20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

50. mál, tollalög

Björn Líndal:

Jeg hafði búist við að geta leitt hjá mjer að taka til máls í þetta sinn, en ræða hv. 2. þm. Rang. (KlJ) var á þann veg, að jeg get ekki komist hjá því að mótmæla nokkrum mestu fjarstæðunum, sem þar voru sagðar. Hv. 2. þm. Rang. taldi það einkennilegt form hjá okkur flm. þessa frv. að vilja afnema einkasöluna með einni viðbótargrein í tolllagafrv. Jeg fæ ekki sjeð, að neitt einkennilegt sje við þetta; tollhækkunin og afnám einkasölunnar stendur í nánu sambandi hvað við annað. Það er því ekki nema eðlilegt, að þetta sje flutt í sama frv. En hitt var óeðlilegt, að setja í lög um afnám einkasölunnar tollhækkunarákvæði. Það hefðu því átt að vera tvö frv. samkv. skoðun háttv. 2. þm. Rang. En það er búið að tefja þingið nóg með þessu eina frv., og mundi þá vart hafa gengið greiðlegar með tvö frv. um þetta efni.

Hvað viðvíkur þessum ¼ milj. króna tekjurýrnunarútreikningi, hlýtur hv. þm. sjálfur að vita, að hann er rangur, því hann reiknar með tölum, sem hann veit, að eru rangar, og gerir það aðeins til að villa mönnum sýn, ef einhver kynni að trúa. Hitt er vitanlegt, að deila má um það, hvort ekki hefði verið rjett að hafa tollhækkunina ívið meiri; en því er jeg algerlega á móti, bæði sakir þess, að jeg er sannfærður um, að ríkið fær að minsta kosti jafnmiklar tekjur af tóbakinu eftir breytinguna sem áður, og einnig sakir þess, að jeg vil ekki, að ríkið okri hóflaust á tóbaksástríðu manna.

Þá er rangt af hv. 2. þm. Rang. að telja varasjóð með í eignum landsverslunarinnar, því þessar rúmar 60 þús. kr., sem taldar eru í varasjóði tóbakseinkasölunnar, eru að mínum dómi allar tapaðar. Eða þorir hv. þm. að halda því fram, að engar skuldir sjeu tapaðar? Hann veit fult eins vel og jeg, að mjög margar af þessum skuldum eru algerlega tapaðar. Jeg leyfi mjer að fullyrða, að tap á skuldum nemi meira en allur varasjóðurinn nemur, og auk þess hlýtur nokkurt tap að verða á vörubirgðunum, og sennilega nemur það talsvert miklu fje. Og það er í raun og veru ekki undarlegt, þótt jafnstórt verslunarfyrirtæki og þetta verði fyrir talsverðu tapi á skuldum og birgðafyrningu, og það því fremur, sem það er rekið fyrir ríkisins reikning. Það er alkunnur mannlegur breyskleiki að gera sjer vini af hinum rangfengna mammoni, og hví skyldi það þá ekki líka geta freistað jafnvel góðra manna að gera sjer vini af fje ríkissjóðs, sem landsverslunarforstjórarnir geta farið með eftir geðþótta sínum, að heita má, ábyrgðarlaust.

Þá gleymir hv. 2. þm. Rang. (KlJ) að draga frá tekjum síðasta árs nálægt 90 þús. kr. hagnað á gengi og verðhækkun vörubirgða sakir 25% tollhækkunarinnar. Auðvitað er ekkert vit í að gera ráð fyrir slíkum alveg óvenjulegum tekjum árlega. Þessi ¼ miljón hv. þm. er því bygð á vísvitandi röngum reikningi að því er snertir helming upphæðarinnar, en hinn helmingurinn er bygður á spádómum, sem við ekkert hafa að styðjast, staðhæfingum, sem enginn fótur er fyrir. Þetta veit þessi hv. þm. eins vel og jeg, og sóma síns vegna ætti hann að spara sjer það að lemja svona átakanlega höfðinu við steininn.