25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vildi að eins víkja að þessu, sem háttv. þm. Str. (TrÞ) sagði um fjárhagshlið þessa máls. Hann heldur því fram, að það sje af fjárhagsástæðum, að þessir fulltrúar níu kjördæma sjeu á móti frv., en undanskilur þó einn. Jeg segi, að það sje ósæmilegt að halda slíku fram og hamra á því dag eftir dag. Þessi upphæð, 65 þús. kr., er þó ekki svo stór, að um hana muni sjerstaklega, þegar þá þess er líka gætt, að ósannað er og fremur ólíklegt, að þetta frv. hafi neina tekjurýrnun í för með sjer.

Það er ekki af fjárhagsástæðum ríkissjóðs, að rifist er um þetta frv. við 1. umr. nú í fjóra daga. Það hefði auðveldlega mátt lagfæra í nefnd, ef frv. þykir ekki fara fram á næga tollhækkun.

Nei, hjer er verið að ræða um, hvort heppilegra sje, að einkasalan haldi áfram eða ekki. Og þá er því til að svara, að þær tekjuaukavonir, sem bundnar voru við tóbakseinkasöluna í upphafi, hafa brugðist. Ekki vegna verslunárágóðans, heldur vegna innflutningsins; hann hefir stórum minkað. Nú er stungið upp á að breyta til og ná þessum tekjum með tolli, án þess þó að tóbakið verði neytendum dýrara en nú er, og þess vegna er það, að frv. þetta er fram borið. Þetta er ekkert stórmál, og því síður fjárhagsmál, og jeg endurtek það, sem jeg sagði áðan, að það er ekki þess vegna, að rifist er um frv. í 4 daga.

En jeg vil benda hv. Framsóknarflokks- þm. á það í sambandi við þau orð, sem hrutu frá hv. 1. þm. Árn. (MT) — hann sagði, að tóbakseinkasalan væri útvígi steinolíuverslunarinnar, m. ö. o. þegar tóbakseinkasalan væri afnumin, væri landsverslunin í hættu stödd — hvort það er ekki einmitt þetta, sem um er deilt og rifist hefir verið um allan þann tíma, sem þessi 1. umr. hefir staðið.