29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1926

Eggert Pálsson:

Jeg á hjer aðeins tvær litlar brtt., sem báðar eru á þskj. 400, og skal jeg leyfa mjer að fara fáum orðum um þær.

Það, sem fyrst og fremst einkennir þessar till. mínar, er það, að þær vita ekki að neinum sjerstökum einstaklingi, heldur koma þær öllum almenningi til góða, og þó vitanlega mest fólki í mínu kjördæmi og nærliggjandi hjeruðum, svo sem Árnessýslu.

Hvað snertir styrkinn til bifreiðaferða austur í sýslur, þá á hann auðvitað sína sögu og skal jeg á hana minnast örfáum orðum. Í aukafjárlögum fyrir 1923 voru veittar 3000 kr. til bifreiðaferða austur, og þá víst aðallega til mannflutninga. Hafði þessi upphæð, þótt hún væri ekki stærri, hina mestu verkun í för með sjer, sem sjá má af því, að með mannflutningabifreiðum lækkaði farið úr 40 kr. niður í 20 kr. og í „kassabílum“, sem ekki þektust áður, kostaði nú farið að Garðsauka 10 kr. En auðvitað er, að margar af þessum ferðum hafa verið farnar til skemtunar, en ekki af nauðsyn. Því verður varla sagt, að eins mikil þörf hafi verið og sje á styrk til slíkra ferða sem til vöruflutninga. Þessi styrkur var aftur á móti ekki tekinn upp í fjárlög fyrir 1924, jafnvel þó hann hefði verið settur í fjáraukalög fyrir 1923, og er mjer óskiljanlegt, hvað þessu hefir valdið. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir 1925 var ekki heldur gert ráð fyrir neinum slíkum styrk, jafnvel þótt þess hefði mátt vænta af fyrverandi fjrh., sem orðinn var þá þm. Rang. En fjvn. hv. Nd. tók málið að sjer og setti till. um 1000 kr. styrk inn í frv., og var svo þessi styrkur hækkaður upp í 2000 kr. í þessari hv. deild.

Þessi styrkur hefir gert mjög mikið gagn. Vöruflutningar með bifreiðum hafa aukist afskaplega á síðasta ári og árum, en áður voru þeir nær óþektir. Er það og mjög eðlilegt í augum hvers manns, sem þekkir til ástandsins í austursveitunum, að menn kjósi þessi flutningatæki fremur en önnur, sem kostur er á, þó neyðarkostur sje að vissu leyti. Þetta er eðlilegt. Það má heita ógerningur að fara í 8 daga kaupstaðarferð vor og haust til aðdrátta, þar sem kannske er ekki neinn maður vinnandi á heimilinu nema húsbóndi og húsmóðir. Því verður að taka þann kostinn að flytja á bifreiðum. En bifreiðaflutningurinn verður samt býsna dýr. Austur í Rangárvallasýslu fast flutningsbíll ekki fyrir minna en 150 kr. Og þó bílar þessir sjeu flestir svo gerðir, að ætlast er til, að þeir beri 1 tonn, þá er hjer vegna veganna ekki hægt að flytja með þeim meira en ca. 1500 pund. Kostar þá flutningurinn 10 aura á hvert pund, ef ekki er flutningur nema aðra leið. Sjá menn, að þetta eru fullkomin neyðarkjör. Sje á hinn bóginn hægt að fá nægar vörur að flytja í bílnum til baka, þá verður flutningsgjaldið auðvitað talsvert minna. En slíku er sjaldan að fagna, síst að öllu leyti.

Þegar hæstv. stjórn lagði frv. til fjárlaga fyrir hv. Nd., þá hafði hún tekið upp 2000 kr. styrk í umræddu skyni. Er það virðingar- og þakkarvert, og mjer finst ekki nema eðlilegt, þó hún hafi ekki sjeð sjer fært að fara hærra. En það sjá allir, að þegar á að fara að skifta þessum 2000 kr. milli jafnmargra eins og hjer eiga hlut að máli, þá getur ekki komið mikið í hlut. Flutningarnir ganga aðallega í þrjár stefnur, eins og aths. sýnir, alla leið austur að Garðsauka og upp á Skeið, svo og upp í Grímsnes. Og þegar á að styrkja allar þessar flutningaleiðir af einum 2000 kr., kemur lítið á hverja. Þess vegna hefi jeg farið fram á, að þessi upphæð verði hækkuð um helming, og virðist þar ekki vera dýft mjög djúpt árinni; því öllum er það ljóst, að það mundi ekki talinn stórkostlegur styrkur til flutninga á sjó, ef um jafnmarga menn væri að ræða, sem notin eiga að hafa.

Það er einu sinni svo, að megnið af flutningi til Árnessýslu og vesturhluta Rangárvallasýslu fer einmitt hjeðan að sunnan. Jeg held mjer sje óhætt að segja, að í vetur hafi vantað tilfinnanlega margar kornvörur fyrir austan heiði, svo menn urðu að brjótast í að fara þennan fjallveg meira og minna ófæran til þess að draga að sjer einhver föng. Eins og allir vita, er svo ástatt þarna fyrir austan, að það er ekki altaf hægt að lenda við sandana, en af því leiðir, að það er ekki hægt að draga að sjer föng sjóveg, nema helst að vorinu. Hvort heldur er um kaupmenn eða kaupfjelög að ræða, þá eru verslanir tregar til að sitja með mikið af matbjörg um mjög langan tíma, þegar óvíst er um sölu. Þess vegna er það orðið þannig, að verslunin í þessum hjeruðum hefir snúist aðallega til Reykjavíkur.

Jeg hygg því, að menn hljóti að viðurkenna, þegar menn athuga þessar kringumstæður, að þessi styrkur er í raun og veru síður en svo að vera hár, þótt hann yrði það, sem jeg hefi stungið upp á. Eins og jeg sýndi fram á í fyrra, þá er það vitanlegt, að þótt styrkurinn sje fyrst og fremst miðaður við þörf þessara hjeraða, þá verður hann óbeinlínis Reykjavík líka til góðs, því að þegar flutningar eru orðnir nokkuð tíðir á milli Suðurlandsundirlendisins og Faxaflóa, þá getur bærinn vitanlega haft mikið gagn þar af.

Fyrir þinginu hefir legið erindi, sein jeg bygg, að hv. þm. hafi lesið, frá sýslumanni Rangárvallasýslu, þar sem hann fer fram á sem oddviti sýslunefndar, að styrkurinn hækki upp í 5 þús. kr. Þar bendir hann einmitt á það, að ef flutningaferðir gætu verið nægilega tíðar og ábyggilegar, gæti það leitt til þess, að austan úr sýslum mætti flytja mjög mikið af t. d. kartöflum til Reykjavíkur. Þó þessi vara komi að góðu gagni heima fyrir, þá kemur hún þó að enn meira gagni, ef hægt er að skiftast á vörum við Reykjavík. Jeg hefi ekki þorað að fara eins hátt og farið er fram á í þessari beiðni, heldur fór jeg mitt á milli og nefndi 4 þús. kr.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki frekar að orðlengja um þetta; hv. þm. hlýtur að vera málið hjóst af því, sem jeg hefi nú skýrt frá og á síðasta þingi. Styrkurinn hefir þegar verið viðurkendur sem nauðsynlegur, bæði af hv. þm. sjálfum, með því að samþykkja 2000 kr. í fyrra, og sömuleiðis af hæstv. stjórn, með því að taka þessa upphæð í frv., svo hjer getur ekki verið um það að deila; aðeins er um það að ræða, hve hár hann skal vera.

Þá hefi jeg borið fram brtt. um að veita 10 þús. kr. til húsbyggingar á Stóruvöllum vegna sandfoks. Þessi till. var borin fram í hv. Nd. og flutt af hv. samþm. mínum (KIJ), og hygg jeg, að hún hafi hlotið þar allmörg atkv.; minnir, að hún fjelli með svo að segja jöfnum atkvæðum. Svo mjer þætti líklegt, verði hún samþykt hjer, að hún fengi að standa í hv. Nd. En ástæðan fyrir, að þetta er borið fram, er sú, að búnaðarmálastjóri hefir sýnt glögglega fram á í ritgerð í Búnaðarritinu, 39. árg., að húsbygging á sandgræðslustöðvunum sjálfum sje alveg nauðsynleg. Jeg segi fyrir mitt leyti, að mjer finst það ákaflega eðlilegt. Eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi á öllum kringumstæðum þarna, þá verð jeg að segja það, að jeg get alveg undirskrifað það, sem búnaðarmálastjóri segir í ritgerð sinni. Jeg er í engum efa um, að þarna í Rangárvallasýslu, bæði á Landinu og á Rangárvöllum, er eitthvert mesta sandpláss, sem til er hjer á landi, og því stór þörf á að hefta þar sandfok. Sagan sýnir okkur, að sandurinn er þar búinn að leggja í eyði óskaplega mörg fögur og blómleg býli. Mig minnir, að það sje tekið fram í ritgerð búnaðarmálastjóra, að 70 býli á Rangárvöllum hafi eyðilagst síðan sögur hófust. Landið nefnir hann víst ekki, en þar mun ekki vera of mikið að gera ráð fyrir, að hálf sveit hafi eyðilagst. Ef ekki verður hafist handa að hefta sandfokið, þá er áreiðanlegt, að ótal bæir eiga eftir að fara sömu leið. Hvert einasta ár legst eitthvað af býlum í auðn, í fyrra t. d. tvö á Rangárvöllum, og býst jeg við, að í vor verði það ein þrjú, sem fara í auðn. Og það er sýnilegt, að það er ekki eitt og eitt býli, sem fara, heldur heil bygðarlög. Hvað snertir sandágang á Landið, þá hefir upphluti þess, niðurhluti Landmannahrepps, verið meira og minna undirorpinn sandágangi. Einnig er Holtahreppur í hættu fyrir sandágangi. Jeg hefi heima hjá mjer á Breiðabólsstað, á svonefndum Aurum, lítið sýnishorn af slíku, og er þar þó um tiltölulega lítinn sand að ræða. Þegar jeg kom, var þar dálítill mýrarfláki austast á Aurunum, sem hefir með árunum þornað og orðið að valllendi, en er nú að blása upp af sandfoki. Gangurinn er þessi, að roksandurinn gerir mýrarnar að valllendi, og þegar svo er komið, fara þær að blása upp. Þetta er eins og alda, sem fer jafnt og stöðugt áfram. Það getur engum efa blandast, að það er um stórkostlegt nauðsynjamál að ræða að hefta sandinn. Hann er vitanlega mestur nú einmitt á þessu svæði í Rangárvallasýslu, bæði í Landmannahreppi og á Rangárvöllum. Hinsvegar veit maður það, að það hefir verið, og getur verið, stórkostlegt gæðapláss, ef þessi meinvættur gerði ekki slík spellvirki sem hún vinnur hjeruðum þessum. Væri nú ekki von um árangur af því að reyna að bjarga hjeruðum þessum, mætti auðvitað segja, að fjenu, sem til sandgræðslu væri varið, væri fleygt í sjóinn. En eftir því, sem reyndastir menn og fróðastir í þessum efnum segja, er fullkomin von um að geta unnið bug á þessum óvin, Eftir því sem búnaðarmálastjóri segir í ritgerð sinni, þá gerir hann ráð fyrir því, að kostnaður við að græða upp þessa sandfláka í Landmannahreppi. Rangárvallahreppi og að nokkru leyti vestast í Holtahreppi muni nema um 50 þús. kr. Það verður maður að segja, að er vel til vinnandi að leggja slíka upphæð fram.

Búnaðarmálastjóri hefir nú farið fram á, að veittar verði 25 þús. kr. til þess að koma upp húsi á Stóruvöllum, til þess að sandgræðslumaðurinn geti verið þar altaf; en hvorugur okkar þm. Rang. hefir þorað að fara svo hátt, ekki nema í 10 þús. kr., enda hyggjum við, að komast megi af með þá upphæð. Byggjum við það á því, að það megi fyrir þá upphæð koma upp sæmilegri vistarveru ásamt sæmilegri geymslu, og þó ekki síst, ef gera mætti ráð fyrir því, að margir á þessum stöðvum mundu fúsir til þess að ljetta eitthvað undir í þessu efni. Þessa stöð skilst mjer, að búnaðarmálastjóri álíti mjög nauðsynlega. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp niðurlagið á þessari ritgerð hans:

„Á Stóruvöllum og þar í nágrenni er ærið verkefni fyrir sandgræðslu. Hjer liggja í einu lagi stórir sandflákar, sem þörf er á að græða upp. Í grendinni eru líka Rangárvellir, þar sem sandfokið hefir gert mestan usla hjer á landi. Í Landmannahreppi er því einkar vel til fallið, að verði miðstöð sandgræðslunnar hjer á landi.“

Þetta finst mjer jeg skilja vel, og jeg skil ekki annað en að allir hljóti að viðurkenna, að það er miklu betra, að sandgræðslustjórinn eigi heima þar, sem verkefni hans liggur fyrir framan hann, heldur en ef hann ætti heima t. d. í Reykjavík eða Hafnarfirði. Í niðurlagi ritgerðarinnar segir:

„Þessi staður er einkar vel fallinn til slíkra tilrauna. Þar er hægt að stunda alt, sem að sandgræðslu lýtur og komið getur fyrir hjer á landi. Þar eru sljettir roksandar, óveðra sandöldur og hólar og blásin börð, sem sífelt fýkur úr. Þar er hægt að ná í vatn til áveitu á viss svæði, og fleiri kostir, sem að sandgræðslu lúta. Ef sandgræðslustöð kæmist upp á Stóruvöllum, þarf verkefni hennar að verð:

1. Að græða hinar stóru sandauðnir í landi Stóruvalla og á Klofaflötum.

2. Að gera tilraunir með, hverjar aðferðir sjeu hentugastar við sandgræðslu. Þar kemur til greina notkun garða til að stöðva sandfok, sáning í sandana, áveitur o. fl.

3. Í stöðinni ætti að safna melfræi í stórum stíl, til ræktunar þar og annarsstaðar.

4. Til greina gæti komið, að á þessari stöð væri hægt að safna grasfræi. Á því landi, seni enn er grasi gróið, vaxa hinar helstu tegundir af fóðurjurtum vorum. Í hinum sendna jarðvegi bera þær fræ flest ár. Hjer er því tiltölulega auðvelt að safna grasfræi.“

Þetta er þýðingarmikil hlið, því ef engin stöð er austur frá, þá ferst fyrir að safna fræi, þar er enginn til að halda því saman, og því síður staður til þess að geyma það á. Svo jeg hygg, að um leið og þessum húsakynnum yrði komið þarna upp yrði þar nokkurskonar hlaða fyrir melfræ, sem er afskaplega þýðingarmikill þáttur í því að græða upp sandauðnirnar.

Úr því jeg er staðinn upp, vil jeg fara fáeinum orðum um brtt. hv. fjvn. yfir höfuð, sjerstaklega þær, sem mjer eru viðkomandi, og skal jeg þá fyrst nefna nr. 24, við 14. gr„ á þskj. 392. Þar er farið fram á, að aftan við styrk til hjeraðsskóla sje hnýtt þeirri aths., að ekki fáist útborgað, nema 2–3 sýslufjelög taki þátt í stofnun og rekstri skólans. Öllum er vitanlegt, að átt er hjer við væntanlegan Suðurlandsskóla með þessum 20 þús., og er því hjer um Árnes- og Rangárvallasýslur að ræða, og ef til vill Vestur-Skaftafellssýslu. Jeg hygg, að þeir menn, sem hafa haft kunningsskap af þessu skólamáli, telji lítt mögulegt að hugsa sjer samkomulag um skóla þar. Einu sinni var svo langt komið í samdrætti milli þessara þriggja sýslna um einn skóla, að skipuð var þriggja manna nefnd til þess að ákveða um stað og fyrirkomulag skólans; og það mátti segja, að samvinna þeirrar nefndar væri hin besta, og hún í einu lagi lagði til, að skóli fyrir þessar þrjár sýslur yrði reistur á Stórólfshvoli, sem þá nýskeð var orðinn eign sýslunnar fyrir góðan stuðning þingsins; því þingið sýndi góðan skilning á því máli, þegar það gaf sýslunni kost á að kaupa þessa miklu og vel settu eign, með þeim hætti að fá lán, sem átti að borgast á 28 árum með 6% rentum.

Það virtist þannig ekkert til fyrirstöðu, en þegar til kastanna kom, dró Árnessýsla sig út úr og vildi ekkert hafa saman við hinar sýslurnar að sælda, eftir því sem allir skildu af því, að skólinn átti ekki að standa í Árnessýslu, heldur í Rangárvallasýslu, Nú þegar málið var vakið upp og var farið að stofna til væntanlegs skóla á Suðurlandsundirlendinu, þá vildi því skjóta upp, að menn langaði til að vita, hvar skólinn ætti að vera. Árnesingar vildu ekki gefa það upp — má vera, að þeir hafi ekki getað það, — og afleiðingin varð sú, að Rangæingar urðu daufir með þátttökuna, ef ekkert væri ákveðið, hvar skólinn skyldi standa fyr en eftir á. Þá þóttust þeir sjá í hendi sjer, að Árnesingar myndu ráða, af því þeir eru fjölmennari. Af þessu leiddi, að samkomulag hefir ekki getað orðið ennþá í þessu skólamáli. Því að ef það ættu að vera þrjár sýslur um skólann, þá segir það sig sjálft, að þessum tveimur austari mundi þykja það hart og að ýmsu leyti óhentugt, að skólinn yrði settur í Árnessýslu, þar sem hann yrði undir handarjaðri Reykjavíkur. Hefði hitt getað gengið, það, sem grundvöllurinn var lagður til í byrjun, að skólinn yrði reistur á Stórólfshvoli; þá var Rangárvallasýsla reiðubúin að halda áfram sem og Vestur- Skaftafellssýsla. Staður sá er að mörgu leyti hentugur mjög, fyrst og fremst með tilliti til þess, að sýslan á jörðina, og líka með tilliti til þess, að bygðin í kring er mjög þjett, og því þægilegt að fá þarfir skólans uppfyltar hvað landbúnaðarafurðir snertir. Sömuleiðis er hann hentugur af því, að þarna er ákveðið læknissetur. Í fjórða lagi er staðurinn hentugur sökum þess, að eigi alllangt burtu er ágætur foss, sem jeg er í engum vafa um, að með tímanum kemur til þess að gera stórvirki í Rangárvallasýslu. Það er foss í Rangá, sem er kallaður Tungufoss og er ærið aflmikill.

En sem sagt, þegar maður lítur á allar kringumstæður, þá hygg jeg, að þessi aths. sje sama sem að dauðadæma þessar 20 þús. kr., og álít jeg þess vegna rjettara að strika þær alveg út en setja þessa aths. Hvort sem aths. stendur eða ekki stendur, þá býst jeg við, að eftir því sem kringumstæður standa, gæti ekki komið til mála útborgun á þeim, því enn munu Árnesingar ekki einu sinni vera á því hreina, hvar skólinn á að standa. Þeir hafa verið að hugsa um Haukadal og Laugavatn, og þar eru að vísu hitunarskilyrði góð, en líka aðrir agnúar, þar sem slíkir staðir eru svo afskektir, og því erfitt með alla aðdrætti og flutninga. Í þriðja lagi hefir verið talað um Reyki í Ölfusi. En jeg hefi heyrt í seinni tíð, að þar hafi þeir látið sjer detta í hug að koma upp hressingarhæli, og yrði því sá staður við það sennilega útilokaður fyrir skólann.

Önnur brtt. frá fjvn. liggur hjer fyrir, sem jeg vildi leggja liðsyrði, sú sem sje að hækka styrkinn til búnaðarfjelaga í sveitum úr 10 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Jeg er, eins og allir vita, ekki ókunnugur í sveitinni, þar sem jeg hefi alið aldur minn lengst af, og jeg verð að láta það í ljós sem skoðun mína, bygða á reynslu, jeg get ekki hugsað mjer nokkurn styrk, sem hefir borið jafnmikinn og góðan árangur sem þessi búnaðarfjelagastyrkur til sveita. Og mjer er nær að halda, að hefði styrkurinn verið t. d. 2/3 hærri en hann hefir verið, þá myndi vart sjást þúfa í túni á mörgum sveitabæjum. Þótt um lítið sje að ræða, þá er það góður spori á menn til þess að ganga rösklega að þúfunum. Menn láta sig muna um alt, þegar það er borgað í peningum, og þegar mikið hefir verið gert, munar dálítið um þessa viðurkenningu. Get jeg nefnt sem dæmi einn mikinn jarðabótamann, nágranna minn; jeg veit, að með þessum litla styrk, sem veittur er, hefir hann þó oft stungið í vasa sinn á annað hundrað krónum, og hann hefir metið vel þessa viðurkenningu.

Um aðrar brtt. nefndarinnar hefi jeg ekki ástæðu til að fara mörgum orðum. Vildi þó aðeins geta þess, að þar sem farið er fram á að fella niður styrk til húsagerðar á Skútustöðum, þá finst mjer það atriði ekki praktískt, skoðað frá því sjónarmiði, að sóknarmenn bjóðast til þess að leggja fram úr sínum eigin vasa 5 þús. kr. Við eigum ekki þesskonar örlæti að venjast frá hálfu sóknarbúa, og finst mjer óviðeigandi, að þingið slái á þessa útrjettu örlátu hönd. Þess vegna tel jeg, að það hefði gjarnan mátt standa að veita 5 þús. kr. á móti þeim 5 þús., sem boðnar voru. Jeg get ekki sjeð, að það geti komið til mála að vísa á 5 þús. kr. í þessu efni af þessum 24 þús. kr., sem ætlaðar eru til endurbóta á prestssetrum, því að jeg hygg, að þegar sje búið að gera áætlun og ráðstafanir um þær.

Hjer eru brtt. á þskj. 408, sem jeg verð að geyma mjer að tala um nokkur orð, af því að hv. flm. þeirra eru ekki búnir að tala. En þeirra ummæli býst jeg við, að verði frekar til að styrkja heldur en spilla fyrir því, að jeg greiði þeim atkvæði.