21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ.) bar fram mjer til andmæla ummæli mín á síðasta þingi um það, að vegna teknanna mætti ekki afnema einkasöluna. Þessi ummæli hafði jeg þá um frv., sem fram var borið um afnám einkasölunnar án þess að bæta ríkissjóði tekjumissinn með nokkrum tollauka.

Að tekjur einkasölunnar voru teknar í fjárlög, er samkv. þeirri reglu, að í fjárlagafrv. eru teknar allar tekjur samkv. gildandi lögum. Þetta átti að gera hvað sem afnámi einkasölunnar líður. Frv., sem hjer er fram borið, er um að setja tollhækkun í stað einkasöluálagningar, en ekki um hækkun eða lækkun á tekjum ríkissjóðs.

Hv. þm. vildi snúa sig frá sinni hreinskilnu viðurkenningu um íhaldsflokkana með því að halda fram, að þeir yfir höfuð væru vanir að taka að sjer gallana, sem hinir afhenda, til fósturs og umönnunar. Vil jeg því segja hv. þm. það, að meðan hann sjálfur er ekki í neinum íhaldsflokki, á hann ekki atkvæði um það, hvort þeir taki gallana eða hið góða; því ráða íhaldsmenn sjálfir. Hefir það farið svo hjer á landi, að þessi ungi Íhaldsflokkur hefir hingað til ekki tekið neitt annað en það góða og gagnlega úr þeim árangri, sem framsóknarflokkar landanna hafa fengið framgengt í þjóðskipulagsmálum. (ÁÁ: Þá væruð þið gengnir í Framsóknarflokkinn!). Nei. Það er eðli þessara framsóknarmanna, að þegar þeir eru búnir að koma einhverju gagnlegu á, þá er það næsta fyrir þeim að berjast á móti því.