29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla mjer ekki að ræða nema örfáar brtt. hv. fjvn., og þar til vil jeg fyrst nefna 38. brtt. á þskj. 392. um hækkun á styrknum til Búnaðarfjelags Íslands. Jeg veit ekki betur en að fjvn. Nd. hafi þegar bundið sig gagnvart Búnaðarfjelagi Íslands um að veita því 200 þús. kr., eins og nú stendur í fjárlagafrv., og enda þótt hv. Nd. geti ekki bundið hv. Ed., hygg jeg, að tilgangslítið verði að fara að breyta þessu, þar eð Nd. muni færa þessa upphæð aftur í sama horf. Jeg vil einnig benda á, að með tilliti til þessa loforðs Nd., er í fjárveitingunni felst, hefir Búnaðarfjelag Íslands þegar á ársþingi sínu gert áætlanir um framkvæmdir fjelagsins og annað á árinu 1926, með þessa upphæð fyrir augum. Jeg held það yrði því aðeins til að farga þeirri von, sem annars kynni að vera um, að Nd. samþykki fjárlagafrv. óbreytt eins og það verður afgreitt úr þessari hv. deild, ef þessum lið í frv. verður breytt.

Um mestu brtt. fjvn., hækkun styrksins til búnaðarfjelaga. vil jeg geta þess, að í öðrum lið í 16. gr. eru veittar 50 þús. kr. samkvæmt því, sem fyrir er mælt í jarðræktarlögunum, og skal þessu fje aðallega varið til styrktar jarðabótum og þess háttar, og mun mikið af þessu fje fara til túnasljettunar o. s. frv. Þetta er áætlunarupphæð og getur þessi liður fjárlaganna orðið töluvert hærri en í frv., og fer það eftir því, hversu miklar jarðabætur verða unnar. Jeg álít því ekki nauðsynlegt að lækka þennan lið. Samkv. jarðræktarlögunum skal veita í styrk á hvert dagsverk í túnasljettunum alt að 1/4 kostnaðar, og er það miklu hærri styrkur en áður hefir verið veittur til þessa. Í Nd. kom að vísu fram till. um að hækka þennan lið, en vegna þessara ákvæða jarðræktarlaganna var sú till. feld.

Jeg nota tækifærið til að votta hv. fjvn. þakklæti mitt fyrir 80. brtt. hennar, til efnarannsóknarstofunnar til áhaldakaupa. Efnarannsóknarstofan hefir að undanförnu orðið að notast við óviðunandi slæm áhöld til efnagreiningar, en úr þessu verður nú bætt. ef brtt. verður samþykt.

Um lækkunina á fjárveitingunni til Fiskifjelags Íslands er það sama að segja og um Búnaðarfjelag Íslands. Þessar upphæðir voru ákveðnar þannig í Nd. vegna þess samkomulags, sem varð milli Búnaðarfjelags Íslands og fjvn. Nd., og því þótti nauðsyn á vera, að samræmi væri milli fjárframlaga ríkissjóðs til Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelags Íslands. Þá sje jeg ekki fleiri brtt. frá háttv. fjvn., sem jeg hefi ástæðu til að gera að umtalsefni.

Af brtt. á þskj. 400 vil jeg nefna þá fyrstu, frá háttv. 1. þm. Rang. (EP), til bifreiðaferða hjeðan austur yfir fjall, og teldi jeg mjög æskilegt, ef hv. Ed. sæi sjer fært að rífka þennan styrk, sem áreiðanlega mundi verða til mikilla samgöngubóta fyrir þessi hjeruð, því að þessar ferðir eru mjög mikið notaðar. Aftur á móti get jeg ekki mælt með, að VII. brtt. á þskj. 400, frá þessum sama hv. þm., nái samþykki hv. deildar, sem sje styrkur til húsabyggingar á Stóruvöllum vegna sandgræðslunnar; henni ríður á öðru meira en húsabyggingum, enda trúi jeg vart því, að sandgræðslumaðurinn, sem um leið er barnakennari í Hafnarfirði, fari að flytjast búferlum austur þangað. Till. í þessa átt lágu fyrir í Nd., en þar var meiri áhersla lögð á það, að húsabyggingar mættu bíða eitt eða tvö ár ennþá, meðan meira væri girt og friðað af söndunum þar austur; hinu lægi minna á, að taka þegar það land til notkunar, sem búið væri að græða upp, ef það aðeins væri friðað framvegis. En það er undarlega fljótt, sem landið grær upp aftur með góðri meðferð, og eru því góðar líkur til, að á þessum sandauðnum geti með tímanum risið upp góð býli. ef þær aðeins verða girtar og friðaðar. Þess vegna fjekk þessi húsbyggingartill. lítinn byr í Nd. og náði þar ekki samþykki.

Þá er XI. brtt. á þskj. 400, frá hæstv. forseta (HSteins) að á eftir „Dalasýslu“ komi: eða annarsstaðar að. Tilgangur hv. fhn. mun vera sá, að fjárveitingin úr ríkissjóði sje ekki bundin því skilyrði, að sýslunefnd Dalasýslu leggi fram á móti, heldur sje sama, hvaðan fjeð kemur; en jeg vil einmitt, að ríkissjóðsstyrkurinn sje bundinn þessu skilyrði, því að mjer er vel kunnugt, að þeir, sem ábyrgð höfðu á rekstri bátsins Svans, höfðu stórskaða af. Nú sje jeg þarna útgöngudyr fyrir sýslunefnd Dalasýslu til að taka á móti þessum ríkissjóðsstyrk, en leggja ekkert fram á móti, en segja, að þessir menn verði að borga, þótt þeir hafi áður haft halla af þessari útgerð. Þetta legg jeg ríka áherslu á, að sýslunefnd Dalasýslu geti ekki gert, og ætlast jeg til, að ríkissjóður greiði þetta ekki nema gegn framlagi frá sýslusjóði Dalasýslu. Mjer er þetta áhugamál vegna þess, að einstakir menn þarna vestur hafa áður orðið hart úti af þessari bátsútgerð, og tel jeg því rjett, að þessi kostnaður falli jafnt á alla sýslubúa. En svona orðalag mundi ýta undir sýslunefndina til að koma sjer undan þessu, enda þótt jeg viti, að háttv. þm. Snæf. (HSteins) ætlist til, að slíkt framlag komi úr Snæfellsnessýslu, og vænti jeg því, að hann haldi ekki þessari brtt. sinni til streitu.

Þá hefir háttv. samgöngumálanefnd lagt fram nál. sitt um skiftingu flóabátastyrksins 1926, og er það í ýmsum atriðum mjög svipað og í Nd. En það leiðir af sjálfu sjer að slíkar till., sem þessar geta ekki verið bindandi fyrir stjórnina, þar sem till. beggja deilda fara ekki alveg í sömu átt. Þegar ósamræmi er í till. deildanna, getur hvorug þeirra út af fyrir sig bundið hendur stjórnarinnar um úthlutun styrksins. Aftur á móti er hitt sjálfsagt, að taka eins mikið tillit til óska samgöngumálanefnda þingsins og tært er.

Ennfremur er brtt. á þskj. 408, sem jeg ætla að fara um nokkrum orðum, — um skólann á Staðarfelli. Jeg veit ekki, hvort flm. þessarar brtt. er búinn að mæla fyrir henni eða ekki, enda skiftir það mig litlu. En þessu máli er þannig varið, að gefandi Staðarfells hefir afhent stjórninni nýtt gjafabrjef fyrir 10 þús. kr., sem verja skal til að kaupa fyrir áhöfn á jörðina. seni síðan skal leigð forstöðukonu húsmæðraskólans á Staðarfelli gegn 5% leigu af þessari upphæð, þ. e. 500 kr. á ári, sem einnig skal varið til að kaupa meiri áhöfn á jörðina, að því undanskildu, að gefandi ræður yfir leigunni í tvö ár, — ekki til sinna eigin hagsmuna, heldur mun hann verja þessu skólanum til góðs. En svo stendur á, að til þess að skóli þessi geti tekið til starfa á Staðarfelli. þarf að breyta þar húsum þó nokkuð. En þar sem ríkið er eigandi Staðarfells, skiftir þetta auðvitað ekki ríkissjóð svo miklu máli, en rekstrarstyrk skólans þarf að ákveða, og það verður að ganga út frá, að hann skuli greiða árlega meðan skólinn stendur. Þennan styrk hefir mentamálanefndin fyrir sitt leyti ákveðið 3000 kr. Þá er og gert ráð fyrir, að jörðin verði einnig leigð forstöðukonunni og afgjald jarðarinnar megi hún vinna af sjer í jarðabótum.

Þá er í sambandi við þetta lánstill., sem minna kemur mjer við og jeg ræði því ekki, en þess vil jeg þó geta, að einhverjir opinberir sjóðir eða stofnanir mundu sennilega geta lánað þetta. Vitaskuld er þessi gjöf gefin vegna þess, að gefandinn leggur mikla áherslu á, að skólinn komi þarna sem fyrst, og með gjöfinni vill hann tryggja það, að áhöfn verði til á jörðina og fari vaxandi þar til hún að síðustu verði nægilega stór á jörðina. En það leiðir af sjálfu sjer, að eftir því, sem áhöfnin eykst, eykst einnig leigan, og má þá verja henni til fleiri hluta en að auka bústofninn, er stundir líða. En þessi gjöf er bundin því skilyrði, að skólinn taki til starfa í fardögum 1926, og fari nú svo, að skólinn byrji á miðju ári næsta ár. er spurningin, hvort hann á samt sem áður að fá 3000 kr. styrk á því ári. Um það vildi jeg gjarnan heyra, hver tilælun nefndarinnar er, til þess að þar fari ekkert milli mála.