25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

50. mál, tollalög

Jón Kjartansson:

Umr. um þetta mál hafa nú staðið alllengi, og er þess vegna e. t. v. ekki vert að teygja meira úr þeim en búið er, einkum þar sem flest það, sem máli skiftir með og móti, hefir þegar verið tekið fram, og því varla að vænta, að nokkuð nýtt komi í ljós á þessu stigi málsins. En þar sem jeg er meðal flm. frv. þessa, og andmælendur frv. hafa reynt að ráðast á okkur persónulega, þykir mjer hlýða að skýra afstöðu mína til þessa máls, skýra, hvað einkum vakir fyrir mjer í þessum efnum.

Andmælendur frv. hafa veist að okkur flm. þess og borið okkur á brýn illar hvatir í þessu máli, talið okkur flytja frv. í eiginhagsmunaskyni, eða í hagsmunaskyni örfárra manna, kaupmanna, sem hv. 1. þm. S.-M.(SvÓ) kallar skjólstæðinga okkar. Það er engin ný bóla, að þessari staðhæfingu sje slegið fram af andstæðingum frjálsrar verslunar. Þessari ásökun hefir allajafna verið haldið mjög á lofti í þeim herbúðum.

Menn hafa tekið eftir því, að ýmsir menn, sem hafa valið sjer það hlutskifti í lífinu að reyna að kollvarpa núverandi þjóðskipulagi, hamra stöðugt á móti frjálsri verslun og vilja fyrir alla muni koma henni fyrir kattarnef, enda er frjáls verslun ein meginstoð þjóðskipulags vors. Þeir stagast á því í sífellu, að formælendur frjálsrar verslunar sjeu burgeisar, kaupmanna- eða jafnvel braskaralýður, eða m. ö. o. „Grimsbylýður“, eins og einn leiðtogi þessara manna kallaði nýlega einu nafni pólitíska andstæðinga sína, þá, sem í kaupstöðum búa.

Menn eru orðnir svo vanir því að heyra þessi stóryrði og staðhæfingar „leiðtoganna“, að mönnum hefir ekki komið til hugar að andmæla þeim, heldur látið þær sem vind um eyrun þjóta, sem hvert annað marklaust hjal. En þegar gamlir og reyndir alþm., eins og hv. 1. þm. S,- M. (SvÓ), taka að japla á þessari sömu tuggu hjer í þingsalnum, þá er skörin farin að færast upp í bekkinn og ekki hægt að þegja lengur.

Reyndar vildu þessir háttv. þm. í gær draga úr fyrri ásökunum sínum og taka þær aftur. En þar sem ekki er víst, að þeir striki ummælin út úr umræðum þingtíðindanna, er rjett, að þeim sje mótmælt. Það er annars furðulegt, að háttv. þm. skuli leyfa sjer að bera fram slíkar aðdróttanir, og þó enn furðulegra, að þeir skuli beita þeim í þessu máli, þar sem um það er að ræða að styðja og styrkja frjálsa verslun í landinu. Máli, sem þjóðinni er viðkvæmast allra mála. Og það er undarlegt, að þeir háttv. þm., sem mest tala um kaupmannapólitík í þessu sambandi, skyldu ekki hafa risið upp gegn sýslunefndum landsins hjer um árið, þegar þær fyrir þjóðarinnar hönd mótmæltu nær einum rómi, að ríkið tæki að sjer einkasölu á kornvörum. Var það hagur kaupmannanna, sem sýslunefndirnar báru þá svo mjög fyrir brjósti? Nei, sýslunefndirnar skildu það vel, og allur almenningur skilur það einnig mjög vel, þó að sumum háttv. þm. virðist ganga öllu erfiðlegar að skilja það, að verslunarmálin eru stórmál, sem alla þjóðina varðar. Spurningin um það, hvort verslunin eigi að vera frjáls eða hvort ríkið eigi að leggja á hana allskonar hömlur, er fyrst og fremst þjóðmál, sem ekki varðar eina stjett í landinu fremur en aðrar. Það er mál, sem varðar allar stjettir og hvern einasta einstakling þjóðfjelagsins.

Þjóðfjelag vort er reist á þeim grundvelli, að einstaklingar þess fái reynt dugnað sinn og framtak í hvívetna, ekki síður á sviði verslunar og viðskifta en á öðrum sviðum. Frjálst og óþvingað viðskiftalíf er sá hyrningarsteinn, sem þjóðfjelag vort er reist á, og sje sá hyrningarsteinn fluttur úr skorðum, er þjóðfjelaginu í heild hætt. Þeir hv. þm., sem láta hafa sig til að grafa undan þessum hyrningarsteini, með því að leggja óeðlileg bönd á frjálst viðskiftalíf, ganga í lið með þeim mönnum, sem hafa þorað að láta þá ósk í ljós, að núverandi þjóðskipulag vort mætti hrynja til grunna. Það er þessi hlið málsins, sem aðallega hefir vakað fyrir mjer, þegar jeg gerðist meðflm. frv. þess, sem nú er til umræðu.

Allmikið hefir verið deilt um aðdraganda tóbakseinkasölunnar. Deilt um það, hvað vakað hafi fyrir landsstjórninni. er hún flutti frv. um einkasöluna á þingi 1921; hvort það hafi þá verið „princip“- mál, þ. e. a. s., hvort stjórnin hafi í raun og veru viljað taka upp einokunarstefnuna. eða það hafi einungis verið fjárhagsmál. gripið af neyð, til þess að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna.

Þetta er í sjálfu sjer óþörf deila nú orðið, þar sem það hefir komið skýrt fram í þessum umr., að málið er ná „princip“-mál. Annar stærsti þingflokkurinn hefir í þessu máli gengið í lið með minsta þingflokknum, sem meðal annars hefir það til síns ágætis að vilja kollvarpa núverandi þjóðskipulagi. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem talaði fyrir munn Framsóknarflokksins, lýsti því yfir í fyrri ræðu sinni, að enn væri ekki kominn tími til þess, að ríkið tæki að sjer alla verslun landsins. Það mátti svo sem skilja á hv. þm. (KlJ), að flokkur hans ætlaðist til, að svo yrði, þá er tímar liðu fram. Þarf því ekki frekar vitnanna við, að hjer er um alvarlegt stefnumál að ræða.

En fyrst deila þessi hefir risið upp, þá er rjett að leiðrjetta það, sem rangt hefir verið með farið.

Það er öllum vitanlegt, að á þingi árið 1921 var einkasölufrv. flutt sem fjárhagsinál eingöngu — og þingið afgreiddi það sem fjárhagsmál.

Hv. þm. er það efalaust kunnugt, að árið 1919 afgreiddi þingið mörg lög sem bökuðu ríkissjóði stórfeld útgjöld, án þess að sjá honum fyrir auknum tekjum að sama skapi. Þarf ekki annað en að minna á launalögin og dýrtíðaruppbótina, auk ýmsra annara laga. Og það var fyrst á þingi 1921, að þáverandi stjórn og svo þingmenn fóru að hugsa ríkissjóði fyrir tekjuauka, enda var þá komið talsvert tómahljóð í kassann. Þá var það að frv. um tóbakseinkasölu var lagt fyrir þingið. Greinargerð stjórnarinnar fyrir frv., umræður um málið og atkvgr. sannar. Svo að ekki verður vjefengt, að frv. var borið fram og afgreitt eingöngu sem fjárhagsmál, til þess eins að afla ríkissjóði tekna. Þessu til staðfestingar vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð upp úr ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem var frsm. meiri hl. fjhn. þessarar hv. deildar í máli þessu. Honum farast svo orð um þessa hlið málsins:

„Jeg vil geta þess, að stefna meiri hl. er óháð afstöðu þeirra einstöku nefndarmanna til einkasölu yfirleitt; sumir nefndarmenn hallast að henni, aðrir telja óháð og frjáls viðskifti eiga hvarvetna að ráða, en þessi skoðun hefir orðið að víkja og verið látin víkja fyrir þörf ríkissjóðs á auknum tekjum.“

Þarna hefir hv. þm. (SvÓ) lýst því alveg rjettilega, hvað fyrir fjhn. og Alþingi vakti, þegar einkasölulögin voru samþykt. Enda sýnir atkvgr. þm. hið sama. Málið var ekki flokksmál. Eindregnir fylgjendur frjálsrar verslunar greiddu frv. atkv., og þess vegna marðist það í gegnum þessa hv. deild með eins atkvæðis meiri hluta. Þarf því engan að undra, þó að málið sje nú komið á dagskrá aftur.

En þó að málið hafi eingöngu verið flutt og afgreitt sem fjárhagsmál á þingi 1921, verður því ekki neitað, að samþykt frv. var brot á „principi“ frjálsrar verslunar eigi að síður, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók rjettilega fram eigi alls fyrir löngu. Því að ef svo er ekki, hvar eru þá takmörkin?

En einmitt vegna þess, að málið var flutt og afgreitt sem fjárhagsmál árið 1921, höfum við nú flutt frv. þetta á sama grundvelli, eins og greinargerðin sýnir. Við viljum tryggja ríkissjóði sömu tekjur, sem hann hefir nú af tóbakinu. með því að hækka tollinn. Og engum hv. andstæðingi frv. hefir tekist að hrekja með rökum áætlanir þær, sem gerðar eru í greinargerðinni, enda hafa bæði háttv. aðalflm. (BL) og ýmsir aðrir hv. flm., einkum hv. 4. þm., Reykv. (MJ), hrakið rækilega allar tilraunir. sem gerðar hafa verið í þá átt. Ætla jeg mjer því ekki að tefja tímann með því að fara inn á það frekar.

Jeg get þó ekki stilt mig um að láta í ljós undrun mína yfir einu atriði, sem sumir hv. þm. hafa haldið mjög á lofti Þeir hafa talið það mikinn kost, að innflutningur tóbaks, sem tollur er greiddur af, minki, en vilja jafnframt fyrir engan mun láta ríkissjóð missa nokkrar tekjur af tóbakinu. Ef þetta hvorttveggja getur farið saman, þá fer það að rætast, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) drap á í gær, að hvert kg. tóbaks komist upp í 70 kr.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg undirstrika það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) mintist á í gær, að fyrir mjer var það veigamikið atriði, þegar jeg gerðist meðflm. þessa frv., hversu launakjörum starfsmanna einkasölunnar er háttað, borið saman við launakjör embættismanna og annara starfsmanna þjóðarinnar. Með örfáum undantekningum geta laun æðstu embættismanna þjóðarinnar orðið hæst 9500 kr. samkvæmt núgildandi launalögum. Yfirborðið af embættismönnum ríkisins hefir miklu lægri laun. En hvað er að segja um þá starfsmenn ríkisins, sem starfa við verslanirnar? Hvernig eru launakjör þeirra? Eru þau í samræmi við laun annara?

Eins og hv. þdm. muna, kom fram fyrirspurn á síðasta þingi um laun starfsmanna við verslanir ríkisins, og komu þá fram tölur, sem fara langsamlega fram úr þeim upphæðum, sem aðrir starfsmenn ríkisins hafa. Forstjóri landsverslunarinnar var með 12 þús. kr., skrifstofustjóri 10 þús. kr., aðalbókhaldari 8400 kr., gjaldkeri 7200 kr., umsjónarmaður 6600 kr. Þetta eru talandi tölur og alls ekki í nokkru samræmi við laun starfsmanna ríkisins yfirleitt. Nú vita menn, að hjer í lestrarsal hefir legið erindi frá starfsmönnum ríkisins, þar sem kvartað er undan óhæfilega lágum launum, og vitanlega bera þeir sig saman við áðurnefnda starfsmenn verslananna. Þetta er svo veigamikil ástæða, að jeg held, að það sje ótækt að halda lengra á þessari braut, að taka suma starfsmenn ríkisins út úr með launakjör án tillits til launa yfirleitt. Það hlýtur að reka að því, að mjög háværar raddir komi og krefjist samræmis. Verður þá erfitt að standa á móti kröfunni. En það er ekki hægt að samræma þetta nema með því, að ríkið hætti þessum verslunarrekstri; því að ef ríkið á að hafa hæfa menn við verslunina, þá er það öldungis víst, — eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) tók fram. — að við verðum að launa þeim með þessum kjörum.

Jeg skal svo ekki lengja umr. frekar. Vildi jeg vona, að háttv. þdm. færu að hætta því að brigsla okkur flm. um illar hvatir í þessu máli, því að það er vissulega ekki sæmandi.