21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

50. mál, tollalög

Sveinn Ólafsson:

Það er harla margt, sem á milli ber í þessu máli, og er það ekki sjerlega undarlegt. Hjer er í fyrsta lagi ákveðið stefnumál á ferðinni, sem oft hefir flokkum skift fyr og síðar; það er spurningin gamla um það, hvort hafa skuli ríkiseinkasölu í einhverri mynd eða frjálsa verslun svo kallaða, þar sem engin takmörk eru sett kaupsýslu og prangi. Í þetta sinn er samt bersýnilega annað meira en sú stefna ein, sem ræður flutningi þessa frv. Þetta er ákveðið hagsmunamál einstakra manna, þeirra, sem mest standa á móti ríkissölufyrirkomulaginu. Það er ákveðið hagsmunamál sjálfra mótstöðumanna einkasölunnar eða skjólstæðinga þeirra og fylgifiska. Fyrir þessa skuld verður málið erfiðara mótstöðumönnum einkasölunnar, er þetta er þeim hagsmunamál. Það er varla hægt fyrir þá að fela þann eigingjarna tilgang, sem að baki frv. liggur, hægt að dylja það, að eiginhagsmunir ráða jafnvel meiru um þetta mál en stefnuhugtakið frjáls verslun. Það liggur því næst að líta á þetta frv. sem hreina og óblandaða kaupmangarapólitík.

Engum slíkum eiginhagsmunahvötum getur verið til að dreifa hjá oss meðmælendum ríkiseinkasölunnar. Það kemst ekkert slíkt að hjá þeim, sem vilja leyfa ríkinu að njóta hagsmuna af sölu einstakra vörutegunda og hafa hemil á skaðlegu gróðabralli í verslun. Hagnaður þeirra er einungis óbeinn, þ. e. hagnaður alls almennings, er ríkiseinkasalan veitir betri kjör en ella mundu fáanleg. Það er þessi aðstöðumunur flm. og vor hinna, sem jeg byggi þá von mína á, að frv. þetta sigli aldrei háan byr út úr þessari deild. Það var þetta, held jeg, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) átti við, þegar hann talaði um hinn vígða þátt þessa máls. Jeg hygg, að skörðótta skálmin hjá háttv. þm. Ak. (BL) vinni aldrei á þeim þætti.

Jeg get ekki átt við það að tína alt það upp, sem háttv. flm. (BL) bar fram eins og ástæður fyrir þessu frv. um að breyta tóbaksversluninni í frjálsa samkeppnisverslun. En það var ein ástæða hans, sem mjer fanst stórum verri en allar hinar, þótt ljelegar væru, og kom mjer mest á óvart. Háttv. aðalflm. (BL) fullyrti sem sje, að með frjálsri verslun á tóbaki mundi innkaupsverð tóbaksins lækka. (BL: Þetta er þveröfugt við það, sem jeg sagði). Mjer þótti þessi röksemd hv. þm. svo einkennileg, að jeg verð að minnast á hana sjerstaklega. Hingað til hefir verið alment álitið, að er um innkaup var að ræða, væri hægra að fá gott verð í stórkaupum en þegar smáslattar eru keyptir. Það þarf mikla trú til þess að treysta því, að þeir, sem kaupa inn frá útlendum verksmiðjum, geti tryggt sjer jafngóð kjör með því að kaupa 50—100 kg. á ári eins og landsverslun getur, sem kaupa mun 70—100 þúsund kg. árlega.

Jeg skal víkja að fáeinum öðrum ágreiningsatriðum, sem hjer hafa borið á góma, en þó á nokkuð annan veg en hv. aðalflm. gerði. Það fyrsta er það, sem hv. þm. (BL) heldur fram, að einkasalan hafi verið tekin upp 1921 eingöngu af fjárhagslegum ástæðum og vegna fjárþarfar ríkissjóðs. Þetta er ekki rjett. Það var til þá, eins og nú, önnur leið til að afla tekna af tóbaki, þ. e. sú, að hækka tollinn. Þeirri leið var þá líka haldið fram af ýmsum, en fjhn. og meiri hl. þings hafnaði henni.

Orsökin sanna til þess var sú, að einkasöluaðferðin var talin eðlilegri og betri en háir tollar, og auk þess öruggari gegn tollsvikum.

Fengin reynsla hefir líka sýnt, að tilgátan var eigi fjarri sanni og einnig hitt, að verðið hefir verið fyrir neytendur vörunnar sæmilegt, þrátt fyrir óáran og lággengi íslenskrar myntar, sem eðlilega hefir komið hart niður á tóbaksversluninni.

Það er alls ekki rjett að segja, að einkasölustefnan hafi komið óljóslega fram í nál. fjhn. 1921 eða yfirleitt í meðferð málsins á því þingi. Þvert á móti var einmitt allmikið um þetta mál deilt og komu þar fram glöggar línur. Sjest það vel á umræðunum frá því þingi, að skoðanir manna skiftust einmitt um þetta atriði í málinu. Árið 1921 koma fram ekki færri en 4 frv. um einkasölu, öll frá hendi stjórnarinnar. og sýnir meðferð þeirra ljóslega, að ekki voru fjárhagslegar ástæður einar sem rjeðu. Það voru sem sje:

1. Frv. um einkasölu á áfengi.

2. Frv. um einkasölu lyfja, sem þó gat ekki orðið að lögum þá, vegna þess einkaleyfis, sem lyfsalar höfðu áður.

3. Frv. um einkasölu á tóbaki og loks

4. frv. um einkasölu á korni og varð það frv. ekki útrætt á því þingi.

Nei, það vakti áreiðanlega bæði fyrir stjórn og þingi þá, að hjer væri um annað meira og verulegra að ræða en það eitt að afla ríkissjóði nokkurra tekna. Það kom berlega í ljós ákveðin viðleitni til þess að koma á ríkiseinkasölu í sem flestum greinum, til þess að tryggja hagsmuni almennings hefur en hin svokallaða frjálsa verslunarsamkepni hefir gert. Hjer er nú einnig um það deilt, hvort tekjur ríkissjóðs muni aukast eða minka við afnám einkasölunnar og hækkun tollsins ca. 20% Það er þegar búið að leiða að því augljós rök, að tekjurnar hljóta að minka við það. Það er óþarft að fara að endurtaka þau rök. Það var sýnt fram á hallinn, sem ríkissjóður biði næmi frá 200–300 þús. kr., nema þá að tóbakstollurinn verði hækkaður mun meira en frv. fer fram á. Þá hafa líka verið deilt um það, hvort að

tóbaksverðið muni breytast —

“Vantar texta“ ............. Árið 1921 var því

......... áfram af mótstöðu mönnum einkasölu-

“Vantar texta“ dýrara verða“ Vantar texta“ sýnt, að

tilgátan var ekki á rökum bygð, og mundi hafa sýnt það miklu ljósar, ef ekki hefðu sífeldar verðtruflanir af gengissveiflum og lækkandi gengi lengst af raskað niðurstöðunum. En hitt virðist ekki geta verið vafamál, að þegar ofan á tollinn hækkaða bætist venjuleg álagning kaupmanna sem einmitt hlýtur að verða nokkru hærri en ella, vegna tollhækkunarinnar,. þá hlýtur verðið að hækka að mun, en ekki lækka. Það eru tómar tálvonir hv. flm., að tóbaksverðið lækki. Að aðflutningurinn muni aukast við að verslunin verði frjáls, er staðlaus tilgáta, jafnhæpin og sú kenning, að innflutningurinn hafi minkað vegna einkasölunnar. Á krepputímunum var sparnaðarviðleitnin eðlilega ástæðan til takmarkaðs aðflutnings. Sumir líta svo á, að æskilegt sje að auka aðflutninginn vegna tekjuaukans. Þar er þó ávinningurinn meira en vafasamur.

Víst er, að tekjurnar af einkasölunni hafa farið langt fram úr upphaflegri áætlun á síðasta ári, jafnvel tvöfaldast. En ef einkasalan hefir dregið úr innflutningi jafnframt því að auka tekjur ríkissjóðs, þá verð jeg að telja árangurinn betri en menn alment gátu vonast eftir. Þess væri í rauninni óskandi, að tóbaksnautn minkaði eða hyrfi algerlega á brott úr landinu, og það væri þjóðinni ómetanlegt happ, ef jafnskemmileg munaðarvara og tóbakið hyrfi algerlega. Gæti einkasalan orkað því, þá er margfaldlega rjettlætt stofnun hennar.

Jeg get látið hjer staðar numið og geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki frekar að lýsa hug mínum til þessa frv. Ástæður flutningsmanna hafa af öðrum verið vegnar. Þær eru í senn ónákvæmar og villandi, sumar jafnvel rangar. Vænti jeg þess, að frv. þetta verði eigi langætt og mundi jeg óska þess, að það kæmist ekki út úr þessari deild.