21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

50. mál, tollalög

Flm. (Björn Líndal):

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og árjetta það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) drap lítið eitt á. Háttv. þm. sagði að við vildum halda í galla þjóðskipulagsins vegna hagsmuna einstakra manna. Þetta eru mjög óviðeigandi og illgjarnar getsakir, hvort sem þeim er beint til einstaklinga eða pólitískra flokka og alveg ósæmilegt í þingsal.

Hver er svo þessi nýja stefna. sem Framsóknarmenn berjast fyrir? Þeir eru að taka upp verslunarstefnu frá 17. og 18. öld, sem altaf hefir illa reynst og altaf mun illa reynast. Þetta er öll framsóknin. Okkar stefna er að halda í það. sem reynslan hefir sýnt okkur, að er gagnlegt og gott. Og jeg vil biðja hv. þm. að benda mjer á tímabil í sögu landsins, sem þjóðinni hefir farið meira fram á en á þessum stutta tíma sem hún hefir fengið að njóta frjálrar versluar.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) mintist hjer á það sem jeg sagði í fyrra, að jeg vildi bíða eitt ár ennþá eftir því að sjá betur, hvernig landsverslunin reyndist; nú hafi hún grætt og því ætti jeg ekki að flytja þetta frv. En hafi landsverslunin grætt, þá get jeg sagt hv. þm. V.-Ísf., að jeg hefi líka grætt. Jeg sje altaf betur og betur til hvers á að brúka landsverslunina, þótt það sjáist ekki í reikningum hennar. Þessi verslunarhagnaður tóbakseinkasölunnar síðastliðið ár hefir alls ekki sannfært mig um það, að rjett sje að halda þessari verslun áfram. Jeg er jafnsannfærður um það enn eins og jeg hefi verið, að þjóðinni sje heilladrjúgast að hafa alla verslun frjálsa. Verslun þessarar þjóðar er ekki frjáls, meðan rekin er einokun með ýmsar vörutegundir. Það er fjarstæða að halda slíku fram. Annars væri fróðlegt að vita, hve margar vörutegundir mætti taka til einokunar áður en verslunin hætti að geta kallast frjáls að dómi þessara manna! Þá talaði þessi hv þm. (ÁÁ) um það. að tóbak væri best til þess fallið af öllum vörum að afla ríkissjóði tekna. Jú, ef það væri siðferðilega rjett að okra á ástríðum manna. En jeg álít að það sje með öllu siðferðilega órjett. Því þá ekki að afnema aðflutningsbannið og okra á drykkjuástríðu manna? Það væri jafnrjett. Það á að vinna á móti skaðlegum ástríðum. Og vegna þess að við viljum minka tóbaksástríðuna, þá viljum við ekki nota hana takmarkalaus sem tekjustofn handa ríkinu. Þess vegna á að leggja tóbakseinokun ríkisins niður og hækka þá heldur tollinn, til þess að friða þá menn sem horfa í tekjurnar.

Þá sagði þessi hv. þm. ( Á Á ) að þeir sem hættu því frv. gerðu það vegna hagsmuna kaupmanna, þvert ofan í hagsmuni þjóðarinnar. Þetta er getsök, sem enginn heiðvirður maður ætti að láta frá sjer fara á strákafundi á einhverjum útkjálka, hvað þá heldur í sjálfum þingsölunum að ætla þingmönnum eiginhagsmunahvatir, ef þeir fylgja öðru en honum þóknast. Þá er gengið miklu lengra en nokkru góðu hófi gegnir.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði. að hjer væri að ræða um stefnur tveggja flokka. Annar vildi takmarkalausa frjálsa samkepni, en hinn vildi sníða annmarkana af henni. Í þeim tilgangi hafa víst kaupfjelögin verið stofnuð. En hefir þeim betur? Er hin takmarkalausa samábyrgð betri en hin óbundna frjálsa verslun? Er betra að láta aðra ráða yfir sjer með húð og hári en neyta frjáls krafta sinna og möguleika? Jeg hika ekki við að svara neitandi.

Þá kem jeg að ræðu hv. 1. þm S-M (SvÓ). Jeg met þann hv. þm. mjög mikils, því að hann er mjer að ýmsu góðu kunnur. En það skal jeg játa, að jeg býst ekki við miklu af skynsamlegum ráðum frá honum í þessu máli. Það bygði jeg á því að þegar frv. um einkasöluna var til umræðu hjer í háttv. Nd., þá gerði hann ráð fyrir því, að allur kostnaðurinn við verslun þessa mundi ekki nema yfir 30 þús. kr. Þessi hv. þm. ætti að spyrja forstjóra landsverslunar að því, hversu þetta hefði ræst. Annars vita allir, að sú upphæð, sem hann gerði ráð fyrir að nægja mundi til starfslauna, 10 þús. kr., hrekkur ekki handa öðrum yfirmanni verslunarinnar. Mig furðar ekki svo mjög á því, þótt þessi hv. þm. reikni ennþá skakt í þessu máli. En hinu furðar mig meira á, að hann skyldi verða fyrstur manna hjer í þessari hv. deild til þess að drótta að öðrum þingmönnum óheiðarlegum hvötum. Hann sagði, að varla yrði hjá því komist að álíta, að frv. þetta væri fram komið vegna einkahagsmuna, af því að kaupmenn græddu á því. En þá vil jeg spyrja: Liggur ekki eins nærri að ætla, að þeir menn sumir hverjir, sem berjast fyrir einkasölunni, geri það í eiginhagsmunaskyni? Hafa þeir ekki hjer hagsmuna að gæta? Lifa þeir ekki í skjóli einkasölunnar í vellystingum praktuglega? Hafa þeir ekki hærri laun heldur en sjálfir ráðherrarnir? Peninga má afla með ýmsu móti. Þá krókaleið má fara að afla sjer valda og nota síðan völdin til fjárafla. Landsversluninni fylgja mikil völd, og þau má nota á ýmsan hátt. Annars liggur mjer við að undrast það, að tóbakseinkasölunni skuli ekki hafa verið hagað á sama hátt og steinolíueinkasölunni, að selja hana í hendur einhverju útlendu verslunarfjelagi. Jeg vildi t. d. spyrja hv. 1. þm. S.- M. (SvÓ), hvort honum virðist ekki, að komið gæti til mála að fela t. d. færeyskum kaupmanni að birgja landið upp með tóbak.

Þetta er í síðasta sinn við þessa umræðu, sem jeg tek til máls. Jeg vil því ljúka máli mínu með þeirri athugasemd, að sje það rjett að gera kaupmönnum og smásölum þær getsakir, að þeir berjist fyrir þessu máli í eiginhagsmunaskyni, þá má með fullkomlega sama rjetti, og miklu fremur þó, segja, að forvígismenn einkasölunnar berjist fyrir henni af enn verri hvötum. Alla einkasölu ríkisins er hægt að gera að pólitísku vígi, ekki aðeins til þess að afla fjár á ýmsan hátt, heldur og einnig til þess að ræna landsmenn persónulegu frelsi og gera þá ánauðuga þræla nokkurra fárra manna.