21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

50. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði ætlað mjer að sitja hjá í þessu máli. En vegna stefnu þeirrar, er umræðurnar hafa nú nýlega tekið, vil jeg segja nokkur orð. Er þá skjótt af að segja, að jeg er alveg fylgjandi frv. þessu, a. m. k. þeirri stefnu þess að afnema landsverslun. Nú stendur nokkuð sjerstaklega á með skoðun mína í þessu máli. Jeg hefi áður á mörgum þingum haldið þeirri skoðun fram, að einn vegurinn til þess að auka tekjur ríkissjóðs væri sá, að ríkið hefði einkasölu á tóbaki, en enginn vildi líta við þeirri tillögu þá. Loks er frv. til laga um einkasölu þessa kom hjer fram, þá stóð þannig á, að hagur landsmanna þótti svo bágur, að takmarka átti innflutning í landið til þess að spara útlendan gjaldeyri. Gat jeg þá ekki fylgt þessu máli, því að jeg taldi ósæmilegt fyrir ríkissjóð að pranga með óþarfavöru í sömu andrá og takmarka yrði innflutning á nauðsynjum. Í öðru lagi gat jeg ekki og get ekki verið því fylgjandi, nema það hefði áunnist, að hafinn hefði verið tilbúningur á tóbaki í landinu sjálfu, þannig að hráefni ein hefðu verið innflutt og þjóðinni sparað að greiða öðrum þjóðum verkalaun. Að því hefði orðið talsverður hagur fyrir landið. En úr því að það var ekki tekið með hjer, þá sje jeg enga ástæðu til þess að halda í einkasöluna, því að allar tekjur hennar má fá með tollum án þess að binda sjerstakt fje og starfskrafta við þessa verslun. Því kaupmenn hafa nóg lið við verslanir sínar og þurfa enga nýja menn vegna tóbakssölunnar, þótt hún yrði þeim fengin. Það er því bein þjóðarneysla að taka tekjur þessar með einkasölu, í stað þess að taka þær með tolli.

Jeg heyrði einhvern hv. þm. láta sjer þau orð um munn fara, að það væri verslunarstjettin, sem bæri þetta mál fram hjer í þinginu. Þetta kom mjer ókunnuglega fyrir. Jeg veit ekki til þess, að sú persóna sje fulltrúi eða þingmaður fyrir neitt kjördæmi. Jeg skil því ekki þessi ummæli, að verslunarstjett þessa lands sje að seilast hjer eftir einum tekjustofni ríkissjóðs sjálfri sjer til handa. Nema þetta beri að skilja óbeint, eins og hv. þm. Ak. (BL) drap á, þannig, að verslunarstjettin hefði hjer leiguliða, sem væru nú að fylgja fram vilja hennar í þessu máli. Jeg býst við því, að þessi orð sjeu töluð í hita dagsins, en því sje ekki svo farið, að nokkur trúi því, að hjer sjeu menn, sem skoði sig sem þjóna einnar stjettar. Það er vitanlegt, að hjer eru allir þjónar alls landsins. Þetta segi jeg úr því jeg stóð upp. En þótt jeg sje upp staðinn, mun jeg ekki leggja til deilu þeirrar um flokka, sem hjer hefir staðið um hríð. Mjer virðist flokkar þessir hafa tiltölulega lítið sjerkennilegt við sig, og vil jeg ekki taka það að mjer að gera greinarmun á þeim. Hjer er verið að þjarka um framsókn og íhald, en mjer virðist sem hjer megi ekki á milli sjá, nema ef menn vildu greina þá eftir mönnum og kalla annan flokkinn Jónaíhaldið en hinn Jónasaríhaldið. Það tekur því ekki að deila um það, hvort íhaldið sje meira. Mjer virðist hvorttveggja vera fullnóg íhald.