21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

50. mál, tollalög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi setið hjá þeim Hjaðningavígum, sem háð hafa verið um mál þetta bæði í gær og í dag og mun jeg ekki stofna til mikillar deilu með orðum mínum. En jeg vildi mega skjóta litlum athugasemdum til tveggja manna, sem hjer hafa talað, en það eru þeir hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Ak. (BL).

Jeg hefi hlýtt með mikilli ánægju á ræður þeirra hæstv. fjrh. og háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um framsókn og íhald. Það gladdi mig mjög, hve vel hv. þm. V.-Ísf. komst frá þeim umræðum, og hefi jeg því dálitla tilhneigingu til þess að hjálpa hæstv. fjrh. ögn í deilunni. Vil jeg í því sambandi minna hæstv. fjrh. á það, að hann hefir áður lýst íhaldsflokkunum mjög vel og skarplega. Það eru ekki mörg ár síðan hann skrifaði grein um þetta í blaðið Lögrjettu, þar sem hann sýndi með venjulegri rökvísi einkenni íhaldsflokkanna. Jeg man nú ekki lengur ummælin orðrjett, en þar lagði hann sjerstaka áherslu á, að íhaldsmenn einblíndu mjög á eigin pyngju og vildu engar framfarir, því að til þess yrðu þeir að greiða skatta, en undan því vildu þeir endilega komast. Yfirleitt var þessi Lögrjettugrein hörð ádeila á íhaldið, sem jeg finn ekki ástæðu til að bæta neinu við. En gott er fyrir íhaldsráðherrann að minnast sinna fyrri orða um stefnu íhaldsins.

Hv. þm. Ak. (BL) hefir nú haldið tvær ræður í þessu máli. Mjer þótti vænt um, hvað hann fór stilt af stað, en hann var ekki nærri eins gætinn í síðari ræðu sinni. Hann fór hörðum orðum um þá, sem halda vildu einkasölu ríkisins á tóbaki, og kvað þá þykjast hafa fundið ný sannindi. Þessu beindi hann til Framsóknarflokksins, en jeg vil minna hv. þm. Ak. á það, að það voru ekki þeir herrar Framsóknarmenn sem báru fram einkasöluna til sigurs, heldur þeir íhaldsráðherrarnir Magnús Guðmundsson og Jón Magnússon. Ásakanir hv. þm. Ak. beinast því fyrst og fremst til þeirra.

Þá er eitt enn. Hv. þm. (BL) kom með eina enn þyngri ásökun í síðustu ræðu sinni, er hann sagði að verið væri að gera landsverslun að einhverju vígi siðspillingar og glæpa. Sá maður, sem nú veitir þeirri stofnun forstöðu, hefir oft setið hjer í þessum sal, og hefi jeg ekki fyr heyrt vjefengdan heiðarleik hans. — Jeg vil mótmæla slíkri ásökun og tel hana á engum rökum bygða. Og jeg vil að lokum bæta því við, að þessi aðdróttun snertir ekki aðeins forstjóra landsverslunarinnar, heldur einnig og engu síður þann mann, sem æðsta eftirlit hefir með versluninni, nefnilega hæstv. fjrh. (JÞ). Ef landsverslunin er slíkt pestarbæli, sem hv. þm. (BL) ljet í veðri vaka, þá er það fyrst og fremst slælegu eftirliti hæstv. fjrh. að kenna, að slíkt skuli látið viðgangast. Er því rjettast fyrir háttv. þm. (BL) að beina skeytunum þangað, ef hann vill halda fast við þessa röngu aðdróttun.