20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla mjer ekki að lengja þessa umr. frekar en orðið er, þar eð jeg álít, að málið hafi þegar verið orðið útrætt við 1. umr., því þá mun alt það hafa komið fram, sem máli skiftir, og er því ekki þörf að fara að endurtaka neitt af því nú, sem þá var sagt. En út af því, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði um það, að samþykt þessa frv. yrði til tekjumissis fyrir ríkissjóð. og nefndi til allháa upphæð, sem oft er búið að nefna áður, þ. e. um ¼ milj. kr., þá vil jeg ekki heldur fara að endurtaka neitt af því, sem búið er að segja um þetta við 1. umr., annað en það að þetta er alls ekki rjett. Tekjur af einkasölunni þessi 3 ár, sem hún hefir staðið, hafa verið um 217 þús. kr. á ári, og er af því auðsætt, að þótt ekkert ætti að koma í staðinn, yrði samt þessi staðhæfing um 250 þús. kr. tekjumissi allhæpin, en nú eiga tolltekjur ríkissjóð af tóbaki samkv. þessu frv. að hækka um sem svarar 160 þús. kr. á ári ef miðað er við, að innflutningurinn framvegis verði sá sami sem meðalinnflutningur þeirra þriggja ára, er einkasalan hefir staðið. Útkoman verður því sú, ef borið er saman við innflutning einkasölunnar, að tekjur ríkissjóðs mundu ef til vill minka sem svaraði 60 þús. kr. á ári, eða með öðrum orðum, að tollhækkunin á munntóbaki, nef- og reyktóbaki þyrfti að vera sem svaraði 2 kr. á hvert kg. af þessum vörutegundum. til þess að ríkissjóður biði engan halla við þessa tilbreytingu. og innflutningur hjeldist sá sami og áður. Þessar 60 þús. kr., sem á vantar, verður að ætla að muni nást af þeirri aukning á innflutningnum, sem væntanlega verður við það, að verslunin verður aftur gefin frjáls með þessar vörur. Jeg fyrir mitt leyti tel það fyllilega upplýst, að hin frjálsa verslun muni vinna upp þennan halla, og get því ekki kannast við að ríkissjóður sje sviftur neinum tekjum, enda þótt jeg teldi, að varlegra hefði verið að hækka tollinn um 2 kr. á hvert kg., í stað 1 kr., til þess að þurfa ekki að vera að gera ráð fyrir auknum innflutningi til þess að ríkissjóður yrði skaðlaus. En alt tal um milj. króna tekjurýrnun er hreint og beint út í loftið eins og búið er að sýna fram á við 1. umr. Þessi rangi útreikningur byggist á því, að besta árið er lagt til grundvallar, en ekkert tillit tekið til lakari áranna. Slíku má enginn maður, síst fjrh., gera sig sekan í, enda er það alveg ófært að velja besta árið úr til að byggja á fjárhagsáætlanir, en loka augunum fyrir öllu öðru. Þetta getur aðeins leitt til rangra ályktana, sem verða höfundum þeirra til ámælis eftir á. Aðra hluti í ræðu hv. 2. þm. Rang. (KlJ) ætla jeg að leiða alveg hjá mjer.