25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

50. mál, tollalög

Sigurjón Jónsson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram þessum umræðum, en þó vildi jeg segja nokkur orð.

Tvent er það einkum, sem hv. andmælendur þessa máls hafa fært fram móti því; annað, að ríkissjóður yrði sviftur tekjum, er hann ella hefði, og hitt, að kaup almennings á tóbaki yrðu ekki eins hagkvæm, verðið hækkaði fyrir neytendur. Þessar ástæður skal jeg taka til athugunar sína í hvoru lagi. En fyrst vil jeg halda þar áfram, sem hv. síðasti ræðumaður endaði og vísa á bug þeim aðdróttunum og dylgjum, sem fólust í ýmsum ræðum hv. andmælenda. Það er harla einkennilegt að heyra hvern þingmann á fætur öðrum halda ræður þrungnar af dylgjum og tortrygnisanda. Fyrir mitt leyti vil jeg alls ekki væna hv. andmælendur um neinar lágar hvatir fyrir sinni andstöðu gegn málinu. Jeg á bágt með að hugsa mjer, að lágar hvatir ráði aðstöðu hv. þm. í þjóðmáli sem þessu. Það er einkennilegt, að sumir hv. andmælendur virðast hafa það sem aðalrök á móti málinu að gera aðstandendur þess á einhvern hátt tortryggilega.

Þá vil jeg snúa mjer að þessum tveim aðalatriðum, og fyrst að hliðinni, sem veit að ríkissjóði. Hv. andmælendum hefir ekki komið vel saman um það, hve miklu tekjurýrnun hans mundi nema. Fyrst var gert ráð fyrir hjer i háttv. deild, að tekjurýrnunin mundi nema 200—300 þús. kr.; í gær komst hún niður í 100 þús. kr.. og hjá hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) komst hún ofan í 75 þús. kr. Jeg geri ráð fyrir, að þessi mismunur stafi af því, að málið hefir skýrst dálítið betur, og síst er vonlaust, að tekjurýrnunin hverfi alveg við athugun málsins í hv. fjhn. og við lengri umr.

Háttv. þm. A.-Sk. hefir komist hægst í áætlun um tekjurýrnun ríkissjóðs og talið nema mundi 75 þús. kr. Skal jeg á þessu stigi málsins ganga til móts við þennan háttv. þm. og athuga málið einmitt á þessum grundvelli. Skal jeg, eins og hann, gera ráð fyrir, að tollur af innfluttu tóbaki verði samkv. frv. og mundi nema 729 þús. kr., miðað við jafnmikinn innflutning og 1924, og að það sje 75 þús. kr. lægra en tollur plús verslunarhagnaður 1924. Ekki svo að skilja, að við flm. sjeum ekki sannfærðir um, að innflutningur muni aukast svo við frjálsa verslun, að það jafni þarna mismuninn. Hv. þm. segir, að þetta sje engin staðreynd, og megi því ekkert reisa á þeim grundvelli; vil jeg því ræða við hv. þm. á hans eigin grundvelli.

En þegar jeg nú geng svona langt til móts við hv. andmælanda minn — og það án þess jeg álíti, að það hafi við full rök að styðjast —, þá vil jeg aftur á móti biðja hann og aðra hv. þm. að líta dálítið nánar en gert hefir verið á gróða einkasölunnar 1924. Verslunarágóðinn er tilfærður 350 þús. kr. 1924. Árið 1923 er hann 200 þús. kr. Hjer er um 150 þús. kr. mismun að ræða, eða 75% meiri gróði er sýndur árið 1924 en 1923, um leið og innflutningur tóbaks eykst um 1%. Jeg skal undir eins skýra þennan mismun að svo miklu leyti, sem jeg get. Fyrst og fremst dragast frá þessum 350 þús. ca. 25 þús. kr. hagnaður vegna 25% tollhækkunarinnar. En við þessar 200 þús. kr. í verslunarhagnað 1923 mundi mega leggja 25 þús. kr., sem er tap á gengi 1923. Er þá ágóðinn 1923 225 þús. kr., en 1924 325 þús. kr. Verslunin hefir hvorugt árið borgað útsvar, þau eru bæði greidd af gengisgróðanum 1924. Jeg vil skjóta þeirri spurningu hjer fram: Hvers vegna er gróðinn miklu meiri 1924 en 1923? 25% tollaukningin, sem gekk í gildi í fyrra, er atriði, sem hefir haft nokkur áhrif á verslunarhagnaðinn. Jeg hefi reiknað út, hve miklu sú ágóðaaukning hafi getað numið. Við hækkaðan toll hefir álagningin orðið meiri að krónutali, hafi álagningunni „prósentvís“ verið haldið jafnhárri. Reiknast mjer, að sú hækkun á verslunargróða ætti aldrei að geta numið meira en 15 þús. kr. þessa 9 mánuði. Ennfremur er hægt að finna 5 þús. kr. upphæð, sem kemur fram við það, að 1924 voru flutt inn 1750 kg. af vindlum og vindlingum, en ekki nema 1600 1923. Þar af leiðandi eykst verslunarhagnaðurinn 1924. Með þessu móti kemst jeg ofan í 80 þús. kr. meiri gróða 1924 en 1923. M. ö. o., það er 35%, sem gróðinn hækkar frá ári til árs, með jafnmikilli umsetningu, eða sem næst, þar sem innflutningurinn hefir aukist tæplega um 1%. Nú vil jeg spyrja hv. andmælendur, og þá sjerstaklega háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), hvernig á að skýra þetta, þennan mikla mismun. Geta hv. þm. álitið, að hjer sje virkilega um tryggan tekjustofn að ræða? Það eina, sem getur skýrt þetta. það er meiri álagning á vöruna en verið hefir. Hvað mundu hv. andmælendur segja um slíkan verslunarrekstur sem þennan hjá prívatkaupmanni? Jeg býst ekki við, að það yrði dæmt mjög vægt. Og jeg get heldur ekki láð það, þótt lítið samræmi þyki í slíkum verslunarrekstri sem þessum og hann fái sína dóma. Jeg þori því að segja. að sjeu áætlanir okkar flm. Í greinargerðinni ekki ábyggilegar um tekjur ríkissjóðs af ráðgerðum tollum, þá eru heldur ekki tryggar a. m. k. jafnháar tekjur af einkasölunni og hún gaf 1924.

Það má aðeins benda hv. andmælendum á það, að það hefir ekkert verið farið út í tekjuskatt þeirra einstaklinga, sem eiga að græða svo og svo mikið af tóbakssölu.

Um þá hlið, er snýr að almenningi, hefir verið mikið rætt í dag. Hygg jeg, að það komi skýrlega fram í greinargerð okkar, svo enginn vafi kemst að, að ódýrari tóbakstegundirnar hljóta að verða ódýrari, ef frv. nær fram að ganga. Neftóbak kostar nú til landsins komið kr. 10,12 kg., munntóbak kr. 10,57 fyrir utan toll, en seljast af einkasölu ríkisins á kr. 19,50 hið fyrra og kr. 21,00 hið síðara. Ágóðinn til ríkisins er því kr. 9,38 og kr. 10,43. Á reyktóbak er lagt meira en þetta. Á vindla og vindlinga er álagningin um 11 kr. og tollurinn 10 kr., samtals 21 kr. á kg. Nú er ráðgerður tollur i frv. á neftóbak 6 kr. á kg., en 16 kr. á vindlum og vindlingum. Lækkunin á álagningu til ríkissjóðs er því sem hjer segir: á neftóbaki kr. 3,38, á munntóbaki kr. 4,43, á vindlum og vindlingum kr. 5,00. Á reyktóbaki er lækkunin eitthvað meiri. Gert er ráð fyrir 20% álagningu á neftóbak, en hærra er alls ekki venja að leggja á þá vöru. En eftir því yrði neftóbak ekki dýrara í smásölu en það selst nú í heildsölu. Þess vegna væri óhætt að hækka tollinn um 1 kr. á þessum tegundum, nef- og munntóbaki; tóbakið yrði fyrir því ekki dýrara en í landsverslun.

Allar þessar tröllasögur, er hv. andmælendur hafa borið fram um væntanlega 50% álagningu kaupmanna, er ekki nema reykur eða ryk, sem þyrlað er upp um þetta mál. Eða hvað segja menn um stærsta viðskiftavin einkasölunnar, S. T. S. eða kaupfjelögin? Þau hafa nú eins og aðrir látið sjer nægja 10% álagningu, og svo eiga þau að fara að taka alt að 50%. Auðvitað nær þessi röksemd hv. andmælenda ekki nokkurri átt. Nei, það er fyrirsjáanlegt, og þarf ekki að deila um það, að tóbaksverðið hlýtur að lækka.

En eitt er alveg hárrjett hjá hv. andmælendum í þessu sambandi; þeir hafa sagt, að meiri hætta væri á smyglun með hækkuðum tolli. Þeir hafa ætlað sjer að nota þetta sem rök á móti frv., en þetta eru nú einmitt bestu meðmælin, sem hægt er að gefa því. Frv. gerir ráð fyrir, að álögur ríkissjóðs á tóbak sjeu lækkaðar að stórum mun, en ekki hækkaðar. Álögur ríkissjóðs á kg. af rjóli eru nú kr. 9,38; og hvort nokkuð af því er nú kallað verslunarágóði og hitt tollur, eða alt verslunarágóði eða alt tollur, það kemur nú Pjetri og Páli í alveg sama stað niður; króna er króna. Frv. gerir ráð fyrir, að þetta gjald verði 6 kr. Hjer er um 3—5 kr. lækkun að ræða á kg.; og hv. andmælendur hafa slegið því föstu, að þetta hljóti að hafa minkaða smyglun í för með sjer, og jeg er þeim alveg samdóma. Og einmitt af þeirri ástæðu erum við flm. sannfærðir um, að við munum fá meira af tolluðu tóbaki innflutt eftir af frv. þetta er orðið að lögum en áður. Jeg skal ekki segja, hvort innflutningurinn eykst eða ekki, en jeg vona, að við fáum meira tóbak sem tollskylda vöru. Sjerstaklega er oss flm. það ánægjulegt, að hv. andmælendur hafa staðfest þessa skoðun vora, og þó þeir hafi gert þetta óviljandi, þá verður þeim það ekki reiknað til syndar.

Hjer við skal jeg svo aðeins bæta því, að einkasölu ríkisins á tóbaki eða einhverri annari munaðarvöru skoða jeg ekki stórt brot á principinu „frjáls verslun“, svo framt, að hún gefi ríkissjóði af vörunni meiri og vissari tekjur en ella er hægt að ná, jafnframt því að gefa kaupendum a. m. k. jafnhagkvæm kaup á vörunni og annars ætti sjer stað. Hvorugt þessara skilyrða hefir einkasalan okkar á tóbaki uppfylt, og þess vegna álít jeg, að hún eigi engan rjett á sjer.

Jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti vill leyfa mjer, um leið og jeg sest niður, að minnast hjer á mál, sem tveir hv. andmælendur hafa drepið á; það er einkasala ríkisins á steinolíu. Á hana var drepið einmitt í þeim tilgangi að sýna, að þar hefði ríkið útvegað almenningi hagkvæmari kaup á þessari nauðsynjavöru, eða að sá hafi tilgangurinn verið. Jeg skal fúslega samþykkja, að tilgangur þeirra, er einkasölu þeirri komu á, hafi verið sá einn, þótt hann hafi, því miður, mishepnast. Skal jeg ekki fara út í það að þessu sinni. En hv. þm. til fróðleiks vildi jeg mega skýra frá, hvað mótorolía, sem „sólarolía“ er kölluð, kostar nú hjá landsverslun, og hvað hún kostar beint frá firma í Kaupmannahöfn. Þetta er sjerstök olía og mikið notuð af mótorbátum áður en einkasalan tók við.

Olían kostar 13½ eyri kg. frá Kaupmannahöfn. Er gert ráð fyrir 166 kg. í fati, og gerir það kr. 22.38. Fragt frá Kaupmannahöfn er 8 kr., assurance og annar kostnaður 1 kr. Tómt fatið 12 kr. Þetta verður í dönskum krónum 43,38 kr., en með gengismun 2% kr. 44,25. Vörugjald 2 kr., og uppskipun og annar kostnaður 2 kr. Alls í ísl. kr. 48,25. Hjá landsverslun kostar tómt fatið notað — alveg samskonar tegund — 14 kr., en olían sjálf, 166 kg. á 30 aura kílóið, kostar kr. 49,80 eða samtals kr. 63,80. Er hjer um svo mikinn verðmismun að ræða. að naumast getur verið um sanngjarna álagning að ræða.