit jeg, að það hefir í vetur verið mjög örðugt fyrir hann sökum húsnæðisleysis. Hinsvegar munu allir, sem til þekkja, bera þessum embættismanni þann vitnisburð, að hann sje mjög áhugasamur og skyldurækinn og í alla staði hinn vandaðasti maður. Það væri því mjög gott til þess að vita, ef landið gæti hjálpað honum til að koma upp sæmilegum embættisbústað. Hann er fátækur fjölskyldumaður, og er honum alls ekki kleift að byggja nema þessu erindi verði sint. Hvað þetta fordæmi annars snertir, þá finst mjer ekki illa viðeigandi, að ríkið sýni einhvern lit á því að gera vel við sína embættismenn, en það er margra manna mál, að í seinni tíð hafi sýslumenn og bæjarfógetar orðið illa úti. Þeir hafa búið við tiltölulega slæm launakjör, og ennþá er frv. á ferðinni hjer í hv. deild, sem miðar að því að rýra tekjur þeirra sýslumanna og bæjarfógeta, sem búa þar, sem útlend skip koma einkum að landi.

Jeg vil, áður en jeg skil við þessa brtt., lesa upp nokkur orð úr erindi til Alþingis, sem mjer barst í hendur í dag frá umræddum bæjarfógeta. Hann segir þar svo:

„Jeg lít svo á, að hjer sje í raun og veru ekki um lán í mína þágu að ræða. Upphæðin er sem svarar því, sem það kostar að hafa húsið stærra vegna tveggja skrifstofuherbergja og nauðsynlegrar geymslu fyrir embættið. Það er mjög áríðandi fyrir landið, að embættið hjer standi ekki uppi húsnæðislaust, og enda að skrifstofur embættisins sjeu sæmilegar og viðunandi, ekki síst vegna þess, hve margar afgreiðslur fara þar fram vegna útlendinga. En við því má auðveldlega búast vegna hinna miklu húsnæðisvandræða á þessum stað — líklega sá staður, sem vegna hraðfara vaxtar á íbúatölu er mest húsnæðisekla á —, að komið geti fyrir, að ómögulegt sje að fá húsnæði. Fari svo, að jeg geti ekki útvegað það, eða ekki fyrir það verð, sem mjer er fært að greiða, þá hlýt jeg að snúa mjer til stjórnarinnar á þeim tíma til að ráða bót á því. Geti hún það ekki heldur, mun ríkissjóður á skömmum tíma tapa meiru í tekjum en þessari litlu upphæð, sem jeg fer fram á að fá að láni. Þetta verður Alþingi vel að athuga, landsins vegna, er það tekur afstöðu til þessa máls, og eins hitt, að fái jeg lánið, get jeg bygt, en að öðrum kosti sje jeg mjer það alls ekki fært.“

Ég skal svo ekki þreyta hv. deild á lengri ræðu um þetta eða annað að svo komnu. Jeg vona, að hv. þm. muni geta fallist á, að lánbeiðni þessi sje að öllu leyti hættulaus fyrir ríkið og á fullum rökum bygð.